Fullur skápur af fötum en ekkert til að fara í

Heiðar Jónsson

Yfirfullir fataskápar finnast áreiðanlega víða og samt standa eigendur þessara skápa oft frammi fyrir því að finnast þeir  ekki eiga neitt til að fara í, eða vita ekkert í hvað þeir eiga að fara. Heiðar Jónsson snyrtir segir að konur á hans aldri standi oft frammi fyrir þessu vandamáli.  „Þær finna ekki stílinn sinn af því það er svo mikið drasl í skápunum“, segir hann.

Skiptu fötunum í þrjá bunka

Heiðar sem um árabil aðstoðaði konur bæði við förðun, litaval og útlit almennt kann að sjálfsögðu ráð við því, hvað á að gera þegar skápurinn er fullur, en ekkert til að fara í. Hann segir að það þurfi að byrja á byrjuninni og gott að venja sig á það á vorin að tæma alla skápa og skúffur og þurrka vel innan úr þessum hirslum.  Setja öll fötin, undirföt og fylgihluti á hjónarúmið og skipta þeim í þrjá bunka.

„Í fyrsta bunkann fara föt sem þú ert hrifin af, líður vel í og notar mikið“, segir hann.

„Í annan bunkann fara föt sem  þú ferð stundum í. Föt sem eru næstum því í lagi og mætti lagfæra ef það er þess virði. Eða föt sem eru ekki í lagi og væri hægt að lagfæra en það borgar sig ekki“.

„Í þriðja bunkann fara fötin sem hanga  bara í skápnum, eða liggja bara í skúffunni. Einnig gömul slitin föt, jafnvel ónýt“, segir Heiðar og heldur áfram „ Allt sem fer í þriðja bunkann á að fara í Rauða krossin en ef það er ónýtt, á að henda því. Eina undantekningin eru föt sem hafa tilfinningalegt gildi, svo sem brúðarkjóllinn þinn og valdar flíkur. En almennt er ekki ástæða til að borga skápaleigu fyrir flíkur og hluti sem eru ekki notaðir, hvort sem þú átt íbúðina sjálfur eða leigir hana“.

Setja í geymsluna það sem ekki er í notkun

Heiðar segir að þetta þurfi að gera á hverju vori. „Ef við byggjum annars staðar í heiminum væri sama hvort við gerðum þetta að hausti eða vori. Við notum svo lítið sumarföt hér. En yfir veturinn er hægt að geyma sumarfötin í plastpoka í geymslunni og það er líka gott að láta fötin hanga á herðatré í plastpoka“.

Þegar fólk hefur lítið pláss, segir Heiðar að sama skapi  gott að taka vetrarfötin á vorin og setja þau í plast í geymslunni. „Ég myndi nota sama hengipokann yfir þær flíkur sem ég myndi aldrei fara í á sumrin“.

Hvaða flíkur þurfum við að eiga?

„Annað sem þarf að hugsa út í“, segir Heiðar „er hvort við notum mikið af fötum, skiptum oft um föt, eða höfum þetta einfalt og erum með tiltölulega þröngan fataskáp. Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvað við þurfum að eiga“.  Heiðar segir að það sem allar konur þurfi að eiga í skápnum séu eftirfarandi flíkur.

Tvískiptur kjóll.

Þrjár mismunandi blússur eða toppar.

Tvær peysur. Önnur hneppt eða rennd.

Tvær dragtir.

Einar síðbuxur.

„Eina frávikið frá þessu er, að ef konur nota lítið pils, geta þær fækkað pilsunum og fjölgað buxunum og öfugt fyrir þær sem nota meira pils, þær geta haft pilsin fleiri“, segir Heiðar. „Þetta þarf að vera í litum sem eru þínir aðallitir, einlitt eða mislitt. Hvort sem þú ert „greind“ eða „ógreind“,  segir hann sem rifjar upp fyrir blaðamanni hvað litgreiningar Heiðars voru gríðarlega vinsælar á níunda áratug síðustu aldar.

63 mismunandi klæðnaðir

Heiðar segir að konur sem eigi ofantalinn fatnað í fataskápnum séu þar með 63 mismunandi klæðnaði. Það sé hægt að nota flíkurnar hverja með annari í óteljandi útgáfum.  Það sé hægt að eiga ákveðinn fatnað, sem konur noti eingöngu í vinnunni, en annað til að vera í utan vinnu. Aðspurður hversu margar yfirhafnir þarf að eiga, segir Heiðar: „Ef þú átt dýran svo til vatns- og vindheldan frakka eða kápu með góðu fóðri, fer hún svakalega langt, svo er það sparikápa, þykkur jakki, regnkápa og úlpa, en fjárfesting í Burberry frakkanum með vatteruðu fóðri, er hrikalega góð fyrir þann sem getur lagt út fyrir honum í upphafi.

Makar skipta sér af fatavali

Heiðar nefndi einnig í samtalinu að makar ættu það til að skipta sér alltof mikið af fatavali maka síns. Þetta gilti bæði um karla og konur. „Ég vil ekki að þú sért í kjól,  ég vil ekki að þú sért í tvíhnepptum jökkum eða  mér finnst buxurnar sem þú ert í alltof síðar segir fólk. Þetta er einhver eignartilfinning eða afbrýðissemi. Það eru óskaplega margir makar sem eyðileggja þokka makans með þessu og það er náttúrulega sniðugt, að engan langi í nánari kynni við makann þinn“.

Ritstjórn mars 4, 2021 08:06