Tengdar greinar

Fundu ástina í næsta húsi með aðstoð Makaleitar

Einn stefnumótavefjanna sem starfar á Íslandi Makaleit.is er orðinn 10 ára.  Á þessum tíu árum hafa yfir 65.000 manns notað vefinn og fjölmargir þeirra hafa fundið ástina. Á þessum tíma hefur Makaleit staðið fyrir hraðstefnumótum, matreiðslunámskeiðum og spilakvöldum.

Björn Ingi Halldórsson eigandi vefsins bjóst í upphafi við að það yrði mest  ungt fólk sem myndi skrá sig inn á vefinn, en sú hefur ekki orðið raunin, eins og fram kom í viðtali við hann á Lifðu núna vefnum.  „Þegar ég setti vefinn upp hélt ég að 90 prósent allra sem myndu skrá sig yrðu á aldrinum 20 til 30 ára og meirihlutinn karlar. Raunin varð hins vegar allt önnur því hlutfall kynjanna er jafnt og flestir þeirra sem skrá sig eru á miðjum aldri,“ sagði  Björn Ingi í viðtalinu.  Hann sagði jafnframt að það væri  ekkert undarlegt því þessi aldurshópur væri hættur að fara út að skemmta sér og væri mikið inn á netinu. Netið væri staðurinn þar sem fólk kynntist í dag. Björn hefur fengið tölvupósta frá mörgum sem hafa náð saman í gegnum Makaleit og hefur birt margar frásagnir af því á vefnum, með leyfi þeirra sem hlut eiga að máli.

Það er gaman að lesa frásagnir þessa fólks. Sumir hafa greinilega leitað langt yfir skammt og á endanum fundið ástina í næsta húsi, með aðstoð Makaleitar!

Það þurfti bara eitt stefnumót

„Já það var vegna þess að ég fann ástina sem aðgangurinn fór í bið. Það þurfti bara eitt stefnumót og það besta var að hann bjó í næstu blokk við mig. Í dag erum við trúlofuð og ætlum viðað gifta okkur í ágúst næstkomandi. Takk kærlega fyrir okkur.“ (Kona 46 ára)

Við höfum aldrei verið eins hamingjusöm

Ég skráði mig inn á Makaleit í vor, þá var ekki liðinn langur tími frá því að ég varð ekkja, og var aðallega að leita að félagsskap. Ég var ekki búin að vera lengi inni á vefnum þegar ég rekst á prófíl sem mér leyst vel á. Ég sendi honum vinabeðni, sem hann samþykkti. Nú um 5 mánuðum seinna erum við flutt saman (enda var ekki nema ein blokk á milli okkar) og í dag bað hann mig um að trúlofast sér. Við höfum aldrei verið eins hamingjusöm. Við viljum bæði þakka Makaleit fyrir að okkar leiðir lágu saman.“ (Kona 52 ára)

Ástin okkar blómstrar

„Jú ástin okkar blómstrar og nú sem aldrei fyrr, ég flutti úr höfuðborginni til hans í litla sjávarþorpið hans og þrífst afar vel hér. Við fengum hvolp sem er okkar ‘hundabarn’ og er nýorðinn 2ja ára og erum núna í söluferli með eignirnar okkar og ætlum að kaupa saman hér. Væntanlega skráum við okkur í sambúð þá en ég hef verið ekkja í 10 ár.“ (Kona 61 ára)

Ég elska…

 …hvað þessi vefur er vandaður og vel að honum staðið!!  Takk takk, finnst ég geta verið örugg á honum og mun minni hætta, en á öðrum stefnumótasíðum, að lenda ekki í rugli, og ef það gerist með einhvern ákveðinn aðila, þá er hlustað á mann ef maður vill senda ábendingu. Líður vel með það að vera hér inni. Hjartans þakkir fyrir að skapa og búa til þennan flotta vettvang !“ (Kona 56 ára)

Var nú frekar vondauf um að einhver hefði áhuga á 79 ára gamalli konu

„Góðan dag, ég var svo heppin að finna manninn sem ég leitaði að mjög fljótt. Hafði verið ekkja í rúm sjö ár og var nú frekar vondauf um að einhver hefði áhuga á 79 ára gamalli konu. En viti menn, rak ekki á fjörur mínar ekkjumann sem hafði verið einn í rúm tvö ár, jafn gamall en kátur og hress og við ætlum að leiðast saman inní sólarlagið með viðkomu á Spáni. Takk kærlega Makaleit!“ (Kona 79 ára)

Mikið að gera með nýja kærastanum og manninum í mínu lífi

Heil og sæl. það er góð ástæða fyrir því að ég hef ekki komið inn á makaleit.is. Það er svo mikið að gera með nýja kærastanum og manninum í mínu lífi. Og hvar skyldi ég hafa hitt hann? Jú nema á Makaleit.is!!! Við erum búin að vera saman í fjóra mánuði, erum flutt saman og höfum ferðast mikið saman. Nú erum við á leið til sólarlanda og það má segja að hamingjan leiki við okkur og drjúpi af okkur. Takk fyrir okkur!!“ (Kona 54 ára)

Hringtrúlofuð í nær níu mánuði

„Við höfum nú verið hringtrúlofuð í nær níu mánuði og búið saman ívið skemur. Vona að Makaleit.is verði sem lengst við lýði. Í þakklætisskyni fyrir að hafa hjálpað okkur að kynnast er hér lítið vísukorn:
Á því leikur enginn vafi,
ykkur það ég segja vil:
Á Makaleit ég held mér hafi
hlotnast það sem best er til.“
   (Kona 58 ára)

Það er hægt að lesa fleiri frásagnir fólks sem hefur skráð sig inná Makaleit, með því að smella hér.

Það kostar ekkert að skrá sig á Makaleit, en ef fólk vill lesa og senda skilaboð er hægt að kaupa áskrift, til dæmis í einn mánuð á 1.299 kr. Björn Ingi eigandi vefsins vill bjóða lesendum Lifðu núna einn auka mánuð án kostnaðar ef þeir kaupa áskrift. Þeir þurfa bara að senda tölvupóst á makaleit@makaleit.is og biðja um Lifðu núna auka mánuð“, segir hann.

Ritstjórn maí 2, 2023 07:00