Gefumst ekki upp fyrr en réttlætið sigrar!

Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri  flutti ræðu á útifundi Gráa hersins á Austurvelli í gær og var skýr og skorinorð eins og hennar er von og vísa.  Lifðu núna fékk leyfi til að birta ræðuna og kemur hún hér, svolítið stytt.  Þórhildur  ræddi í upphafi máls síns um þau orð sem notuð eru um eldra fólk og sagði að sér hefði alltaf fundist orðið „eldri borgari“ tilgerðarlegt.

Þetta á víst að vera sagt í virðingarskyni, en virðingin er nú ekki meiri en svo að hér stöndum við til að sýna þeim samstöðu sem, fyrir hönd okkar allra, hafa höfðað mál gegn ríkinu. Til að berjast fyrir rétti okkar, virðingu okkar og sjálfsögðum mannréttindum, fyrir dómstólum.

En hættum að leika okkur að orðum og snúum okkur að gjörðum. Þeim gjörðum stjórnmálafólks að nota það fé sem við höfum safnað í lífeyrissjóði á langri starfsævi eins og svipu í refsingarskyni til að „draga úr útgjöldum ríkisins“ eins og það heitir á fínu máli. Svei þeim sem þannig sýna „virðingu sína og þakklæti“, sem þeim verður tíðrætt um á tyllidögum og í aðdraganda kosninga!  Og ef aldraðir borgarar eiga þess kost að vinna þá er svipunni beitt enn harðar. Almannatryggingar eru rangnefni. Fátækratryggingar væri nær lagi. Einungis ætlaðar þeim sem hafa unnið fyrir smánarlaun alla sína ævi, og eiga lítil sem engin lífeyrisrétindi. Að ekki sé nú talað um konur sem unnu launalaust við að ala önn fyrir öðrum og hafa því engin réttindi. Ekki ætla ég að sjá ofsjónum yfir þeirri hungurlús sem þessu fólki er skömmtuð.

Hún vék síðan að mikilli fjölgun þeirra sem eru 67 ára og eldri.

Þessi stóri hópur er jaðarsettur og lifir í raun að hluta utan samfélagsins í fleiri en einum skilningi. Þetta úreldingarkerfi hefur margar hliðar. Fyrst má nefna að það er lagt á herðar alltof fárra að halda „efnahagslífinu gangandi“ eins og stjórnmálafólk myndi orða það. Og sífellt fjölgar í ómagahópnum, því það er kunnara en frá þurfi að segja að þjóðin er að eldast  – enn  ein stjórnmálaorðalagsklisjan! – og það hratt. Hvaða glóra er þá í því að nýta ekki starfskrafta fullfrísks fólks? Menntun þess, reynslu, kunnáttu og viti er hent eins og einskis nýtu drasli. Hvílík sóun! Það blasir við að það á og verður, bæði samfélagsins og einstaklinga vegna, að hækka lífeyrisaldur verulega eða hugsanlega afmá öll mörk. Fólk á að geta unnið eins lengi og það getur og vill. Auðvitað eru þarfir og langanir aldraðra borgara margar og misjafnar eins og hjá öllum aldurshópum og sumir kjósa að hætta fyrr. Þeir sem sem hafa unnið erfiðisvinnu alla tíð, nú eða bara leiðinlega vinnu, eða af einhverjum öðrum ástæðum, eiga að hafa rétt til þess að hætta fyrr en nú er reglan og það á fullum eftirlaunum. Það verður að vera sveigjanleiki. Það getur ekki gilt ein allsherjar regla fyrir alla.

Jaðarsettur og utan samfélagsins í fleiri en einum skilningi sagði ég. Fyrir utan að vera meinuð atvinnuþátttöka og skertar greiðslur eru aldraðir borgarar nánast ósýnilegir. Þeir hverfa úr samfélaginu. Það er t.d. hending ef aldrað fólk sést eða heyrist í fjölmiðlum, nema ef verið er að fjalla um „málefni aldraðra“. Þá kannski bregður fyrir einum og einum eins og sýnishorni af tegundinni. Og oft er það eins og hálfgerður skrípaleikur. Það er talað við það í sama tóni og talað er við lítil börn. Tilgerðarlegum vinalegum rómi sem er lítillækkandi bæði fyrir börnin og aldraða.  „Er gaman í leikskólanum“ eru  börnin spurð, og ég bíð bara eftir að heyra „er gaman á elliheimilinu?“. En þegar „málefni aldraðra“ eru til umræðu er yfirleitt rætt um það eins og vandamál og þá miklu fremur við þá sem um málin véla heldur en aldraða sjálfa.

Og hún heldur áfram á svipuðum nótum.

Hvernig stendur á því að aldrað fólk er nánast aldrei kallað í þætti þar sem verið er að fjalla um samfélagsmál af ýmsu tagi. Hverjir ættu að vita meira um samfélagið en einmitt þeir sem búnir eru að ganga alla refilstigu þess. Ganga í skóla, vinna, koma börnum til manns og jafnvel barnabörnum.  Hafa reynslu af heilbrigðiskerfinu, annast aldraða foreldra, annast fjármál heimila, borgað af íbúðarhúsnæði og skulda flestir enn heilmikið, ekið vegina, tekið þátt í félagsstarfi, stundað íþróttir, notið lista og menningar. Upplifað kreppur og krísur og hrun, bæði síldarstofnsins og samfélagsins – og látið tuttugu til þrjátíu ríkistjórnir yfir sig ganga svo fátt eitt sé talið. Er virkilega ekkert til þessa hóps að sækja. Hefur enginn áhuga á þeirri visku og þekkingu sem hann býr yfir?

Þórhildur sagðist í niðurlagi ræðunnar ekki geta stillt sig um að nefna nýliðinn viðburð.

Það kom ábyggilega flestum á óvart þegar verðlaun, kennd við Tómas Guðmundsson, voru veitt nú fyrir skömmu. Sjötíu og níu ára maður, Jón Hjartarson, hlaut þau. Hann sagði, af fullri hógværð, þegar hann veitti verðlaununum viðtöku, eitthvað á þá leið að þó maður væri orðinn sjötíu og níu ára hætti maður ekki að hugsa og jafnvel ekki skapa! Já, það skyldi þó aldrei vera!

En að kvörtunm og klögumálum slepptum er margt mjög jákvætt sem hægt er að tíunda um líf aldraðra, það er að segja svo lengi sem heilsa og kraftar leyfa. Og sá hópur sem er í fullu fjöri fer sífellt stækkandi og lifir við betri heilsu til hærri aldurs en gengnar kynslóðir. Fjölmargir aldraðir njóta lífsins með ýmsu móti og eru virkir, bæði andlega og líkamlega. Lifa fjölbreyttu félagslífi, stunda útivist og líkamsrækt, fylla námskeið og fundi, fylgjast af áhuga með íþróttaviðburðum, stunda leikhús og tónleika eða hvað það sem hver kýs til að lifa innihaldsríku og skemmtilegu lífi. En það kemur ekki í veg fyrir að þessi fjölmenni hópur vilji réttlæti. Þess vegna erum við hér í dag. Ekki til að biðja um innhaldslausa virðingu heldur réttlæti og það mega ráðamenn vita að við gefumst ekki upp fyrr en réttlætið sigrar!

 

Ritstjórn október 30, 2021 14:02