Útifundur eftir aðalmeðferð í máli Gráa hersins á morgun

„Það verður brjálaður útifundur á Austurvelli á föstudaginn þegar aðalmeðferð skerðingamálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur er lokið, eða nánar tiltekið klukkan 14,“ segir Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, hlæjandi þegar blaðamaður Lifðu núna náði í skottið á honum á Blönduósi, en þar var hann á hlaupum á fund með eldri borgurum í bænum. Í gær var hann á Sauðárkróki og fundaði þar einnig með Félagi eldri borgara. Hann segir að um 70 manns hafi verið á fundinum á Sauðárkróki og þessar ferðir séu liður í þeim áformum hans að fara um allt land til að heilsa upp á félög eldri borgara. „Það er mjög skemmtilegt að hitta fólkið á stöðunum,“ segir hann.

Allir velkomnir í dómssal meðan húsrúm leyfir

Aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi hefst klukkan 9:15. „Málsmeðferðin fer fram í stærsta salnum í Héraðsdómi og fólki er velkomið að koma þangað á meðan húsrúm leyfir,“ segir Helgi. Það eru þrír sem stefna ríkimu og verða málin þrjú tekin fyrir hvert á eftir öðru. Fyrst mál Ingibjargar H. Sverrisdóttur, síðan mál Sigríðar J. Guðmundsdóttur og endað verður á máli Wilhelms Wessmans sem hefst klukkan 13 og á að standa í um hálftíma.

Góð veðurspá og tilvalið að fá sér göngu í bæinn

Aðalmálsmeðferðinni hefur verið frestað hvað eftir annað, en nú er stóra stundin loks að renna upp. Það var því ákveðið að efna til fundar á Austurvelli að lokinni málsmeðferðinni. Lögmennirnir Daníel Ísebarn Ágústsson og Flóki Ásgeirsson munu á úitifundinum fara stuttlega yfir afstöðu beggja aðila og að því búnu verður skemmtidagskrá. Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri flytur ávarp og þjóðþekktir skemmtikraftar koma fram. „Andrea Jónsdóttir ætlar að hita upp fyrir okkur og spila All you need is love!“ segir Helgi og býst við bítlastemningu á fundinum. „Það hefur ekki mátt koma saman svo lengi, nú er útlit fyrir gott veður á föstudaginn og ég hvet alla eldri borgara og þá sem vilja styðja málstaðinn til að mæta. Andrea byrjar að hita upp klukkan hálf tvö og ég veit að veitingamenn í miðbænum ætla að taka vel á móti eldra fólki. Það er tilvalið að ganga í bæinn í góða veðrinu,“ segir Helgi.

Hvernig ver ríkið skerðingarnar?

Það getur brugðið til beggja vona með niðurstöðuna í málinu, en Helgi segist heyra í fólki sem spáir því að málið vinnist. „En það verður fróðlegt að heyra málflutning ríkisins, hvernig ver það þessar skerðingar, af hverju eru þær, hver stendur fyrir þessu og hvaða reikningskúnstir eru þetta?“

Ritstjórn október 27, 2021 12:59