Gefur langtímaatvinnulausum „Tækifærið“

Björk Vilhelmsdóttir er Íslendingum vel kunn bæði fyrir stjórnmálaferil sinn og störf að velferðarmálum sem sérfræðingur í félagsráðgjöf. Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur frá 2002 til 2015, fyrstu fjögur árin fyrir Reykjavíkurlistann en frá 2006 fyrir Samfylkinguna. Hún einbeitti sér að velferðarmálum í borgarstjórnartíð sinni og var m.a. formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar í rúman áratug. Ásamt eiginmanni sínum Sveini Rúnari Haukssyni lækni hefur hún líka unnið að mannúðarstörfum í Palestínu og víðar.

Björk með manni sínum Sveini Rúnari Haukssyni lækni.

Frá árinu 2018 og fram á síðastliðið ár starfaði Björk hjá starfsendurhæfingarsjóðnum VIRK, en þá stofnaði hún eigið fyrirtæki á sviði starfsþjálfunar, sem fékk nafnið TÆKIFÆRIÐ. Undir merkjum Tækifærisins vinnur Björk með ungu langtímaatvinnulausu fólki af erlendum uppruna að því að rata aftur inn á vinnumarkaðinn.

Fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun

„Hér erum við, nánar tiltekið, að tala um hóp sem samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu er þekktur undir ensku skammstöfuninni NEET, sem stendur fyrir „Not in Education, Employment or Training“, þ.e. ekki í vinnu, skóla né starfsþjálfun,“ útskýrir Björk í samtali við Lifðu núna.

Ungt fólk af erlendum uppruna, sem skortir tengslanet í íslensku samfélagi, er að hennar sögn í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þegar það einu sinni lendir í langtímaatvinnuleysi er því hættara við að eiga sérstaklega erfitt með að rata aftur inn á vinnumarkaðinn.

Björk segir að eftir að hún hætti í stjórnmálunum dreif hún sig í mastersnám í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands. Þar hafi hún valið að beina rannsókn sinni að ungu lesblindu fólki sem taldist til NEET-hópsins. Það vakti athygli hennar hve illa þau úrræði nýttust sem þó voru í boði fyrir fólk í þessari stöðu. „Ég vildi finna svör við því hvað kæmi í veg fyrir að þessi úrræði nýttust sem skyldi,“ segir Björk.

Sjálfsmyndin brotin

Hún gerði nýja rannsókn á árunum 2017-2018 með 9 einstaklingum í þessum hópi. Niðurstaðan: „Einstaklingarnir sjálfir í þessum hópi eru svo uppteknir af því hvað þau eru ómöguleg. Sjálfsmyndin er brotin; hún tekur mjög sterkt mið af greiningunni sem þau hafa fengið í kerfinu, sem lesblind, með ADHD, kvíðaröskun o.s.frv.“ segir Björk. Þetta sé aðalástæðan fyrir því hversu illa þau beri sig eftir þeim úrræðum sem þó eru í boði – þau líti á sig sjálf sem vandamálið.

Björk segir að hún hafi gengið til liðs við VIRK ekki sízt með það í huga að ætla að reyna að hafa áhrif þjónustu við þennan hóp. „Ég vildi mæta þessu unga fólki þar sem það er statt, á þeirra eigin forsendum.“

Hún hafi komizt að því að í mörgum tilvikum sé unga fólkið fast í velferðarkerfinu. Dæmigert mynstur sé á þessa leið: Viðkomandi hafi verið nógu lengi í einhverri vinnu til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta. Síðan misst þá vinnu, og „tekið út kvótann“ af atvinnuleysisbótum, sem eru greiddar að hámarki í tvö og hálft ár frá því viðkomandi var síðast í vinnu. Á þessum tíma komi til margvíslegur heilsubrestur og því fari viðkomandi úr einu úrræðinu í annað þar sem boðið er upp á meðferðir við greindum vanda. Það breyti þó ekki viðhofum né félagslegri stöðu og dugi því ekki til að gera þau aftur að virkum þátttakendum á vinnumarkaði.

Valdeflandi endurhæfing

„Misskiljið mig ekki,“ leggur Björk áherzlu á; „VIRK er að vinna frábært starf – en er því miður ekki að ná nógu góðum árangri með þetta unga fólk þar sem starfsendurhæfingin tekur svo langan tíma. Og ekki er unnið með félagslegan vanda.“ Hún hafi því viljað þróa starfsþjálfun sem byggi á styrkleikum þessa fólks sjálfs. Uppbyggjandi, valdeflandi þjálfun, ekki „meðferð“. Til þess að láta á þessar hugmyndir sínar reyna stofnaði hún  Tækifærið.

„Þeir sem koma til mín eiga að vilja nýta tækifærið til að breyta lífi sínu til hins betra og vilja fara beint í vinnu að starfsþjálfun lokinni, og haldast í henni,“ segir Björk. Þetta sé þriggja mánaða „intensíf“ þjálfun í að byggja upp vinnufærni.

Björk útskýrir: „Vandamálið er að eftir því sem lengra líður frá því fólk var síðast í vinnu stækkar stöðugt gapið milli vinnufærni þess og jafnaldra þeirra sem eru allan tímann virkir í vinnu eða námi.“ Það séu í reynd mjög fá úrræði sem haldi fólki í virkni og dugi til að halda vinnufærni þeirra óskertri. Eftir því sem lengra líður frá síðustu vinnu reynist þrautin þyngri að komast aftur inn á vinnumarkaðinn.

Margir „festast í kerfinu“

Í millitíðinni sé algengt að þessir einstaklingar lendi í áunnum heilsuvanda, sem er beint að rekja til vanvirkninnar, bæði þunglyndi, kvíði og ekki síst stoðkerfisvandi sem rekja má til hreyfingarleysis og því að liggja heilu næturnar í tölvuleikjum í rúminu í vondum stellingum. Björk segir það einfaldlega vera „yfirgengilegt“ hve margir festist í kerfinu og rati ekki inn á nógu uppbyggilega braut til að komast aftur í vinnu.

Undir merkjum Tækifærisins er Björk búin með einn tilraunahóp með sjö einstaklingum. Það vill þannig til að allir eru þeir ungir karlmenn af erlendum uppruna. Hún segir að óháður aðili hafi verið fenginn til að meta árangurinn en niðurstaðan úr því mati liggi ekki fyrir ennþá.

Með þessum fyrirvara fullyrðir Björk að árangurinn sé ótvíræður: Af þessum sjö einstaklingum sem hófu þriggja mánaða þjálfunardagskrána séu nú fimm í vinnu, fjórir í fullri vinnu og einn í hlutastarfi. Þeir tveir sem ekki hafi komist í vinnu eigi báðir við heilsufarsvanda að stríða. Annar bíður þess að komast í augnaðgerð en er tilbúinn í vinnu að því loknu, en hinn glímir við geðrænan vanda sem hann sé nú kominn í viðeigandi meðferð við.

Farið er í dags-skemmtiferð í lok dagskrár Tækifærisins.

Viðhorfsmótun galdurinn

Galdurinn að baki þessum árangri – fimm af sjö langtímaatvinnulausum komnir í vinnu – sé fyrst og fremst það sem hún kallar viðhorfsmótun: Þeir voru fastir í vítahring doða, lágs sjálfsmats og kvíða. Með endurhæfingu Tækifærisins hafi tekizt að rjúfa þennan vítahring og byggja upp vinnufærnina.

Björk lýsir ferlinu svo: „Ég ákvað að vinna mjög markvisst með þennan hóp. Fyrst vorum við hér í bænum í húsnæði Námsflokka Reykjavíkur. Svo í nokkrar vikur í röð á Bifröst í Borgarfirði. Þar bjuggum við í stúdentaíbúðum, höfðum mjög góða aðstöðu til útivistar og tómstunda. Þá var einungis boðið upp á hollt mataræði og reglu í daglegu lífi. Vinnuendurhæfingin sjálf byggði á samstarfi við eigendur Hreðavatnsskála og Hraunsnefs, þau Brynju og Jóa.“

Hreðavatnsskáli hafi þarfnast mikilla viðgerða, og það hafi hentað sínu fólki sérstaklega vel að annast tiltekna verkþætti og sinna þeim frá upphafi til enda. „Það að byrja og klára verkefni er svo mikilvægt til að byggja upp seiglu!“ segir Björk. Dæmi um verk sem skjólstæðingar Tækifærisins sinntu var að gera upp húsgögn, pússa og mála gólf, rífa niður og byggja veggi og fleira í þeim dúr.

„Við byrjuðum á að fela þeim að vinna hver við sitt afmarkaða verkefni í tvo tíma á dag, svo þrjá, svo fjóra“ segir Björk. Bara það að komast í rútínu, hitta fólk á hverjum degi, hafa markvissum verkum að sinna undir velviljaðri en agaðri verkstjórn, reglulegum máltíðum o.s.frv. gerir kraftaverk!“ segir Björk stolt.

Reynslumikill rafvirki, Jón Eyþór Helgason, hafi séð um verkstjórnina, þ.e. hina eiginlegu starfsþjálfun. Hún sjálf hafi annast andlega, félagslega og líkamlega hlið endurhæfingarinnar, með aðstoð hollenzkrar konu, Elisabeth Nienhuis, sem bæði sé menntuð leikkona og sálfræðingur.

Móttaka flóttamanna

„Svo kom það upp, um það leyti sem við vorum að fara með hópinn upp á Bifröst, að Borgarbyggð ákvað að taka á móti rúmlega 100 úkraínskum flóttamönnum,“ segir Björk, og heldur áfram: „Við spurðum okkar hóp hvort þeir væru til í að taka þátt í þessu? Allir til í það. Okkar menn tóku fullan þátt í því sem þurfti að gera til að græja tómar stúdentaíbúðir fyrir móttöku flóttafólksins – bera ísskápa, húsgögn og hvaðeina. Einn 27 ára, pólskur, sagði einn morguninn þegar hann var að fara í verkin eftir morgunmatinn:

Björk með konu úr hópi flóttafólksins frá Úkraínu sem hún tók þátt í að taka á móti.

„Ég hef aldrei áður verið að fara í svona mikilvæga vinnu!“ Og þar talaði hann fyrir munn okkar allra – við blómstruðum í þessu starfi,“ segir hún.

Auk þess að koma með þessum hætti beint að undirbúningi móttöku flóttafólksins fékk Borgarbyggð Björk ennfremur til að vera ráðgjafi við móttöku þess. Enda með reynslu af því til  að mynda að vinna sjálfboðastörf í flóttamannabúðum Palestínumanna.

„Það var yndislegt að fá að leggja þessu verkefni lið,“ segir Björk um móttöku úkraínska flóttafólksins á Bifröst. Borgarbyggð hafi staðið sig svo vel. „Engir veggir milli stofnana, stuttar boðleiðir, allt hægt!“ Þetta hafi verið stórkostlegt að upplifa; samfélag fólks sem tekur ábyrgð.

Hún lítur líka á Tækifærið sem samfélag fólks sem tekur ábyrgð. Í haust mun nýr hópur ungs langtímaatvinnulauss fólks af erlendum uppruna ganga í gegn um starfsþjálfun Tækifærisins. Það er Vinnumálastofnun sem velur fólk til þátttöku. Þriggja mánaða dagskráin er nú þegar fullfjármögnuð, að sögn Bjarkar. Henni hafi reynzt unnt að safna styrkjum frá ýmsum aðilum sem tryggi framhaldið, að minnsta kosti um sinn. Hún bætir við að maðurinn hennar, Sveinn Rúnar, sé bakhjarl Tækifærisins og með hans stuðningi hafi hún getað unnið launalaust að undirbúningi þess.

Sækir hvata í eigin reynslu frá unglingsárum

Björk með yngsta barnabarnið.

Björk vill líka gjarnan geta þess hver sé hennar sterkasti persónulegi hvati til að helga sig þessu krefjandi verkefni, en það sé hennar eigin reynsla frá unglingsárunum. Hún hafi strax á gagnfræðaskólaaldri lent í erfiðleikum, fallið á samræmdu prófunum og út af hinni beinu braut. En hún hafi notið þess að hafa móður sem studdi börn sín og gerði þá kröfu til þeirra að þau kláruðu annað hvort menntaskóla eða iðnmenntun. Í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hafi hún fundið námsgleðina á ný, og síðar í Háskólanum. Nú sé hún að verða 59 ára gömul og vilji helga síðasta áratug starfsævinnar því verkefni að vinna með þessum jaðarsetta hópi ungs fólks af erlendum uppruna að finna sína leið til fullrar samfélagsþátttöku, atvinnu og hamingju.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn maí 27, 2022 13:55