Sóun að nýta ekki starfskrafta eldra fólks

Karl Gauti Hjaltason

 

Karl Gauti Hjaltason þingmaður Miðflokksins skrifar grein í Morgunblaðið í dag um atvinnumöguleika eldra fólks, en í síðustu viku stóð hann fyrir umræðu um málið á Alþingi. Í greininni kemur fram að langtímaatvinnuleysi meðal eldra fólks sé algengt. „Eldri aldursópar meðal atvinnulausra eru lengur atvinnulausir en þeir yngri“, segir hann í greininni og heldur áfram:

Hvað segir þetta um vinnumarkaðinn? Ríkir hér aldursmisrétti á vinnumarkaði? Eru íslenskir atvinnurekendur haldnir aldursfordómum þegar kemur að því að ráða fólk í vinnu? Fólk sem missir vinnuna um eða eftir fimmtugt virðist eiga erfitt með að fá vinnu að nýju. Er þetta fólk úr leik hvað atvinnuþáttöku varðar? Erum við með fólk í gildru síðustu ár starfsævi þess? Margt fólk á þessum aldri er vel menntað og þa’ sem meira er, það hefur unnið sér inn dýrmæta reynslu sem er eftirsóknarverð og ætti að nýtast vel. Þá hafa margir vinnuveitendur þá reynslu af eldri starfsmönum að þeir eru gjarnan ábyggilegasta starfsfólk hvers vinnustaðar, ef horft er til mætingar og stundvísi. Að vinnufúst fólk á þessum aldri fái ekki atvinnu er merki um mikla sóun í samfélaginu. Hér er verið að kasta verðmætum á glæ og dýrmæt reynsla nýtist ekki sem skyldi.

Karl Gauti lýsir því í greininni hvernig menn lifa lengur en áður við betri heilsu og rætt sé um að hækka eftirlaunaaldur og gera fólki kleift að vinna lengur en til sjötugs. Hann telur að þeim sem auglýsa eftir starfsfólki beri skylda til að svara öllum umsóknum, veita eigi eldra fólki tækifæri til að sanna sig í viðtölum og hann veldir líka upp hvort taka þurfi upp aldurskvóta, svipaðan kynjakvóta og hvort fella eigi kennitölu úr úr starfsumsóknum.  Að lokum segir í greininni:

Þingmenn voru sammála um að hér þyrfti hugarfarsbreytingu til og svo sannarlega þarf að taka umræðuna lengra um þetta þarfa málefni, sem ég veit að brennur á mjög mörgum úti í samfélaginu. Að vera atvinnulaus um lengri tíma veldur viðkomandi höfunartilfinningu, kvíða, þunglyndi og endar á stundum með örorku. Opinberir aðilar sem oft eru stórir vinnuveitendur gætu tekið að sér að vera til fyrirmyndar í þessu efni. Þeim ver að sýna gott fordæmi, enda felast í því miklir þjóðfélagslegir hagsmundir að nýta starfskrafta og reynslu eldra fólks.

Þá kemur líka fram í greininni að Karl Gauti hefur sent fjármálaráðherra skriflega  fyrirspurn um aldur þess fólks sem ráðið hefur verið til ríkisins á seinustu árum.

Ritstjórn október 3, 2019 10:26