Gerðu lagalista áður en þú færð Alzheimer

Svava Aradóttir

Svava Aradóttir

 Svava Aradóttir, framkvæmdastjóri FAAS, Félags áhugafólks og aðastandenda Alzheimersjúklinga og annara skyldra sjúkdóma segist ekki vita til að músíkþerapíu hafi verið markvisst beitt hér á landi við þjálfun fólks með heilabilun. Hins vegar sé tónlist mikið notuð í dagþjálfun þessa hóps.„Það er alveg ótrúlegt hvað tónlist getur gert fyrir Alzheimersjúklinga og fólk með skylda sjúkdóma. Allt í einu man fólk sem ekki getur lengur boðið góðan daginn texta, og ég hef séð mann sem ekki gat lengur borðað hjálparlaust spila á píanó. Þegar hann settist við hljóðfærið rifjaðist upp fyrir honum það sem hann áður kunni,“ segir hún og heldur áfram. „Ég ráðlegg öllum að byrja snemma á að gera lista með uppáhaldslögunum sínum, því það veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég get til dæmis ekki ætlast til þess ef ég fer á hjúkrunarheimili að ungt fólk sem þar kann að vinna viti að uppáhaldslagið mitt er Popplag í G-dúr. Lag sem hefur veitt mér ómælda gleði í 35 ár. Við eigum flest okkar uppáhaldslög, lög sem færa okkur vellíðan og góðar minningar tengjast. Þess vegna er svo mikilvægt að skrifa niður lagalista ef við missum minnið af einhverjum orsökum,“

Vöknuð til lífsins

Handan_minninga_ Og það gerist í einni svipan. Eins og ýtt sé á takka. Einhver lætur þig byrja á uppáhaldslögunum þínum og allt í einu ertu vöknuð til lífsins og manst hver þú ert. Ég er farin að sjá að tónlist er það eina sem bjargar þér frá þögninni og rimlum fangelsins, skrifar Sallý Magnusson í bókinni Handan minninga. Bókin fjallar um líf móður hennar og hvernig heilabilun breytti öllu lífi hennar og hennar nánustu.  Á systurvef Lifðu núna, aarp.com var nýlega fjallað um hvernig tónlist getur bætt líf Alzheimarsjúklinga. Þar segir að nýjar rannsóknir staðfesti gamlar hugmyndir þeirra sem annast ummönnun fólks með vitglöp. Að tónlist bæti ekki aðeins skap heilabilaðs fólks, heldur geti hún einnig styrkt hæfileika þeirra til tjáningar og samskipta og dragi jafnframt úr þörf fyrir tiltekin geðlyf. Tónlistarþerapistar sem annast Alzheimersjúklinga segja frá því að þeir sjái fólkið bókstaflega vakna þegar uppháhaldstónlist sjúklinganna hljómar. Oft gerist það að sjúklingur sem hefur ekki talað mánuðum eða jafnvel árum saman fær málið aftur og verður meðvitaðri um umhverfi sitt og félagsskap. Sumir muna aftur löngu gleymd nöfn og muna jafnvel hverjir þeir eru sjálfir, nokkuð sem er algengt að þeir sem þjást af Alzheimer gleymi.

Tónlist sem lyf

Oliver Sacks

Oliver Sacks

Í bók sinni „Musicophiliathat for Alzheimer’s patients“ skrifar taugalæknirinn Oliver Sacks að tónlist geti verið þessum sjúklingum sem lyf. „Tónlist er þessu fólki nauðsyn og getur verið svo öflug að hún skilar þeim aftur viti til að þekkja sjálfa sig og aðra, að minsta kosti um stund.“ Taugasérfræðingurin Jane Flinn prófaði ásamt Lindu Maguire aðstoðarkonu sinni hvernig söngur virkaði á Alzheimerssjúklinga. Sjúklingarnir fengu að syngja reglulega nokkur gömul og vinsæl lög og voru jafnframt prófaðir með prófi sem á að mæla samskiptahæfileika. Þær stöllur sýndu fram á að samskiptageta batnaði verulega á fjögurra mánaða tímabili. Jane segir að á síðast liðnum níu árum hafi tuttugu og eitt lyf verið reynt á Alzheimersjúklingum með litlum eða engum árangri. Hún segist trúa því að nothæft lyf eigi eftir að finnast en sú leit taki mjög langan tíma og því sé mikilvægt í millitíðinni að reyna aðferðir sem byggja ekki á lyfjagjöf. Connie Tomaino er talin frumkvöðull í tónlistarmeðferð. Fyrir 37 árum síðan gekk hún inn á deild heilabilaðra með gítar í hönd og leit yfir sjúklingahópinn. „Margir voru dofnir af allt of miklum lyfjum og um helmingur var hreyfingarlaus með næringu í æð. Þeir órólegu voru með vettlinga á höndum og voru bundnir niður í hjólastóla. Ég byrjaði að syngja gamalt vinsælt lag og margir sem voru annars taldir heilabilaðir lyftu höfði og litu á mig. Þau órólegu róuðust. Flest tóku þau undir.“

Fékk málið aftur

Connie Tomaini

Connie Tomaino

Hún átti seinna eftir að stofna „Institute for Music and Neurologic Function“ til að hvetja til rannsókna á því hvaða áhrif tónlist hefur á heilann. „Tónlist er flókin“ segir hún. „Heyrnartaugar hafa beina tengingu við þann hluta heilans sem stjórnar athyglisviðbrögðum þannig að tónlist getur valdið því að einstaklingurinn hrökkvi við og fari að taka eftir.“ Athuganir Tomaino leiddu í ljós að lög sem hafa einhverja merkingu fyrir Alzheimersjúklinga geta vakið upp viðbrögð hjá þeim, jafnvel sjúklingum sem eru mjög langt leiddir. Ein kona sem var alveg hætt að tala fékk málið aftur eftir mánaðar tónlistarmeðferð. Hún sagði setningar á borð við „Krakkarnir eru að koma. Ég þarf að elda kvöldmatinn.“ Lögin kölluðu fram orð og minningar og ráð Tomaino til þeirra sem standa nálægt fólki sem hefur nýlega greinst með sjúkdóminn er að byrja að tengja lög við ákveðnar persónur eða mikilvæg hugtök þannig að lögin geti síðar kallað fram þau tengsl í huga sjúklingsins.

 

Ritstjórn október 22, 2015 14:07