Einmanaleiki getur leitt til ótímabærs dauða

Hank Williams söng eitt sinn „I‘m so lonesom I could cry“ en hefði allt eins getað sungið „I‘m so lonesome I could die.“ Því miður eru þetta engar ýkjur segir á vefnum aarp.org. Stöðugt fleiri rannsóknir á vesturlöndum sýna fram á tengsl á milli einmanaleika og líkamlegra og andlegra sjúkdóma. Þessi tengsl eru hins vegar ekki alltaf augljós. Það er tiltölulega einfalt að greina sjúkdóma á borð við sykursýki, ýmsar tegundir krabbameina og vöðvabólgu en það getur verið erfiðara að greina einmanaleika. „Það verður einhver að segja þér að hann eða hún sé einmana,“ segir Kerstin Gerst Emerson háskólaprófessor. „Það er hægt að taka blóðsýni úr fólki senda það í allskonar klínískar rannsóknir og þá kemur í ljós hvort það er haldið einhverjum þessara sjúkdóma. Að greina einmanaleika byggist hins vegar á að spyrja spurninga. Að búa einn er ekki alltaf vandamálið þó það geti verið. Það er mikilvægara að greina hvort fólki finnist það búa við félagslega einangrun. Upplifi lítil eða engin tengsl við ættingja eða vini.  Við erum öll einmana stöku sinnum en vandamálin byrja að hrannast upp þegar fólki finnst það  eitt daginn út og inn.“

Þegar einmanaleiki verður lífsstíll getur hann haft mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Sresshormónin í líkamanum geta hækkað, fólki er hættara við að fá hjartaáfall, heilablóðfall, heilahrörnunarsjúkdóma og deyja ótímabærum dauða. Samkvæmt nýlegri rannsókn telja 42 milljónir Bandaríkjamanna sig stöðugt einmana og talið er að fjöldi þeirra eigi eftir að aukast í framtíðinni. Því fjórðungur Bandaríkjamann býr einn og næstum helmingur þeirra er ógiftur. Í ljósi þessara staðreynda óttast sumir heilbrigðisstarfsmenn að einmanaleiki með tilheyrandi heilsubresti og ótímabærum dauða verði að faraldri.

Ritstjórn mars 7, 2019 09:21