Tengdar greinar

Getur verið að þú eigir rétt á ellilífeyri í tveimur löndum?

Margir sem hafa til að mynda búið í lengri eða skemmri tíma á Norðurlöndunum og unnið þar, kunna að eiga sér iðgjaldasögu þar og gætu þannig átt rétt á ellilífeyri þaðan. Til að eiga réttindi í öðru landi er lágmark að hafa búið þar í eitt ár.

Tryggingastofnun ríkisins í Kópavogi

Um þessi réttindi segir í bæklingi frá TR. „Þeir sem hafa starfað í tveimur löndum innan EES eða fleiri og áunnið sér þar rétt til lífeyris eiga rétt á að fá lífeyri greiddan frá hverju landi fyrir sig þegar lífeyrisaldri er náð“.

Telji fólk sig eiga rétt í öðru EES landi getur það sótt um ellilífeyri í gegnum Mínar síður hjá Tryggingastofnun.  Þar er tekið við umsókninni og farið yfir hana. Síðan sendir starfsfólk TR umsóknina áfram á þar til gerðum eyðublöðum, til landsins þar sem fólk telur sig eiga réttinn.

Tryggingastofnun aðstoðar þau sem eiga mögulega réttindi í Bandaríkjunum og Kanada, en réttindi milli landa byggjast á gagnkvæmum samningum.

Afgreiðslutími umsókna sem eru sendar til vinnslu erlendis, getur verið allt að 6 mánuðir.

Þeir sem eiga rétt, fá þá greiðslur að utan og bætast þær við tekjurnar sem TR hefur til hliðsjónar þegar ellilífeyrir viðkomandi er reiknaður út. Þær geta þannig hugsanlega lækkað greiðslurnar sem fólk fær hér á landi.

Eigi menn rétt á ellilífeyri í fleiri en einu landi þarf alltaf að sækja um ellilífeyri í landinu þar sem fólk er með lögheimili. Þannig þarf Íslendingur sem flytur til Spánar og hefur lögheimili þar að sækja um það þar í landi, að fá ellilífeyrisgreiðslur frá Íslandi.

Fólki er bent á að sækja tímanlega um ellilífeyrisgreiðslur milli landa. Mælt er með því í bæklingi TR að fólki sæki um sex mánuðum áður en það verður 67 ára.  Hér á Íslandi þarf fólk að vera 67 ára til að geta sótt um ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun. Þó er heimilt að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri, en þá lækkar lífeyririnn varanlega. Lífeyrisaldur er mismunandi eftir löndum. Í Evrópu er algengur eftirlaunaaldur 65-67 ára, en það er þó ekki algilt.

Sjá meira um réttindi erlendis á vef Tryggingastofnunar með því að smella hér.

 

 

 

Ritstjórn desember 14, 2022 07:00