Giftist æskuástinni eftir 30 ára aðskilnað

Þórdís Eiríksdóttir fór sautján ára til eyjunnar Jersey og starfaði þar sem au pair. Hún kynntist ungum manni, Kevin Costello og þau áttu í ástarsambandi. En lífið kom upp á milli þeirra en eftir þrjátíu ára aðskilnað setti hann sig í samband við hana og þau giftust. Nú býr Þórdís hluta úr ári á ævintýraeyjunni Jersey og leiðir landa sína í gönguferðum um söguslóðir þessarar einstöku náttúruperlu.

Þórdís ólst upp í Garðabænum en langaði á unglingsaldri að skoða heiminn. „Á þeim árum var ekki margt í boði fyrir ungar stúlkur sem langaði að fá sumarvinnu erlendis,“ segir Þórdís. „Ferðaskrifstofan Útsýn bauð þó upp á þá þjónustu að útvega íslenskum ungmennum. hótelstörf.  Jersey var  á þessum tíma algjör ferðamannaparadís, sól, sæla og hvítar sandstrendur og ég og vinkona mín sóttum um vinnu á hóteli á þessari fallegu eyju. Síðan kemur í ljós að þar sem ég var bara sautján og varð ekki átján fyrr en í október mátti ég ekki vinna á hóteli. Vinkona mín var fædd fyrr á árinu og var því í lagi. Úr varð að ég fór sem au pair til fjölskyldu í staðinn.

Þetta sumar hitti ég Kevin. Raunar ekki fyrr undir lokin. Hann var í háskólanámi og kom þarna á sumrin og vann sem pikkaló á hóteli í eigu fjölskyldunnar sem ég var hjá. Það var svolítið skondið að hann hélt að ég væri dóttir eigandans því ég kom alltaf með honum. Kevin datt því ekki til hugar að tala við mig en þegar hann komst að því undir lok sumars að ég var bara au pair-stúlkan gengdi þar öðru máli. Dag einn í ágúst stendur hann allt í einu fyrir utan búðarglugga verslunar sem ég var að koma út úr og spyr mig hvort ég vilji ekki koma með sér og fá mér drykk.“

Fékk þrjú bréf fyrstu vikuna

Þórdís þáði það og þarna hófst samband þeirra. Þau reyndi að viðhalda fjarsambandi eftir að hún fór heim en mun erfiðara var um vik þá en nú að teygja sig yfir höf og lönd. „Fyrstu vikuna heima fékk ég þrjú bréf frá honum,“ segir Þórdís og hlær. „Ég var alveg steinhissa á þessum dugnaði við skrifin en sagði honum að ég gæti ekki svarað svo mörgum bréfum bæði hefði ég ekki tíma til þess og svo hefði ég einfaldlega ekki nóg að segja til að það mætti endast í svo mörg bréf. Ég sagðist skyldi skrifa honum bréf vikulega. Næsta sumar fór ég út og hann kom eitt sinn hingað og vann einn mánuð hjá Vélsmiðjunni Héðni. Hann var í hádegismat á vinnustaðnum  og fékk, segir hann, soðinn fisk og sætsúpu á hverjum degi. En allt þetta lagði hann nú á sig til að við gætum verið saman. Eftir tveggja ára fjarsamband fór smátt og smátt að slitna upp úr þessu og á endanum skildu leiðir að fullu.“

Kevin hafði sest að á Jersey eftir háskólanám. Hann er írskur og uppalinn í Belfast þar sem voru miklir rósturtímar þegar þau Þórdís hittust fyrst. Kevin er hagfræðingur og endurskoðandi og eftir að námi lauk stakk einhver vina hans á Jersey upp á því við hann að hann sækti um vinnu á eyjunni því ekki væri friðvænlegt í heimaborg hans. Þetta gerði Kevin og fékk strax vinnu hjá stóru endurskoðunarfyrirtæki. „Ég fékk svo tækifæri til að dvelja hjá honum í þrjá mánuði 2006 og það gafst svona ljómandi vel.,“ segir Þórdís og brosir breitt. „Ég flutti síðan út árið 2008, enda vorum við búin að átta okkur á að fjarsamband gekk ekki þótt aðrar aðstæður væru aðrar en árið 1974.“

Gengur hringinn í kringum Jersey

Þórdís hefur síðan búið úti að hluta úr ári og er ekkert síður heilluð af Jersey nú en þegar hún var unglingur. Eyjan er 103 km2 eða u.þ.b. þúsund sinnum minni en Ísland. Þórdís skipuleggur átta daga gönguferðir hringinn í kringum hana.

„Nú er ég  sjálf orðin sextíu og sjö og undanfarið hefur aldur göngufólks sem kemur til  mín líka verið að hækka,“ segir hún. „Þá hef ég verið að bjóða upp á að fólk geti aðeins stytt göngudagana. Margir hafa farið í liðskipti og eru farnir að finna fyrir alls konar kvillum, en hafa samt áhuga fyrir að hreyfa sig og ferðast. Frænka mín, Ásta, hefur verið með mér síðustu ár og hún fer þá með þann hóp sem minna gengur heim á hótel eða til að hitta okkur þar sem göngunni lýkur.“

Hvað er það sem vekur áhuga Íslendinga á Jersey? Þekkja þeir til eyjunnar eða er það orðspor þitt sem verður þess valdandi að þeir koma?

„Ég held að fyrst og fremst komi fólk sem hefur heyrt af ferðunum mínum eða séð Facebook síðuna mína, Gönguferðir Þórdísar á Jersey. Mjög fáir hafa komið áður eða þekkja eyjuna. Ég auglýsi ferðirnar á Facebook-síðunni minni í vetrarbyrjun og býð áhugasömum á kynningarfund. Ég tek þrjár til fjórar ferðir á ári og eru þær í maí og júní. Ég hef tekið sérhópa þess utan sem er líka mjög skemmtilegt. Það er heitara yfir hásumarið svo mér finnst fyrri hluti sumars  henta mjög vel. Þessar ferðir veita mér mikla gleði og ánægju og ég hef kynnst svo mörgu skemmtilegu fólki. Ég er svo ánægð með hvernig þetta hefur allt gengið.“

Erfitt að velja uppáhaldsstað

Áttu þér uppáhaldsstað á eynni?

„Það er mjög  erfitt að velja því landslagið er svo fjölbreytt. Ég var einmitt að spyrja hóp sem var að fara frá mér um helgina hvað stæði upp úr og fólk sagði hiklaust að það væri fjölbreytileiki landslagsins og gönguleiðanna. Þetta er svo lítil eyja að eiginlega er ótrúlegt hversu margbreytileg hún er. Mér finnst mjög fallegt í góðu skyggni að standa hátt og horfa yfir strendurnar, hvort sem það eru sand- eða klettastrendur. Suðurströndin er með fallegum hvítum sandi, tilvalin til sólbaða, slökunar og leikja, Norðurströndin er klettaströnd, einnig mjög falleg með litlum víkum og fiskimannaþorpum. Ætli Norðvesturströndin sé ekki  mitt uppáhald. Útsýni af stígunum er stórkostlegt, fyrst yfir norðurhlutann þar sem m.a. má sjá nágrannaeyjurnar Guernsey og Sark og síðan yfir vesturströndina sem er 8 km löng sandstönd, tilvalin fyrir brimbretti og allslags sjósport.“

Ertu mikið á Íslandi? „Já, ég er eiginlega meira á Íslandi en á Jersey,“ segir Þórdís. „Eftir að maðurinn minn hætti að vinna höfum við meiri sveigjanleika og við erum sérstaklega á Íslandi yfir vetrartímann. Jersey er mjög sumarfalleg, veðrið æðislega gott, meðalhitinn um tuttugu gráður en veturnir eru rakir. Fólk sem hefur verið á Bretlandi á veturna veit hvernig húsakuldinn er. Mér er aldrei hlýtt á veturna. Þá vil ég vera heima þar sem ég get stillt hitann eftir þörfum og farið í sundlaugarnar og notið samvista við fjölskyldu og vini við kertaljós og kósístemmningu.“

Þórdís byrjaði að leiðsegja Íslendingum um eyjuna árið 2012. Hún úthugsaði ferðina vel til að byrja með og út frá því hvernig ferð hana langaði til að fara sjálfa.

„Mér fannst mikilvægt að gista á sama hótelinu allan tímann og vera á góðu hóteli. Inni í ferðinni eru tveir frídagar og ég reyni að kveikja löngun hjá fólki til að fara að skoða ákveðna staði. Hér er mjög áhugavert minjasafn um hernámsárin, neðanjarðarspítali sem Þjóðverjar létu gera og hefur verið viðhaldið. Ég er eiginlega á því að enginn megi komi hér án þess að sjá þetta safn. Hótelið sem við erum á er við hliðina á Jersey Museum. Þar er boðið upp á bíómynd á hálftíma fresti sem segir sögu eyjarinnar og hvernig hún varð til. Best er ef ég næ að fara með fólkið á þessa mynd áður en við leggjum af stað. Þá eru allir svo vel meðvitaðir um alla söguna.

Ég reyni að passa að við heimsækjum flesta staði þar sem eitthvað spennandi er að sjá, bæði fornminjar og stríðsminjar, en elstu mannvistarleifar hér eru frá 4500 fyrir Krist. Við borðum líka að hætti heimamanna, heimsækjum fiskiþorp þar sem mikið er veitt af skelfiski og borðum þar  krabbasamlokur, förum á hefðbundna pöbba og stoppum á kaffihúsi við ströndina og fáum  okkur cream tea með skonsum og rjóma.“

Völdu England

Lengi vel var Jersey undir yfirráðum hertogans af Normandí, en árið 1066 náði enski kóngurinn yfirráðum yfir Normandí og þar með yfir Jersey. Það tímabil stóð yfir í rúm hundrað ár en þegar því lauk fengu Jersey-búar að velja hvoru landinu þeir tilheyrðu og völdu England. Í gegnum tíðina hafa verið háðar margar orrustur um yfirráð eyjarinnar og bera varnarvirki, kastalar og varðturnar sögu síðastliðinna alda vitni, en eyjarskeggjar hafa oft þurft að verjast yfirgangi stórþjóða. Í seinni heimstyrjöldinni var hún hersetin af Þjóðverjum í fimm ár þótt aldrei kæmi til bardaga þar. Stríðsfangar voru geymdir á Ermasundseyjunum og notaðir sem þrælar. Þjóðverjar létu þá byggja rammgerða varnarveggi sem og  neðanjarðarbyrgi þvers og kruss um eyna því þeir bjuggust alltaf við innrás Bandamanna. Í gönguferðunum kringum hana blasa allar þessar sögulegu minjar við og hægt að rifja upp söguna við nánast hvert fótmál um leið og notið er náttúrufegurðar, yndislegrar útivistar og hæfilegrar áreynslu.

Bestu kartöflur í heimi

Í allt eru gengnir milli 60 og 70 km meðfram ströndinni. Þórdís segir hvergi mikla hækkun, enda hæsti punktur eyjarinnar aðeins 136 m yfir sjávarmáli en gönguleiðin er talsvert mishæðótt. Farið er um skógi vaxnar hæðir sem og klettastíga, moldargötur og sandstrendur. Gönguleiðin hefur líkað mjög vel og virðist við hæfi flestra sem eru í þokkalegri þjálfun. Ef til vill minnast einhverjir þáttanna um lögreglumanninn Bergerac, en þættirnir voru teknir upp á Jersey og sýndir í íslenska sjónvarpinu á 8. áratugnum.

„Eyjan er mjög gróðursæl og var fyrir tíma ferðaþjónustunnar fyrst og fremst landbúnaðareyja. Jersey-kýrin er heimsfræg fyrir fituríka mjók sína og einstakan fríðleika og hefur verið flutt út um allan heim. Stofninn er verndaður í eynni og ekki um aðrar kýr að ræða þar þótt innflutningur nautgripa til kjötframleiðslu hafi verið leyfður nýlega. Einnig hefur landið verið mikið ræktað í gegnum tíðina, bæði epli og ýmisskonar grænmeti. Að öðrum afurðum ólöstuðum eru eyjarskeggjar þó þekktastir fyrir kartöflurnar sínar. Allir á Bretlandseyjum vita hvað Jersey Royals eru, enda þykja þær bestu kartöflur sem til eru. Þær eru fljótsprottnar og tilheyrir það páskum þar í landi að sjóða Jersey Royals með páskalambinu,“ segir Þórdís. „Eyjarskeggjar eru mjög duglegir að rækta sitt litla land og til þess að hægt sé að uppskera allt sumarið og fram á haust hafa þeir verið duglegir við að ráða erlent verkafólk, lengi vel Portúgala. Það tungumál sem heyrist oftast á eynni fyrir utan ensku er portúgalska.“

Hefur þú gaman af því að leiðsegja og ganga með fólki um náttúru eyjarinnar?

„Ég hef alveg óskaplega gaman af þessu. Það er svo gaman að sýna Íslendingum Jersey og finna hvað hún kemur skemmtilega á óvart. Ég passa að fara ekki of margar ferðir á ári. Ég hlakka alltaf til að fá hvern hóp,“ segir hún en áhugafólk um Jersey og þessa fallegu perlu Ermasundsins ættu ekki að hika við að reima á sig gönguskóna og fara hringinn með Þórdísi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 30, 2024 07:00