Glæsilegir glitfíflar

Dahliur eða glitfíflar eru glæsileg blóm og mikið skraut að þeim í görðum. Þá þarf að forrækta innandyra hér á landi en flestir þola ágætlega íslenskt sumar. Dahliur þurfa svolitla natni og umhyggju en hún skilar sér sannarlega þegar horft er á litfögur og stór blómin.

Dahlium þarf að planta um miðjan apríl eða í byrjun maí. Fræin þurfa hlýju til að ná að spíra og þeim hentar vel að vera í björtum, heitum gróðurhúsum eða garðskálum. Byrjið á að dreifa fræjunum yfir sáðbakka eða í grunna potta. Úðið daglega yfir moldina en gætið þess að vökva alls ekki of mikið. Moldin á alltaf að vera rök en ekki rennblaut. Þegar plantan er komin upp og orðin um það bil 7-9 cm há má prikla eða skipta upp jurtunum. Litlu jurtirnar eru teknar varlega upp úr moldinni með því að stinga blýanti niður með þeim, losa um og taka þær taka þær síðan varlega upp þegar tryggt er að rótin sé alveg laus. Þeim er næst komið fyrir í stærri pottum, úðað vatnið yfir og leyft að vaxa þar þangað til lofthiti er nægur til að óhætt sé að koma þeim fyrir í garðinum. Jurtin þarf mikla birtu og sólarljós til að þrífast og hafa þarf það í huga þegar henni er fundinn staður. Sé of lítil birta stækkar plantan en blómstrar ekki.

Jarðvegurinn

Dahlium þarf að finna stað í garðinum þar sem sólar nýtur lengi og gæta þess að ekki sé hætta á að moldin kólni. Jarðvegurinn þarf að vera vel framræstur og léttur í sér. Ef moldin er mjög leirkennd á sólríkasta stað garðsins er gott að blanda hana sandi, svarðmosa eða öðru sem tryggir góða framræslu. Beinamjöl eða annar lífrænn áburður er góður en hann þarf að blanda vel moldinni áður en jurtinni er komið fyrir. Gætið þess að sýrustig moldarinnar sé milli 6.5 og 7 eða ofurlítið súrt. Komið jurtinni fyrir í 10-15 cm djúpri holu og vökvið lítið í einu. Dahliur má aldrei rennbleyta og yfirleitt rignir nægilega mikið til að hún fái allan þann vökva sem hún þarfnast. Moltu ætti ekki að setja ofan á dahliubeð því moltan einangrar og moldin hitnar því ekki nóg fyrir dahliurnar. Ef fleiri en einni dahliu er komið fyrir í sama beð þarf að hafa gott pláss á milli þeirra. Þetta eru fyrirferðarmiklar jurtir og þær vilja breiða úr sér.

Áburður

Dahliur þrífast vel á áburði sem inniheldur lítið nitur. Þeim má gjarnan gefa sama áburð og notaður væri á matjurtir. Ekki borgar sig að gefa of mikinn áburð en eftir að plantan er fullvaxin og byrjar að blómstra er gott að gefa áburð á 3-6 vikna fresti.

Umhirða

Til að tryggja grósku og að plantann verði stór og falleg er gott að klípa eða klippa af miðjustilknum þá myndast ný skot neðar. Það er einnig gott að klippa blómin af þegar þau fara að láta á sjá. Þeim má halda lifandi lengur í vösum innandyra en plantan hefst þegar handa við að mynda ný blómstur í stað þeirra sem tekin voru af.

Dahliubeð þarf að hreinsa reglulega og reita allan arfa og illgresi burtu. Sniglar sækja í dahliur og hægt að gera ýmsar ráðstafanir til að halda þeim fjarri. Eitt áhrifríkasta ráðið er að dreifa muldri eggjaskurn kringum plönturnar. Skurnin er beitt og sniglarnir eiga í erfiðleikum með að skríða yfir hana. Margir klippa sundur plastgosflöskur og koma þeim fyrir við útjaðra dahliubeða. Sniglarnir detta þá ofan í flöskurnar á leið sinni að ætinu og drukkna. Það ætti aldrei að eitra dahliubeð því það drepur þær en bjór og salt drepur snigla en er skaðlaust fyrir jurtirnar. Annað gott ráð er að skoða beðið reglulega og einfaldlega tína og koma burtu þeim sniglum sem þar finnast.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 2, 2024 07:00