Tengdar greinar

Gleði og hamingja og ekkert vesen!

Guðmundur og Jakob með mæðgurnar Grímu og Anís.

Þessi fallegu lífsgildi eru þeirra Jakobs og Guðmundar, hjóna, sálufélaga til 35 ára og bestu vina. Þeir Jakob Jakobsson og Guðmundur Guðjónsson reka og eiga einn skemmtilegasta veitingastað landsins, Matkrána í Hveragerði. Þeir hafa reyndar oftast verið kenndir við Jómfrúnna, danska smurbrauðsstaðinn sem er staðsettur í Lækjargötu í Reykjavík.

Þegar fólk stendur frammi fyrir því að geta hætt að vinna vegna aðstæðna um sextugt, fagna sumir því mjög á meðan aðrir geta ekki hugsað sér það. Þeir Guðmundur og Jakob stóðu á þeim krossgötum og eftir að hafa hugsað sig vel um tóku þeir beygju.

Vantaði áskorun og sköpun

Hvað gerðist?

Jakob: ,,Við stóðum frami fyrir því að það var gott fólk sem vildi kaupa Jómfrúnna af okkur og það sem vó þungt, kannski þyngst, var að sonur minn og nafni Jakob Einar, sem var meira og minna uppalinn á veitingastaðnum, var einn kaupenda og ætlaði að vera eftir og sjá um reksturinn. Okkur fannst sem sé að Jómfrúin væri í öruggum höndum hans.

Við vorum búnir að reka Jómfrúnna í tæp 20 ár og þetta var í raun ekki nein nýsköpun fyrir okkur lengur heldur bara rekstur en við þurfum báðir á því að halda að vera alltaf að skapa eitthvað nýtt. Staðurinn gekk mjög vel, alltaf nóg að gera og við vorum búnir að vinna mikið öll þessi ár. Þetta voru langir vinnudagar og margir. Kannski vorum við líka orðnir pínulítið þreyttir en þó vóg þyngst að okkur vantaði áskorun og sköpun.

Þegar við komum heim til Íslands frá Kaupmannahöfn árið 1994 eftir nám var ég kominn með titilinn ,,smurbrauðsjómfrú“, fyrsti karlmaðurinn á Íslandi. Þá langaði okkur að stofna okkar eigin danska smurbrauðsstað og það gerðum við. Jómfrúin var opnuð árið 1996 en tæpum 20 árum síðar eða árið 2015 stóð okkur til boða að selja og við slógum til.“

Guðmundur: ,,Við vorum í raun ekkert vissir um hvað við vildum gera á þeim tímapunkti og byrjuðum á því að taka okkur langt frí þar sem við nutum þess að ferðast vítt og breitt um heiminn. Þegar við vorum búnir að fá nóg af því settumst við niður og spáðum í lífið og tilveruna og þá sérstaklega í framtíðina. Við vorum ekki orðnir 60 ára og vorum til í að gera ýmislegt. Við áttum húsnæði hér í Hveragerði sem var í útleigu en þegar leigusamningurinn rann út stóðum við á krossgötum og við veltum því fyrir okkur að leigja húsnæðið áfram, breyta því í smærri einingar eða jafnvel selja það. Eins vorum við að spá í að stofna veislueldhús í Reykjavík. Eftir miklar vangaveltur stóð valið endanlega á milli þess að opna veislueldhús í bænum eða að opna veitingahús í Hveragerði. Þann 1. febrúar 2019 ákváðum við svo að opna Matkránna og þann 1. júní var staðurinn formlega opnaður.“

Var ekkert freistandi að setjast í helgan stein?

Jakob: ,,Við tókum okkur langt frí og komumst að því að við vorum enn með orku sem okkur langaði að nota og nýta til þeirra hluta sem okkur þykir gaman að eins og að reka veitingastað eins og Matkránna. Við pössum okkur núna á að vinna mun minna en áður – helst ekki meira en þrjá til fjóra daga í viku. Hina dagana erum við að rækta garðana okkar eða ferðast eða gera það sem okkur þykir skemmtilegt.“

Reykjavík – Ölfuss – Ísafjarðardjúp

Húsið þeirra Jakobs og Guðmundar í Skálavík í Ísafjarðardjúpi.

Nú hlýtur að vera mikill munur á að reka stóran veitingastað eins og Jómfrúnna og búa í 101 Reykjavík og að vera með matkrá í litlum bæ eins og Hveragerði. Hentar þessi lífsstíll ykkur?

Jakob: ,,Já, hann gerir það. Það má ekki gleyma því að við vorum vanir sveitalífinu. Þó að við höfum búið og unnið í 101 Reykjavík í 20 ár þá var það svo að árið 1995, eða fyrir 25 árum, að við keyptum lítið býli hér í Ölfusi. Hér bjuggu hippar á áttunda áratugnum svo við köllum býlið okkar Friðarminni þeim til heiðurs. Við gerðum bæinn upp, ræktuðum upp garðinn, og fluttum. Við höfum lengst af búið á tveimur stöðum, þ.e. á Sóleyjargötu í Reykjavík 101 og hér í Friðarminni í Ölfusshreppi. Við höfum mikla þörf fyrir tengingu við sveitina en svo er það hin hliðin á okkur en við erum ótrúlega miklir borgarmenn og þrífumst vel í orku stórra borga.

Fyrir nokkrum árum fékk ég þá hugmynd að mig langaði að kaupa jörð og eins og ég er þá framkvæmi ég oft án þess að ,,hugsa málið til enda“. Þetta er kannski meira í gamni sagt en þó er alvara að baki – það er oft betra að velta hlutunum ekki of lengi fyrir sér. Það sem er of njörvað niður og skynsamlegt er ekki endilega það skemmtilegasta. Guðmundur var nú ekki eins spenntur fyrir þessu og ég. Ég fór að leita að jörð og byrjaði í Borgarfirði en verðið var allt of hátt svo ég ók alltaf lengra og lengra frá Reykjavík þar til að ég var kominn inn í Ísafjarðardjúp. Þar fann ég draumastaðinn, Skálavík í Djúpi. Næsta skrefið var að sannfæra betri helminginn um að kaupa þessa jörð.“

Guðmundur: ,,Það er alveg satt. Ég var ekkert rosalega spenntur fyrir þessari hugmynd og dró lappirnar svolítið. Ég verð þó að viðurkenna að þegar ég kom í Skálavík féll ég um leið fyrir náttúrunni og sló til og ég sé ekki eftir því. Þarna býr líka gott og heiðarlegt náttúrufólk sem við höfum lært mikið af og njótum að vera í samvistum við.“

Sveitakrár utan borgarmúranna

Matkráin er ekki ný Jómfrú – stóð það aldrei til?

Jakob: ,,Nei, aldrei en staðurinn er undir sterkum skandinavískum áhrifum bæði útlitslega sem og matseðillinn. Staðurinn er ljós og léttur yfirlitum. Hér er allt smíðað úr ljósri eik, mikið af blómum, sem er ekki síður áhrif af blómabænum Hveragerði, en auðvitað er hér margt sem á sér beina skírskotun til Danmerkur, danskur matur og danskir snapsar svo eitthvað sé nefnt.

Nafnið Matkráin er sótt í allar sveitakrárnar sem eru staðsettar utan borgarmúranna í Skandinavíu og víðar í Evrópu. Slíkar matkrár laða gjarnan til sín gesti úr borginni og það er einmitt það sem við vildum gera hér og það hefur komið okkur skemmtilega á óvart að hugmyndin hefur algerlega gengið upp.

Við hönnuðum staðinn frá grunni, sköpunarþráin fékk góða útrás, en síðan fengum við hæfa iðnaðarmenn, alla héðan af svæðinu, til að vinna fyrir okkur og gera drauminn að veruleika. Það gekk fljótt og vel og við erum mjög ánægðir með útkomuna.

Hér getur fólk fengið ýmsar tegundir af smurðu brauði og svínasteik (purusteikin góða) en auk þessa ýmislegt annað eins og hamborgara og samlokur og ýmsa heita rétti. Eins ákváðum við að leggja áherslu á tertur og gott meðlæti með kaffinu. Okkar hugsun var sú að við værum með mat í boði sem myndi henta allri fjölskyldunni. Það á enginn að þurfa að sitja úti í bíl og bíða með hluti fjölskyldunnar fær sér að borða. Það er svo ótrúlegt að það eru víst ekki allir sem vilja smurt brauð!“

Íslendingar á öllum aldri í meirihluta

Jakob og Guðmundur með heimagerðu snapsana.

Hvernig hefur ykkur verið tekið?

Guðmundur: ,,Okkur hefur verið tekið mjög vel. Hingað kemur mikið af gömlum viðskiptavinum af Jómfrúnni og þeir sem búa hér á svæðinu.  Hvergerðingar og Selfyssingar hafa tekið staðnum fagnandi. Stór hluti gesta okkar eru íslenskir ferðamenn frá Reykjavík sem eru annað hvort á leiðinni í ferðalag um landið eða í sumarbústaði. Auk þess er stór sumarbústaðabyggð í Ölfusborgum og þaðan kemur hluti gesta okkar. Það má einnig nefna að margir gesta af hótelum og gististöðum í Hveragerði borða hér og svo er töluvert um að fólk, sem er á Heilsustofnuninni, komi hingað.“

Sumarjassinn

Þeir Jakob og Guðmundur eru frægir fyrir ástríðu sína á jassi og voru með Sumarjassinn í fjölda ár í garðinum fyrir framan Jómfrúna. Þar spiluðu allir þekktustu jassistar landsins á hverju sumri. Stendur til að gera slíkt hið sama hér í Hveragerði?

Guðmundur: ,,Það stendur nú reyndar ekki til eins og er en hver veit? Við spilum eingöngu jass hér á staðnum eins og við gerður á Jómfrúnni. Við höfum fundið fyrir þrýstingi frá gestum okkar að vera með Sumarjassinn hér á pallinum í sumar en það er ekki á teikniborðinu. Við erum reyndar frægir fyrir að taka skyndiákvarðanir og framkvæma þær svo það er aldrei að vita hvað gerist í okkar lífi en því er ekki að neita að það er nokkuð mikil vinna að standa að svona tónleikaröðum eins og Sumarjassinum þó að það sé skemmtilegt og gefandi.“

Gríma og Anís

Eigið þið einhver áhugamál önnur en jass og mat?

Jakob: ,,Já, við eigum mörg áhugamál og við erum svo heppnir að vera alveg samstíga í þeim. Það sem er okkur dýrmætast og veitir okkur ómælda gleði er hæfileikaríka afastelpan okkar hún Mia Henrietta, átta ára gleðigjafi sem kallar okkur Jafi og Gafi í stað Jakob afi og Guðmundur afi!

Svo er það tíkin okkar hún Gríma og dóttir hennar Anís en þær eru það nýjasta í okkar lífi og veita okkur mikla gleði. Þessar yndislegu tíkur eru af Wippet kyni. Gríma eignaðist sex hvolpa fyrir stuttu sem fengu nöfnin Anís, Basil, Estragon, Karsi, Kúmín og Krókus. Við ákváðum að halda Anís en hinir fóru allir á góð heimili og við vitum ekki betur en að þessir hvolpar beri allir nöfn af matarkyni. Mæðgurnar Gríma og Anís eru mikið yndi og við njótum þess að eiga þær. Eins og þú sérð eru þær velkomnar á Matkránna og sömu reglur gilda um aðra góða og stillta hunda – þeir eru velkomnir í okkar hús.“

Kryddjurtir – kornhænur og snapsar

Guðmundur: ,,Garðyrkja er mjög ofarlega á lista yfir áhugamál hjá okkur en við erum með tvo stóra og fallega garða við Friðarminni og í Skálavík. Þar ræktum við ýmsar tegundir af káli og kryddjurtum. Auk þessa erum við hænur og kornhænur. Við erum með aðstöðu til að reykja lax og silung í Friðarminni en við reykjum sjálfir allan fisk sem notaður er á Matkránni.

Nýjasta áhugamálið okkar er snapsagerð en við notum til þess kryddjurtir úr garðinum okkar í Friðarminni og bláber sem við tínum í Djúpinu. Fyrstu kryddsnapsarnir voru tilbúnir í haust en bláberjasnapsinn kom í hús eftir áramót því hann tekur lengri tíma í lögun.

Við höfum haft mikinn áhuga á að gera upp gömul hús en það má segja að við höfum gert upp öll þau hús og þær íbúðir sem við höfum búið í.

Svo má nefna að við höfum ferðast mikið saman, bæði innanlands og utan. Við eigum jeppa sem hefur skilað okkur um allt land, bókstaflega, og ekki síst upp á hálendið sem er svo fallegt og stórbrotið. Það er ótrúlega mikil og sterk orka á hálendinu og við sækjum í hana.

Svo er það hin hliðin á okkur en við erum í raun líka miklir borgarmenn. Við sækjum í náttúruna og tengslin við hana en okkur finnst líka gott að hvíla okkur í stórborgum og sækjum mikið í þær. Við höfum farið t.d. til London á hverju vori í mörg ár, nema núna auðvitað, og njótum þess að vera þar og soga í okkur orkuna sem býr í þessari mögnuðu borg. Það er svo undarlegt að við náum einhverri óútskýranlegri hvíld í London. Þetta á svo sem líka við um aðrar stórborgir eins og Tokyo  en okkur fannst sú borg mögnuð.“

Skemmtilega ólíkir en vinnum vel saman

Hvor ykkar eldar heima við?

Jakob: ,,Guðmundur eldar þegar við erum tveir eða með lítil boð en ég sé um matreiðsluna þegar það þarf að elda fyrir stóra hópa. Guðmundur er menntaður listamaður og hefur óendanlega þörf fyrir sköpun í einni eða annarri mynd. Hann hefur ekki bara hannað og gert upp húsin og heimilin okkar, veitingastaðina okkar tvo heldur fær hann útrás í að hanna og búa til flókna og öðruvísi rétti.“

Guðmundur: ,,Ég vil nú meina að við komum nokkuð jafnt að hönnun á heimilum okkar og vinnustöðum og ekki síst á görðunum okkar. Við erum ágætir saman. Skemmtilega ólíkir og með ólíkan bakgrunn en vinnum alltaf sem einn maður.“

Hamingja og gleði og ekkert vesen

Þið virðist ná að njóta lífsins á einstakan hátt. Lifið í núinu, njótið og gleðjist hvern dag. Hver er galdurinn?

Jakob: ,,Lífsmottóið okkar er hamingja og gleði og ekkert vesen. Vesen tekur svo mikla orku frá manni svo þeir sem ná að losa sig við allt sem heitir vesen lifa betra og skemmtilegra lífi að okkar mati. Við leggjum mikla áherslu á

Snapsarnir í garðinum í Friðarminni.

að lifa í núinu – alltaf. Síðan er það gott ráð að þegar maður fær hugmyndir að stökkva til og framkvæma þær án þess að hugsa hlutinn endilega alveg til enda. Það er lykillinn. Við erum líka mjög meðvitaðir um að það gerir engan mann hamingjusaman að safna peningum. Ef maður á eitthvað af þeim þá á maður að njóta þeirra. Þeir fara ekki með manni í gröfina. Það er gott að geta haldið í barnið og unglinginn í sér. Þó menn séu orðnir ráðsettir og komnir með eina eða tvær broshrukkur þá þurfa þeir ekkert endilega að vera stilltir og prúðir alla daga.“

Guðmundur: ,,Það er ekki mörgu við þetta að bæta held ég! Lífið er stutt og maður á að njóta þess með það er hægt.“

Sálufélagar í 35 ár

Þið eruð búnir að vera sálufélagar í 35 ár og mikið saman. Hverju þakkið þið það?

Jakob: ,,Við erum búnir að vera saman frá árinu 1985 og giftum okkur árið 1996. Það sem skiptir öllu máli er að þó að við séum hjón og giftir, þetta eru reyndar ómöguleg orð yfir tvo karlmenn, þá skiptir það mestu máli að við erum miklir vinir. Hjónaband sem byggist ekki á vináttu getur ekki verið mjög traust. Hjónaband milli fólks getur farið og komið en sönn vinátta lifir að eilífu.

Vinátta okkar byggir á því að okkur þykir gaman að vera saman, við eigum sameiginleg áhugamál og njótum þess að gera allt saman hvort sem það er að elda, rækta landið eða ferðast um Ísland eða heiminn. Þegar maður á maka sem maður nýtur að vera með þá er maður heppinn. Og við erum mjög heppnir.“

 

 

 

Ritstjórn júní 5, 2020 08:58