Tengdar greinar

Gleymdu giftu mönnunum og einbeittu þér að þeim einhleypu

Það er gömul saga og ný að það getur verið erfitt að kynnast nýjum maka á eftri árum. Hérna er grein um það, af vefnum sixtyandme, í lauslegri þýðingu og endursögn Lifðu núna:

Ef þú hefur áhuga á að kynnast karlmanni á sjötugsaldri, þarftu að vita hvar er best að finna hann. Karlmenn á þessum aldri eru ekki í felum, en þeir munu örugglega ekki mæta upp úr þurru einn daginn og banka uppá heima hjá þér. Áhugaverðir karlar eru víða og þeir eru að gera eitthvað skemmtilegt. Þeir eru ekki að bíða eftir að þú „dúkkir“ upp í lífi þeirra.

Lykillinn að árangri í makaleitinni er að taka þátt í einhverju skemmtilegu. Þeir karlar sem þú hittir þar hafa að minnsta kosti áhuga á að gera það sama og þú. Það er ágætis byrjun. Ef það gengur ekki upp, eru hérna nokkrar hugmyndir um hvernig á að fara að því að hitta áhugaverðan eldri karlmann.

Karlmenn hafa áhuga á fleiru en íþróttum

Margar konur sem eru komnar yfir sextugt halda að karlar hafi eingöngu áhuga á að horfa á sjónvarp, drekka bjór og stunda íþróttir.  Það er rétt að margir karlmenn hafa mikla ástríðu fyrir íþróttum. Þeir lýsa því kannski þannig  á stefnumótasíðum, að þeir hafi gaman af að hjóla, fara í fjallgöngur, sigla, spila golf, hlaupa eða synda. Karlar hafa mörg áhugamál, rétt eins og konur.

Flestir einhleypir karlmenn eru eins og þú. Það er ýmislegt í þeirra lífi sem tekur upp tíma, svo sem eins og vinnan, fjölskyldan, barnabörnin, gæludýr og margs konar áhugamál. Ekki halda að allir séu eins. Ekki ganga út frá því að þú eigir ekkert sameiginlegt með karlmönnum sem eru á sama aldri og þú.

Hættu að vera  neikvæð. Ef þú heldur áfram að telja sjálfri þér trú um að það sé útilokað  að finna góðan einhleypan mann sem er kominn yfir sextugt, er líklegt að þú munir á endanum hafa rétt fyrir þér og aldrei finna einn slíkan.

Gleymdu giftum mönnum snúðu þér að þeim einhleypu.

Margar konur sem eru orðnar sextugar segja „Allir almennilegir menn eru giftir“. Það er rétt að fjöldi karla á sjötugsaldri er giftur. Þannig er það bara og best að hugsa ekki meira um það. Vertu ekki að bera þá sem bjóða þér út, saman við gifta menn í kringum þig. Þú skalt einbeita þér að góðum einhleypum körlum.

Góður fréttirnar eru þær, að það eru margir einhleypir karlar á sjötugsaldri, rétt eins og konur, og þeir upplifa sömu tilfinningar og áhyggjur og konurnar. Þeir eru kannski nýfráskildir, eru einmana, hræðast höfnun, eru óöruggir og eru að reyna að fóta sig á stefnumótamarkaðinum að nýju. Það sakar ekki að gefa örlítið yngri mönnum auga líka.

Að hitta einhvern  sama sinnis

Öllum finnst frábært að hitta einhvern með sömu áhugamál og þeir hafa sjálfir. Þar eru eldri karlmenn engin undantekning. Ein besta leiðin til að hitta góðan mann er að fara þangað sem hann fer til að gera það sem honum finnst skemmtilegt. Það getur verið ýmislegt og það  er hægt að ganga í ferðaklúbb, vínklúbb, útivistarklúbb, kvikmyndaklúbb, taka þátt í kirkjustarfi eða ganga í pólitískan aðgerðahóp.

Það er einnig hægt að sækja fundi og ráðstefnur um málefni eftirlaunafólks og ganga í félög eldri borgara vítt og breitt um landið. Það er hægt að taka þátt í sjálfboðastarfi og styðja málefni sem þú hefur áhuga á. Það er oft besta leiðin til að kynnast nýju fólki, að byrja á því að taka þátt í verkefnum á þínu áhugasviði. Þannig kynnist fólk og vinnur með öðrum sem eru sama sinnis. Hver veit nema úr því gæti orðið svolítið ástarævintýri?

Ferðastu um heiminn

Skemmtilegustu karlarnir sitja ekki endalaust á rassinum heima hjá sér. Þeir ferðast og gera eitthvað skemmtilegt á stöðum þar sem þeim finnst gaman að dvelja.  Þannig að þú skalt fara í ferðalög og þú hittir karla í lestum, flugvélum, á flugvöllum og lestarstöðvum.

Ég hitti manninn minn í lest, þetta er alveg satt. Ég hitti einnig áhugaverða persónu í París, sem kenndi mér sitthvað um eldra fólk og stefnumót.  Ég eignaðist svo vin sem ég sat við hliðina á í flugvél og við héldum sambandi í 10 ár.

Ekki óttast að ræða við karlmenn sem þú hittir á ferðalögum. Það er aldrei að vita hvað gerist. Þú gætir átt samtal sem leiðir til einhvers meira. Hver veit?

Fáðu fjölskyldu og vini í lið með  þér að hitta nýja karlmenn

Flestir hafa þéttriðið net af fólki í kringum sig, ýmist í fjölskyldunni, vinnunni eða gamla og góða vini. Allt þetta fólk þekkir eldri karlmenn sem þú hefur ekki ennþá hitt. Er ekki upplagt að fá þetta fólk sem þér þykir vænt um og treystir, í lið með þér?  Segja því einfaldlega að þig langi að hitta nýjan mann. Hefurðu einhverju að tapa? Þú hittir þessa menn ekki nema vinir þínir hafi milligöngu um það.

Ættingjar þínir og vinir þekkja ef til vill einhvern sem þeir telja að  þér þætti gaman að hitta, en eru kannski ekkert að nefna það við þig, nema  þeir viti að þú sért móttækileg. Bjóddu þeim í mat og taktu frumkvæði. Biddu fólkið þitt að hjálpa þér að finna nýjan vin. Það gerist í versta falli ekki annað en það, að þú hittir nýtt og skemmtilegt fólk.

Prófaðu stefnumótasíður á netinu

Fólk komið yfir sextugt, er sá hópur á stefnumótasíðunum sem stækkar hvað örast. Staðreyndin er líka sú að stefnumótasíður gætu verið besta leiðin til að hitta góða menn sem eru komnir yfir sextugt. Með því að nota slíka síðu, stækkar hópurinn sem þú hefur úr að velja. Þar getur þú komist í samband við karlmenn sem þú myndir aldrei hitta annars. Við þetta bætist að þeir sem eru á stefnumótasíðunum eru almennt á lausu og opnir fyrir að hitta nýtt fólk.

Það er ráð að fá einhvern sem er reyndur á stefnumótasíðum til að hjálpa þér að taka fyrstu skrefin. Og ýmsar greinar eru til um stefnumót á netinu, bæði á íslensku og ensku.Til dæmis hér á Lifðu núna.

Margar konur hafa gefist upp á leitinni að góðum manni. Stefnumótasíðurnar eru hins vegar  valkostur sem gæti virkað. En hvað sem verður, ef þú vilt karlmann inní líf þitt, verður þú að vera opin fyrir að reyna þessa leið og vera virk í leitinni. Bæði karlar og konur á sjötugsaldri hafa langa lífsreynslu að baki. Til að fólk nái saman þarf það að hafa góð samskipti þar sem traust ríkir og vera reiðubúið að ræða málin af hreinskilni.

Ritstjórn maí 10, 2022 07:00