Glíman við orð, form og innihald

Skálds saga er skálduð saga en samt fullkomlega sönn. Steinunn Sigurðardóttir tekst á hendur það einstæða ætlunarverk að gefa lesendum sínum innsýn inn í huga manneskju sem skrifar. Leyfa þeim að kynnast glímunni við formið, eltingaleikinn við orðin, erfiðið við að aga óstýrlátar sögupersónur, móta hugmyndirnar, stemma flóðið þegar það vellur fram og að lokum vita hvenær á að hætta.

Stundum er sagt að það sé einmanalegasta starf í heimi að skrifa og víst er að ekki koma margir að verki með skáldinu og það getur ekki velt upp hugmyndum með samstarfsmönnum eða deilt út verkefnum á aðra. Sú eða sá sem velur sér að skrifa þarf að treysta eingöngu á sjálfan sig þangað til kemur að því að aðrir lesi yfir verkið. En jafnvel þá er lokavalið um hvort taka eigi mark á athugasemdum höfundarins.

Undirrituð minnist þess ekki að hafa fyrr fengið svo ýtarlega sýn inn í hugarheim skrifandi manneskju og sköpunarferlið að baki heilstæðri bók. Steinunn skrifar af mikilli lipurð og tekst að skapa mjög skemmtilegt andrúmsloft í frásögnum sínum. Lesandinn kennir einnig til með skáldinu þegar það berst við að finna rétta formið, skapa áhugaverðar og lifandi persónur, tekst á við málsgreinar, setningar og orð. Það er eitthvað sérstaklega heillandi við það hvernig Steinunn prjónar saman orð, lykkju eftir lykkju til að skapa úr heilstæða hugsun. Svo iðulega eina lykkju enn og það er einmitt lykkjan sú sem setur svip á mynstrið. Skálds saga er nýstárleg bók, skáldævisaga, í þeim skilningi að hún lýsir á lifandi og frjóan hátt sköpunarferlinu og þeim átökum sem fylgja fæðingu bókar. Svo er ekki hægt að skiljast við þessa bók án þessa nefna hversu falleg kápan er en hún er hönnuð af Alexöndru Buhl. Þar er fléttað saman myndum af skáldinu Steinunni Sigurðardóttur, bókstöfum og íslenskum jurtum á einstaklega listfengan hátt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 8, 2024 07:00