Góð ráð fyrir eldri ökumenn

Þessi 11 ráð hér fyrir neðan eru sótt í smiðju Umferðarstofu sem eitt sinn var og Félags eldri borgara í Reykjavík.

Haltu þér í formi sem ökumaður – aktu minnst einu sinni í viku alla ævi ef þú ert með örkuskírteini og bíl til umráða. Þetta á við um bæði konur og karla.

Ef sjón, heyrn eða hreyfanleiki breytist skaltu ræða við lækninn þinn. Betri gleraugu, heyrnartæki, aukaspeglar o.s.frv. eru dæmi um hjálpartæki sem geta komið að góðum notum.

Veldu þér hentugan bíl tímanlega, þ.e. bíl sem veitir gott útsýni til allra átta, auðvelt er að stíga inní og út úr, auðvelt er að stilla sæti og spegla, með sjálfskiptingu og mörgum öryggispúðum.

Gættu vel að þér á gatnamótum.

Ef þú finnur til óöryggis skaltu sleppa því að aka, s.s. í ljósaskiptum eða myrkri, hálku eða slæmu veðri. Einnig er gott að forðast álagstíma í umferðinni.

Veldu þér öruggar leiðir sem þú þekkir á áfangastað.

Láttu ekki aðra ökumenn þvinga þig til að taka óþarfa áhættu eða aka hraðar en þú treystir þér til.

Ef þú tekur inn lyf sem er merkt með rauðum þríhyrningi skaltu ráðfæra þig við lækni um það hvort þér sé óhætt að aka.

Ekki neyta áfengis fyrir akstur. Jafnvel lítil áfengisáhrif draga úr hæfni til að aka. Mjög hættulegt getur verið að neyta áfengis með lyfjum.

Taktu nokkra ökutíma hjá ökukennara ef þér finnst þú óörugg(ur) í umferðinni.

Sæktu upprifjunarnámskeið um öryggi í akstri fyrir eldri ökumenn þegar það býðst.

Ritstjórn nóvember 18, 2015 13:57