Grái herinn byrjaður að safna liði

Grái herinn – baráttuhópur innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni – hefur verið stofnaður. Verkefni hans verður að leita nýrra leiða til að vekja athygli á kjörum eldra fólks og stuðla að hugarfarsbreytingu þegar kemur að málefnum þeirra sem eldri eru. Grái herinn leggur áherslu á þverpólitískt starf. Hann vill vinna með öllum sem berjast fyrir sömu málefnum, hvar í flokki sem þeir standa.

Fólki sem er 65 ára og eldra mun fjölga um 60% fram til ársins 2030. Þessi hópur telur nú rúmlega 44.000 manns, en verður orðinn rúmlega 71.000 eftir 14 ár. Fjárhagsleg staða eldra fólks á Íslandi er misjöfn. Þó margir hafi það gott, eru aðrir sem eiga vart til hnífs og skeiðar. Einnig er hópur sem nú er að fara á eftirlaun, sem hefur ekki full lífeyrisréttindi og huga þarf sérstaklega að stöðu hans.

Fyrir liggja hugmyndir um hækkun eftirlaunaaldurs í áföngum úr 67 ára í 70 ára. Það er í samræmi við þá þróun að fólk lifir lengur, við betri heilsu og er vinnufært mun lengur en áður var. Þá bregður svo við að vinnumarkaðurinn hafnar oft eldra fólki. Margir sem einhverra hluta vegna missa starfið þegar sextugsafmælið nálgast, greina frá því að þeir eigi mjög erfitt með að fá aftur starf og sumir sitja uppi atvinnulausir. Það er skoðun Gráa hersins að þarna fari mikill mannauður forgörðum.

Aldursfordómar birtast í því að það er oft ekki hlustað á eldra fólk. Það þykir jafnvel ekki gjaldgengt í samfélaginu eða á vinnumarkaði. Stundum er talað niður til eldra fólks, eða því er sýndur beinn dónaskapur. En áhugaleysi og afskiptaleysi um málefni þessa fólks er algengast. Fjárráðin eru tekin af elstu borgurum þessa lands á hjúkrunarheimilum, sem er bæði lögbrot og mannréttindabrot.

Grái herinn hefur stofnað Facebook síðu https://www.facebook.com/graiherinn/   til að kynna baráttumálin og ná betur til fólks sem hefur áhuga á að taka þátt í starfi hans. Áhugasömum er bent á að „læka“ síðuna til að fá aðgang að henni.

Ritstjórn mars 15, 2016 12:47