Saman í skátunum í 70 ár

Björn Árdal læknir og Börkur Thoroddsen tannlæknir kynntust sem unglingar í Skátaheimilinu á Snorrabraut í Reykjavík, en báðir höfðu þeir verið yrðlingar og byrjað að taka þátt í skátastarfi 10 ára gamlir.  Slagorðið Eitt sinn skáti, ávallt skáti á einkar vel við þá félaga, en skátarnir sem þeir störfuðu með hittast enn og ganga saman annan hvern sunnudag. „Það hefur að vísu hægt á sumum“, segir Börkur brosandi og Björn bætir við að þetta sé meira orðið rölt. „Ef það er hálka göngum við í miðbænum þar sem er hiti í gangstéttunum“, segir hann.

Útkljáðu málið með slagsmálum

Þeir félagarnir voru í sitt hvorum skátaflokknum. „Við hittumst mikið í setustofunni í Skátaheimilinu“, segir Börkur sem var í flokki sem hét Flakkarar en Björn var í flokknum Sæförum.  Samanlagt voru í þessum flokkum 14 skátar.  Sæfarar hugsuðu stórt og ætluðu sér að gera út bát. Þeir byrjuðu að dytta að honum úti á Granda, en sá bátur komst aldrei á flot að sögn Björns. Flokkarnir tveir héldu hópinn og þegar þeir voru saman kölluðu þeir sig Grallara.  Brátt tók skátastarf flokkanna aðra stefnu, þegar þeim var falið að sjá um tvo skála uppi á Hellisheiði. Flakkarar voru með skála sem hét Jötunheimar almennt kallaður Jötunn, en Sæfarar fengu umsjón með skála sem kallaðist K16. Heitið var dregið af því að það voru 16 karlmenn sem byggðu hann

Það var oft glatt á hjalla í skátaskálunum og mikið sungið. Björn kynntist konuefninu sínu; Kolbrúnu Sæmundsdóttur í skátunum.  Það gerði Börkur hins vegar ekki, en kynni hans og eiginkonunnar voru óvenjuleg.  „Hún datt út úr strætisvagni og ég greip hana“ segir hann hlæjandi en Lifðu núna átti einmitt viðtal við hann meðal annars um þetta á sínum tíma sem má sjá með því að smella hér.

Hittust áður í stuttbuxum en síðar í kjólfötum

„Þegar ég lít tilbaka finnst mér að þetta hafi verið einstaklega góður félagsskapur sem hefur haldið í öll þessi ár“, segir Börkur. Þeir eru 9 eftirlifandi skátarnir sem ganga enn saman og auk þess fer hópurinn árlega í haustferð og heldur jólapartý í byrjun desember. „Við hittumst áður í stuttbuxum, en núna hittumst við í kjólfötum“ segir Björn hlæjandi, en margir í hópnum eru einnig í Frímúrarareglunni.

Það hefur verið sagt margt sé skylt  með skátahreyfingunni og frímúrarahreyfingunni, en ýmsir töldu að Baden Powell stofnandi skátahreyfingarinnar hefði einnig verið frimúrari. „En það var hann ekki. Góður vinur hans var hins vegar frímúrari og mann grunar að ýmsar hugmyndir hafi lekið þarna á milli, enda eru báðar hreyfingarnar mannbætandi“, segir Björn.

Kíms leikurinn kom sér vel þegar endurnýja átti læknaleyfin

Þeir félagar eru sammála um að það hafi verið gott fyrir ungt fólk að taka þátt í skátastarfi þessa tíma, þegar ekki var sérlega mikið um að vera fyrir börn. „Það voru líka íþróttafélög en engir gemsar“, segir Börkur.  Þeir segja að siðfræði skátanna hafi verið góð og útiveran hafi stælt unglingana. Þeim var kennt að bjarga sér í útilegu, lærðu á áttavita auk þess sem þeir lærðu að hnýta hnúta. „ Við lærðum eitthvað að elda og bjarga okkur í skálunum“, bætir Björn við.

Þeir lærðu líka ýmsa leiki og einn þeirra, Kíms leikurinn, kom að góðum notum þegar þeir þurftu báðir, þá 75 ára, að gangast undir próf til að fá læknaleyfin sín endurnýjuð. „ Hann var þannig að það var raðað 15-20 hlutum á borð inni í herbergi. Þangað fóru þátttakendur til að skoða þá og áttu að því búnu að fara fram og  skrifa alla þessa hluti niður á blað. Þeim var kennd aðferð til að muna þetta, útfrá tengingum milli hlutanna“, útskýra þeir.  Í prófinu sem Björn kallar „ellipróf“ fyrir þá læknana,  fengu þeir 10 orð á miða sem þeir áttu að muna og að geta síðan talið upp.  Börkur segist hafa búið til sögu um drottningu sem gekk á stöndinni með stöng og ost í hendi. Hún var einnig með miða og bréf. Það var gras fyrir ofan ströndina og þar stóð kofi.  Þarna eru komin 10 orð, þeir náðu prófinu með glans og fengu læknaleyfin framlengd. Þeir hættu hins vegar báðir störfum áttræðir.  Björn segir að hann hafi líklega verið elsti starfandi læknir á Íslandi, rétt áður en hann hætti.

 

Ritstjórn ágúst 22, 2023 07:00