Guðfinna K Bjarnadóttir fyrrverandi rektor

Guðfinna S. Bjarnadóttir fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík og þingmaður Sjálfstæðisflokksins var fastagestur í frétta- og spjallþáttum útvarps- og sjónvarpsstöðva fyrir nokkrum árum síðan. Hún vakti mikla athygli fyrir líflega framkomu og nýjar hugmyndir um stjórnum fyrirtækja. Guðfinna á glæsilegan feril að baki. Hún flutti heim frá Bandaríkjunum 1998 til að verða rektor Háskólans í Reykjavík og því starfi gegndi hún í tæpan áratug. Þá ákvað hún að venda sínu kvæði í kross og varð stjórnmálamaður. En frá því að Guðfinna lét af þingmennsku árið 2009 hefur ekki mikið spurst til hennar. „Eftir að hætti á þingi ákvað ég að endurvekja fyrirtæki mitt LEAD Consulting sem ég stofnaði í Bandaríkjunum í upphafi tíunda áratugarins. Síðustu ár hef ég verið í margskonar ráðgjöf fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Þar nýtist námið mitt afar vel en í doktorsnámi mínu lagði ég stund á atferlisfræði með áherslu á stjórnun,“ segir Guðfinna sem rekur LEAD Consulting, eða LC Ráðgjöf, ásamt eiginmanni sínum, Vilhjálmi K. Kristjánssyni. „Það hefur verið nóg að gera og við höfum ekki þurft að auglýsa starfsemina. Auk þessa hef ég verið að kenna stjórnun í MPM náminu í verkfræðideildinni í Háskólanum í Reykjavík. Eitt sinn HR-ingur alltaf HR-ingur segir Guðfinna og hlær. „Ég hef sterkar taugar til skólans og það gleður mig að einu sinni á ári eru veitt frumkvöðlaverðlaun í HR sem eru kennd við mig, Guðfinnuverðlaunin. Ég finn til mikils stolts og þakklætis fyrir að hafa verið trúað fyrir skólanum þessi ár sem ég var rektor og fá síðan tækifæri til að kenna við skólann,“ segir Guðfinna.

Guðfinna segist allar götur hafa verið óhrædd að prófa nýja hluti og gera eitthvað nýtt. „Ég ætla mér á næstu misserum að leggja áherslu á kennslu. Meðal annars mun ég kenna námskeið fyrir fyrirtæki í samstarfi við, og á vegum, Franklin Covey á Íslandi þar sem farið er í saumana á því hvernig einstaklingar og fyrirtæki ávinna sér traust og hvernig þau viðhalda trausti. Þetta er afar spennandi verkefni sem ég hlakka mikið til að taka þátt í,“ segir hún.

Guðfinna og Vilhjálmur eiga eina dóttur og fjögur barnabörn. „Það er frábært að vera amma. Barnabörnin eru á aldrinum tveggja til tólf ára, tveir drengir og tvær stúlkur. Það er ótrúlegt hvað þessi börn krydda lífið mikið og gefa því lit. Mér finnst ég hafa verið afar lánsöm í þessu lífi. Við Vilhjálmur höfum verið saman í 44 ár. Hann er besti vinur minn og samstarfsmaður. Við ferðumst mikið saman og höfum allar götur verið mjög samstíga. Ég get því ekki sagt annað en að ég sé mjög sátt við lífið og finnst mikil gjöf að fá að eldast og þroskast. Maður fær óneitanlega dýpra sjónarhorn á lífið og tilveruna eftir því sem árunum fjölgar,“ segir Guðfinna.

Þegar Lifðu núna spyr hana hvort hún sakni þess ekki að vera í sviðsljósinu, hlær hún og segir svo ekki vera. „Nei þetta var alveg meðvituð ákvörðun að draga sig út úr sviðsljósinu. Það er réttur hvers og eins að fá að haga lífi sínu á þann hátt sem hann kýs.“

 

Ritstjórn febrúar 28, 2018 09:19