Hægist á öllu nema huganum

“Það er verið að taka alla heildina í þessum jógatímum, styrkja líkamann og teygja, svo hugleiðum við og slökum á”, segir Auður Bjarnadóttir jógakennari sem býður uppá jógatíma fyrir sextuga og eldri í Jógasetrinu Skipholti 50c í Reykjavík.  “Svo dönsum við og það er mikil gleði”, bætir hún við.

Auður og dásamlegt kennaralið með henni ætla að vera með tvo hópa í jóga fyrir sextuga og eldri á næstunni, en í fyrra hópnum eru 15 konur sem hafa flestar stundað jógað áður.

“Þegar við opnuðum eftir COVID fylltist allt. Þær voru búnar að vera svo einangraðar. Hópurinn nýtur þess að vera saman og fer stundum út á Kjarvalsstaði í kaffi eftir tímann. Það er að vísu búið að vera minna um það í Covid, en þær ætla samt að fara á fimmtudaginn”, segir hún.  Það stendur til að bæta við öðrum tíma í jóga fyrir sextuga og eldri í Jógasetrinu og hefst hann í næstu viku.

Tímarnir eru á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 15:30.

Í tilkynningu frá Jógasetrinu segir að gerðar verði léttar æfingar bæði á stól og á gólfi sem auki teygjanleika og mýkt og bæti jafnvægi og stöðugleika.

“Það er rosalega gaman að kenna þetta. Það er auðvitað gott að hreyfa sig og liðka og svo þarf líka að styrkja “andlega vöðvann”, segir Auður .”Það hægist á öllu þegar  við eldumst, nema huganum”. Hún segir að jógað snúist um það líka, að finna einfaldar leiðir til að róa hugann. Gerðar séu öndunaræfingar sem dýpki andardráttinn og kyrri hugann. Þetta þurfi allt að vinna saman, ásamt góðum skammti af gleði og kátínu.

Móðir Auðar ,Ólöf Pálsdóttir, er ein þeirra kvenna sem eru í jógatímum hjá henni. Hún er  níræð og  hreyfir sig mikið. Stundar útvarpsleikfimina og sjónvarpsleikfimina og keypti sér nýlega stigvél til að þjálfa sig á. Svo er það jógað.  Á myndinni með greininni eru þær saman Auður og hún, í litríkum fötum, geislandi af heilbrigði auðvitað!

 

Ritstjórn mars 9, 2021 11:56