Af hverju jóga?

 

Auður Bjarnadóttir jógakennari var atvinnudansari í mörg ár en þegar dansinn var farinn að taka toll af líkamanum fann hún jógað sem vissa heilun. ,,Ég fann leið til að verða mýkri við líkamann og sálina því klassíski dansheimurinn er harður og erfiður. Þarna var ég orðin rúmlega þrítug og leitaði að leið til að láta mér líða betur. Ég fór í mikla sjálfsskoðun og spurði sjálfa mig: Hver er ég ef ég er ekki dansari? Jógað hjálpaði mér sannarlega í þeirri leit,“ segir Auður. ,,Það var þess vegna ekki aldurinn sem sagði til sín heldur meðferðin á líkama mínum. Þá kom jógað sterkt inn og gerði það að verkum að ég náði mér og hélt áfram í jógakennaranám. Svo kom að því að ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki árið 2002 sem ég kallaði Jógasetrið, jóga fyrir alla, “ segir Auður.

Jóga sameinar það sem nauðsynlegt er fyrir líkamann

Við spurningunni af hverju maður á endilega að fara í jóga var svar Auðar: ,,Maður á ekkert endilega að gera það. Ég held að fyrst og fremst sé mikilvægt að hreyfa líkamann eins og manni finnst skemmtilegast. Ég fann út fyrir mig að jóga sameinar allt það sem við eigum að einbeita okkur að varðandi líkamann, ekki síst þegar árin færast yfir. Jóga byggist á öndun, hreyfingu, dansi, teygjum, hugleiðslu og slökun og er heildræn nálgun fyrir bæði sál og líkama. Ég er með hóp sem ég kalla 60 + og er sniðinn að fólki á miðjum aldri og yfir. Í kringum þennan hóp er mikil gleði því hann er orðinn fjölmennur og allir farnir að þekkjast vel. Það er spjallað og farið í kaffi á eftir og allir fá nokkuð út úr jógatímanum.“

Mamma fyrirmyndin

Mæðgur: Ólöf Pálsdóttir og Auður Bjarnadóttir

Móðir Auðar er fyrirmyndin hennar þótt hún hafi ekki farið í jóga fyrr en Auður stofnaði sína eigin jógastöð. ,,Mamma hóf sína jógaiðkun hjá mér þegar hún var 90 ára og hætti 92 ára,“ segir Auður og brosir. ,,Mamma er dæmi um fullorðna manneskju með góða heilsu af því hún hefur haft gaman af að hreyfa líkamann alla ævi. Hún var alltaf í Kramhúsinu hjá Hafdísi og síðari ár hefur hún gert æfingar sjálf. Ég hringdi til dæmis í hana á covidtímabilinu og þá sagði hún mér að nú væri hún búin með morgunleikfimina, svo gerði hún sjónvarpsleikfimina og svo væri hún búin að gera jóga með mér á netinu og þá var klukkan tvö. Þessi á milli fer hún á stig-vél sem hún pantaði sér sjálf á netinu og fékk hana heimsenda. Hún notar hana  á kvöldin og stígur á meðan hún horfir á sjónvarpið frekar en vera aðgerðarlaus að horfa. Við montum okkur mikið af henni börnin hennar og af því hún stundar þetta reglulega þá veit líkaminn svo vel hver munurinn er á hreyfingu eða kyrrsetu,“ segir Auður.

Lítil hreyfing getur orsakað verki

 Auður segir að í jóganu sé sagt að aldurinn mælist ekki í árum heldur í ástandi hryggjarins. Lífsferillinn komi fram í hryggnum. Hún segir það mikinn misskilning þegar fólk heldur að best sé að hlífa sér til að vera verkjalaus því langoftast sé hreyfingin svarið en ekki kyrrstaðan. ,,Við förum að missa bringuna saman, það hefur áhrif á öndun, þá tognar hakan fram og það hefur áhrif á hálsinn sem spennist upp af því höfuðið er svo þungt. Við þurfum ekki að lenda í þessu ástandi ef við erum meðvituð,“ segir hún ákveðin.

Gengur berfætt í grasinu

Auður tengist fallegri náttúrunni á Corfu þar sem hún leiðir jóga einu sinni á ári.

Auður fer daglega niður að sjó þar sem er grasflöt og gengur berfætt þar í u.þ.b. 20 mínútur, sama hvernig viðrar. ,,Mér líður eins og ég sé að koma úr sjósundi eða kaldri sturtu þegar ég kem úr þeirri göngu,“ segir Auður. Ein af uppáhaldsmyndum Auðar fjallar einmitt um þessa jarðtengingu sem henni þykir fást með því að ganga berfætt í grasinu en myndin nefnist ,,Earthing“.

Kvart-bindindi

Auður segir að rannsóknir sýni að við hugsum 60 – 70% neikvæðar hugsanir á dag. 90% af þeim eru sömu hugsanir og í gær. Hún notar þessar staðreyndir í jógakennaranáminu sem hún heldur reglulega. ,,Það sér það hver maður að það er frekar leiðinlegt og lítið skapandi þegar staðreyndirnar eru skoðaðar,“ segir Auður. ,,Við þurfum að taka okkur taki við að vanda okkur við jákvæða hugann því það er auðveldast í heimi að fara í rennibraut neikvæða hugans. Ég er núna til dæmis í kvart-bindindi í 40 daga þar sem ég kvarta alls ekki. Þetta er mjög góð æfing því auðvitað þurfum við stundum að segja að eitthvað sé að og þarfnist breytinga en þá er ég meðvituð um hvernig ég geri það. Það er nefnilega hægt að vera uppbyggilegur í umvöndunum en það er sannarlega líka hægt að vera niðurrífandi. Það er svona meðvitund sem er svo gagnleg,“ segir Auður Bjarnadóttir sem fann sína leið að vellíðan í gegnum jógað. Hún  predikar ekki um það heldur leyfir hún þeim, sem vilja fara sömu leið og hún, að vera með.

Að sögn Auðar eru þúsundir rannsókna sem sýna fram á  góð áhrif hugleiðslu. ,,Jóga nidra ( Jógískur svefn ) er dásamleg liggjandi leidd hugleiðsla og auðveldari þegar aldurinn færist yfir og fólk fer að eiga erfitt með setur. Mjög gott að nota til að sofna eða ef maður vaknar upp,“ segir hún að lokum.

Við látum hér fylgja vefslóð á eina Jóga Nidra hugleiðslu með Auði:

https://open.spotify.com/episode/1fUeRJrLwTha6985w7SVH1?si=ui3LWrO0T5y2ud_6_UjN8g

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 27, 2022 07:00