Hægt að arfleiða börnin að öllu

Ásdís j. Rafnar

Ásdís j. Rafnar

Ásdís J. Rafnar lögfræðingur skrifar:

Efni erfðaskráa getur verið margvíslegt, en mjög strangar reglur gilda um form þeirra og frágang og um sönnun á góðri andlegri heilsu þess sem erfðaskrána gerir. Fólk gerir erfðaskrár af ýmsum ástæðum. Til að umbuna einhverju barna sinna umfram önnur, fósturbörnum eða sambúðaraðila, jafnvel mannúðarsamtökum. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á tíðni og efni erfðskráa eða aldri þeirra sem gera þær hér á landi

Séreign erfingja.

Það er heimilt að mæla svo fyrir í erfðaskrá að eignir sem menn láta eftir sig verði séreign barnanna eða annarra sem erfa eignirnar. Markmiðið er þá, að eignirnar gangi óskiptar til erfingjans og komi ekki til skipta við slit hjúskapar hjá erfingjanum ef hann skilur. Með því að fjölda hjónabanda lýkur með skilnaði hefur það vafalaust aukist að fólk leitist við að tryggja börnin sín með þessum hætti.

Þegar annað hjóna fellur frá og eftirlifandi maki sækir um setu í óskiptu búi með öðrum erfingjum renna séreignir hins látna aldrei inn í hið óskipta bú, þær koma alltaf strax til skipta. Eftirlifandi maki erfir hins vegar séreignirnar að 1/3 á móti börnum hins látna.

Eignir geta verið séreign hjóna með öðrum hætti. Með kaupmála hjóna má kveða á um að arfur sem hvoru hjóna tæmist verði séreign þess sem erfir. Það liggja ekki fyrir rannsóknir en kaupmála gera líklega helst þeir sem ganga í hjónaband öðru sinni. Sitji annað foreldra í óskiptu búi með börnum sínum er arfshluti barnanna í búinu séreign þeirra. Þýðing þess er sú að ef eitthvert barnanna skilur að lögum á meðan það á arfshlut í óskiptu búi kemur sá eignarhlutur ekki til skipta við skilnaðinn. Höfundarréttur er séreign höfundar í hjúskap, en tekjur af höfundarrrétti eru hjúskapareign sem og höfundarrrétturinn eftir andlát höfundar nema hjónin geri kaupmála um annað.

Eigi hjón séreignir þarf að halda þeim eignum sérgreindum. Ef tryggja á að séreignin taki til verðmæta sem koma í stað upphaflegs séreignarfjár, s.s. bankainnstæðna, fylgir oftast ákvæði þar að lútandi í erfðaskrá og um að arður af erfðafénu sé jafnframt séreign. Orðalagi er jafnframt hagað þannig að það taki til niðja þess sem gerir erfðaskrána, þ.e. ekki aðeins til barna, heldur jafnframt til barnabarna o.s.frv., ef börnin eru fallin frá þegar arfurinn fellur.

Erfðaskrár að öðru leyti.

Erfingjar eru oftast afkomendur hins látna og / eða maki hans. Þeim sem eiga skylduerfingja, þ.e. börn og maka, er veitt takmörkuð heimild til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá. Þeir geta ráðstafað 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá. Hjá ýmsum nágrannaþjóðum okkar eru þessar reglur rýmri. Öðrum en þeim sem eiga skylduerfingja eru ekki settar takmarkanir um hversu miklu þeir mega ráðstafa með erfðaskrá. Samkvæmt norskri könnun sem er ekki ný af nálinni voru þeir sem gerðu erfðaskrár í 40 % tilvika 70 ára eða eldri. Það má reikna með að vilji til að gera erfðaskrá vakni hjá viðkomandi löngu áður, en það er ekki að ástæðulausu sem strangar reglur gilda um form, efni og hæfi við gerð erfðaskráa, því dómgreind þess sem gerir þær þarf að vera óskert og mótstöðuaflið gegn áhrifum annarra á slíka ráðstöfun.

Erfðalögin eru aðgengileg á vef Alþingis til frekari upplýsinga um erfðaréttindi og erfðaskrár. Sjá hér.

Sjá fyrri grein Ásdísar um fyrirframgreiddan arf.

Ritstjórn febrúar 9, 2015 16:51