„Stórkostlegt að vera úti í náttúrunni net- og símasambandslaus“

„Náttúrufegurðin á þessu svæði er svo mikil og stórkostleg þessi tilfinning að vera úti í náttúrunni  net- og símasambandslaus. Þetta er ástand sem er hugbreytandi“, segir Elísabet S. Ólafsdóttir, sem gekk um Víknaslóðir á ágúst, í 20 manna gönguhópi Ferðafélags Ísland undir styrkri stjórn Ingibjargar Jónsdóttur fararstjóra. Lifðu núna hitti Elísabetu og tvær stöllur hennar til að forvitnast um hvers vegna þær fóru í þessa ferð og hvernig upplifun það var. Myndirnar í greininni eru úr fórum  Elísabetar,Helgu J. Bjarnadóttur og Dagniju Karabesko.

Fór í rómantíska ferð með fjórum konum

Claudia og Þórður

Elísabet fór í gönguna ásamt þremur öðrum konum og eiginmanni einnar þeirra.  Kolbrúnu Reinholdsdóttur vinkonu sinni og þeim Helgu J. Bjarnadóttur  og Claudiu M. Luckas, en þær þrjár eru saman í saumaklúbbi. Upphaf ferðarinnar má rekja til þess að Claudia gaf manninum sínum Þórði Backmann  þessa gönguferð í afmælisgjöf. „Þetta byrjaði sem rómantísk ferð hjóna sem ákváðu að bjóða frænku sinni með sem var nýbúin að missa manninn sinn. Frænkan hafði samband við vinkonu sína Elísabetu og Helga frétti svo af ferðinni og ákvað að koma með“, segir Kolbrún. „Allt í einu var Tóti kominn í rómantíska ferð með fjórum konum“ bætir hún við hlæjandi. „Hann bar harm sinn í hljóði“, skýtur Elísabet inn sposk á svip.

Gönguferð á Víknaslóðir var búin að vera á óskalista Helgu í 20 ár. „Maðurinn minn komst ekki svo ég stökk á þetta. Það var gengið á milli skála í ferðinni, svolítið eins og í göngu um Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur“, segir hún.

Fyrsta daginn var gengið í Stórurð

Gönguhópurinn á gangi í Dyrfjöllum

Ferðafélagshópurinn hittist á Egilsstöðum og síðan var ekið sem leið liggur að Vatnsskarði eystra sem liggur milli  Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar eystra.  Þar hófst gangan og lagt var í hann með bakpoka og göngustafi.  Það blés duglega í fyrstu sem kom ekki að sök því allir voru í góðu skapi og hlökkuðu til daganna framundan. Gengið var í Stórurð sem er stórbrotið náttúruundur við rætur Dyrfjalla. Um kvöldið var komið í Borgarfjörð eystri og gist þar í húnæði Félags eldri borgara. Sofið var í stórum sal og einn ferðalanganna hafði á orði að það hefði bara ekki verið hrotið neitt um nóttina!  Næsta morgun hófst gangan í víkurnar, þar sem gengið var um fjöll og heiðar yfir til Breiðuvíkur þar sem komið var við niður í Brúnavík og seinna Húsavík. Þaðan var gengið í Loðmundarfjörð og endað með því síðasta daginn að ganga til Seyðisfjarðar. Þegar þangað var komið var hópurinn búinn að leggja að baki  rúma 70 kílómetra.

Eitt sinn bjuggu um 500 manns á Víknaslóðum

Hópurinn á leið í Brúnavík

Það var víða grösugt á leiðinni, fallegur gróður og litlar tjarnir víðs vegar. Það var skrítið til þess að hugsa að á Víknaslóðum hafi eitt sinn búið 130-140 manns. Það standa enn uppi minjar um byggðina sem eitt sinn var, en hún  lagðist alveg af um miðja 20. öld.  Þetta fallega svæði var harðbýlt og dæmi eru um fólk sem varð úti á leiðinni milli staða. Gönguhóp Ferðafélagsins skorti hins vegar ekkert og  gisti  í glæsilegum skálum í eigu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.

Fór í steypibað í fossi

Litlar fallegar tjarnir eru áberandi á Víknaslóðum

Náttúrufegurðin á svæðinu  hafði mikil áhrif á göngufólkið.  „Þetta var undursamleg leið og að bæta Stórurð við var mikil upplifun.“, segir Elísabet og Helga tekur undir „ Það eru þessi hughrif að ganga úti í náttúrunni. Þegar ég loka augunum sé ég fyrir mér litina sem voru þarna og litlu tjarnirnar með fífum í kring voru svo fallegar. Þó þetta væri hrjóstugt, var líka gróðursæld í Loðmundafirði „Þar fór ég í fyrsta skipti á ævinni í steypibað í fossi“ segir hún.

Gaman að koma í skálana og spjalla

Skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Húsavík er mjög semmtilegur

Skálavistin er þeim stöllum líka minnistæð úr ferðinni. „ Það var svo gaman að koma í skálana á kvöldin og spjalla. Þetta er örugglega skátagenið í mér“, segir Elísabet hlæjandi og þeim ber saman um að skálarnir hafi verið óvenjulega góðir.  Að vera með  matartjald á palli við skálana væri vel til fundið. Þeir virkuðu eins og annað eldhús. Kolbrún var líka ánægð með skálalífið og félagsskapinn í ferðinni. „Fyrir utan dásamlega náttúrufegurðina. Ég var búin að sjá myndir en það kom mér á óvart hvað björgin í Stórurð voru stór“, segir hún og þær bæta við að liturinn á dýjamosanum græna lifi í minningunni.

Kemur endurnærður tilbaka

Kolbrún og Elísabet njóta þess að standa á kletti uppi í háu fjalli

„Maður fær svo mikla hvíld, hugarró og gleði við að fara í svona ferð“, segir Kolbrún. „Það er svo gaman að vera með fólki og  kynnast nýju fólki. Maður kemur endurnærður tilbaka“. Það taka áreiðanlega flestir sem fóru þessa ferð undir með henni, enda var hópurinn bæði samhentur og skemmtilegur.  Það er hægt að aka um Víknaslóðir en Helga segir það allt aðra upplifun að ganga en keyra. „Maður býr að því. Maður er að sigrast á einhverju. Við gengum rúmlega 70 kílómetra á fimm dögum.“.  Elísabet segist lifa lengi á svona ferðum og helst vilja fara eina slíka árlega. „Þetta er svo góður undirbúningur fyrir veturinn, þar sem mikil vinnutörn er framundan. Þegar litið er yfir sumarið, eru svona útivistarferðir í góðum félagsskap einn af hápunktunum og þær skila mestri endurnæringu“, segir hún og Helga bætir við. „Mér finnst líka svo fallegt að þarna var stór hópur á ferð og getustigið mismunandi. En það hjálpuðust allir að við að koma öllum á áfangastað. Það var enginn sem hljóp á undan og það myndaðist svo mikil samkennd“.

Dýjamosinn

Helga baðar sig í fossinum

 

Ritstjórn september 23, 2022 07:00