Hælisleitendur í Hveragerði

„Ég gef fuglunum brauð og hakk, rúsínur og epli“, segir Þórir H. Óskarsson eftirlaunamaður í Hveragerði, sem gefur fuglunum í garðinum að borða á hverjum degi. Já og borða þeir hakk? spyr blaðamaður. „Já, þeir hakka í sig hakkið“, segir Þórir og skellihlær. Hann gefur fuglunum sem eru mest starrar og þrestir, að borða á pallinum í garðinum og þeir flykkjast að. Kötturinn situr fyrir innan gluggann og horfir rólegur á.

Allt miklu rólegra hér

Það er stutt í brosið hjá Þóri. Hann segist vera „hælisleitandi“ í Hveragerði og sama eigi við um félaga hans Svan Jóhannesson og Svein Aðalbergsson, en allir fluttu þeir þangað frá höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að umferðin í Reykjavík sé orðin lífshættuleg „Ég er að verða áttræður og mér finnst þetta rosalegt. Hér er allt miklu rólegra og hér mun ég geta keyrt þar til ég verð 100 ára!!“. Sveinn segist líka hafa verið að sækjast eftir rólegheitunum í Hveragerði en þar eru hann og konan hans líka nær börnunum sínum. „Sonur okkar býr hér í bænum og dóttir okkar er með bændagistingu á Hjarðarbóli í Ölfusi“, segir hann.

Voru farin að taka svefnlyf

Svanur segir að umferðin hafi átt sinn þátt  í því að þau hjónin fluttu í Hveragerði. „Við bjuggum á horninu á Miklubraut og Háaleitisbraut. Hávaðinn frá umferðinni var að gera út af við okkur. Við gátum ekki sofið og þurftum að fara að taka svefnlyf“, segir hann. Þeir Þórir og Sveinn segja að Svanur komist næst því  þeirra þremenninga, að vera innfæddur Hvergerðingur, en hann flutti barn að aldri með foreldrum sínum í Hveragerði og ólst þar upp, þó það ætti fyrir honum að liggja að búa mest alla ævi í Reykjavík.  Faðir hans var Jóhannes skáld úr Kötlum. Fjölskyldan var meðal frumbyggja í bænum og byggði sér hús í skáldagötunni Frumskógum.

Eru við hliðina á Heilsustofnun

Sveinn bjó hins vegar með fjölskyldu sinni í Hveragerði í 30 ár, frá 1970 til 2000, en hann fæddist á Seyðisfirði. Þaðan fór hann unglingur og giftist síðar konu frá Hveragerði. „Hann hefur búið hér lengst af okkur þremur“, segja  þeir félagarnir. En eins og svo margir eftirlaunamenn vildu þeir Þórir og Svanur minnka við sig húsnæði og það skipti að sjálfsögðu höfuðmáli að húsnæði var mun ódýrara í Hveragerði en á höfuðborgarsvæðinu. Svanur þekkti líka staðinn. Þeir búa allir í raðhúsum við Lækjarbrún, en gatan er við hliðina á Heislustofnun Náttúrulækningafélagsins og þangað geta menn farið og keypt mat, eða notfært sér aðstöðuna sem þar er, til heilsuræktar. Þaðan kemur þetta orð, sem Þórir notar í gríni um sig og nágranna sína, hælisleitendur. Orðið hæli var lengi notað um Heilsustofnun og margir þekkja hana aðallega út frá því heiti.

Er kominn réttu megin við myndavélina

Þórir er ljósmyndari en er hættur að starfa við það. „Ég er kominn réttu megin við myndavélina“, segir hann og hlær. Hann bjó í Reykjavík, en var farinn að draga saman seglin og sá að hann yrði að grynnka á skuldum, til að fjárhagurinn gengi upp á efri árum. „Við vorum samstíga í því hjónin að fara austur. Það var mun viðráðanlegra að kaupa hér og ég gerði upp allt í Reykjavík“ segir hann, en konan hans er nú fallin frá.  Þau höfðu eins og svo margir aðrir, selt sumarbústað sem þau áttu. Það eru nokkur ár síðan og hann var seldur á 14 milljónir króna. Það var mat skattayfirvalda að þau hefðu þénað 7 milljónir króna á sumarbústaðnum og þau þurftu því  að greiða 1400 þúsund í skatt vegna sölunnar. „Ég innréttaði bústaðinn sjálfur og þetta var tómstundagaman sem var skattlagt. Ég ræddi þetta við vin minn í Noregi og honum fannst þetta skrítið. Fljótlega kom svo bréf frá Tryggingastofnun þar sem við vorum krafin um 2 milljóna króna endurgreiðslu vegna „teknanna“ af bústaðnum. Þegar ég sagði vini mínum í Noregi þetta spurði hann; „Hefurðu nokkuð spurt þá hvort þeir vilji ekki taka þig af lífi á torginu í Reykjavík?!!“

Ritstjórn mars 1, 2019 10:49