Kneipp bunurnar betri en góður kaffibolli

Við Kjarnalund, vatns- og sundaðstöðuna á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði bíður svolítill hópur í biðröð. Allir eru berfættir og hafa brett buxnaskálmarnar upp fyrir hné. Þeir eru að bíða eftir að komast í Kneipp bunur hjá Erlingi Arthurssyni. Blaðamaður Lifðu núna tók nokkra þeirra tali.

Vakna á stundinni

Friðrika Stefánsdóttir og Þóra Berg

Friðrika Stefánsdóttir og Þóra Berg

„Ég er með mígreni og mér finnst þetta hafa góð áhrif á það, fyrir nú utan að fótabunurnar valda því að maður vaknar á stundinni“, segir Friðrika Stefánsdóttir. „Ég þarf ekki kaffi, bara Kneipp segi ég“. Þóra Berg tekur undir það að Kneipp bunurnar séu betri en góður kaffibolli. „Það er ótrúlegt hvaða áhrif þetta hefur og það er líka gott að fara á námskeiðið þar sem því er lýst hvað þetta gerir fyrir heilsuna“ segir hún.

Hressir mann verulega

Arnar Sigfússon segist fara í bunurnar á hverjum morgni. Bunurnar eru ekki gefnar um helgar og hann er ekki frá því að þá finni hann mun. „ Ég finn hvað ég vakna vel við bunurnar“ segir hann. „Það er svolítið sjokk að fá ískalt vatn á fæturnar. Kannski ekki notalegt rétt á meðan á því stendur, en hressir mann verulega“ bætir hann við.

Arnar Sigfússon

Arnar Sigfússon

Sprautað upp og niður fótleggina

Það er notuð sérstök aðferð við að sprauta vatninu á fæturnar. Það er sprautað upp annan fótlegginn og niður hinn. Þetta er gert báðum megin og svo er sprautað undir iljarnar á fólki. Erlingur Arthursson er búinn að sjá um bunurnar árum saman og hann segir að í sumar sé væntanleg skýrsla um forvarnir í anda Sebastians Kneipp, forvígsmanns aðferðarinnar. Erlingur segir bunurnar fyrst og fremst bæta blóðstreymi í fótunum, sem sé afar mikilvægt, sérstaklega eftir því sem árin líða. Hann bendir á að það fyrsta sem fari að gefa sig með aldrinum, séu útlimirnir. Þegar menn hafi farið á norðurpólinn og lent í hremmingum, hafi þeir til dæmis byrjað á að missa fingur og tær.

Vatnsmeðferð Kneipps

Sebastian Kneipp

Sebastian Kneipp

Sebastian Kneipp fæddist árið 1821. Hann var prestur og einn upphafsmanna náttúrulækningahreyfingarinnar. Oftast er hans getið í sambandi við „Kneipp lækningar“ sem felast í margvíslegri vatnsmeðferð. Vatnið er haft mismunandi heitt og þrýstingur á því er mismunandi mikill en þetta taldi Kneipp hafa heilandi áhrif. Hann er þekktur í Noregi fyrir uppskrift sína að heilhveitibrauði. Kneippbrauðið er eitt vinsælasta brauðið í Noregi.

 

 

Ritstjórn maí 11, 2015 10:52