Hagleiks- og hugsjónamaðurinn Bjarni í Hólmi

Bjarni Runólfsson fæddist 10. apríl 1891 í Hólmi í Landbroti, nú Skaftárhreppi, í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann ólst upp við hefðbundin sveitastörf þar sem foreldrar hans voru bændur. Faðir hans Runólfur Bjarnason hafði þekkingu á lækningajurtum og nýtti þá þekkingu sína, einkum á efri árum til að hjálpa öðrum en slík þekking var þekkt í Vestur-Skaftafellssýslu og má nefna að Þórunn grasalæknir var þaðan.

Sem ungur maður var ljóst í ljós að Bjarni var duglegur og áhugasamur um allar framfarir til handa bændum. Hann kvæntist Valgerði Helgadóttur 1921 en faðir hennar, Helgi Þórarinsson, setti upp rafstöð í Þykkvabæ í Landbroti, þar sem hann bjó, árið 1913 og var hún reist af Helga. Rafstöðin sem var önnur rafstöð sem sett var upp á Íslandi var aðeins tvö hestöfl og var mjög dýr og mun Helgi hafa greitt fyrir hana með 120 sauðum. Þetta varð til þess að Bjarni fór að velta fyrir sér hvernig hann gæti virkjað Rásina, sem er hægri kvíslin við Skaftá, heima í Hólmi og fékk brennandi áhuga á þessum framkvæmdum sem hann sá að myndu leiða til framfara fyrir bændur. Bjarni reisti vandað og stórt steinsteypuhús í Hólmi sem var hans eigin smíði og þar bjó hann með konu sinni Valgerði. Þau hjón eignuðust ekki afkomendur.

Fyrstur til að smíða túrbínu á Íslandi

Bjarni var hugvitsmaður sem þótti atorkusamur, þrautseigur, framsýnn og ósérhlífinn. Hann hafði einkar haga hönd og einstakt að ólærður bóndi skildi áorka og vinna að svo miklum úrbótum sem einnig voru tæknilega erfið í afskekktri sveit. En Bjarni var stórhuga framfarasinni og mikill vinnuþjarkur og sagt er að 16-18 klst. vinnudagur hafi verið algengur hjá Bjarna. Hann naut stuðnings konu sinnar Valgerðar en hún var mikill skörungur og ómetanleg stoð og stytta fyrir Bjarna, rak búið af myndarskap þegar Bjarni var löngum burtu auk þess sem hún sá um bókhald og bréfaskriftir og þýddi einnig úr dönsku bók sem Bjarni hafði til hliðsjónar um smíði rafstöðva við verk sín. Handbókin var ávallt  kölluð Lobbinn en hét Lommebog for Mekanikere, eftir Peter Lobben. Siggeir Lárusson á Klaustri hafði pantað tvö eintök og fór annað þeirra til Bjarna en hitt til síðar Sigurjóns Björnssonar sem starfaði með Bjarna.

Árið 1925 Bjarni smíðaði fyrstu túrbínuna á Íslandi en hann smíðaði jafnframt verkfæri eftir því sem þurfti til verksins. Eftir að hafa smíðað túrbínu heima í Hólmi smíðaði hann túrbínu í Svínadal í Skaftártungu en þar voru aðstæður það erfiðar að menn töldu að Bjarna myndi ekki takast ætlunarverk sitt. Bræðurnir á bænum, Eiríkur og Sigurjón Björnssynir hjálpuðu honum og urðu upp frá því samstarfsmenn hans. Þeir notuðust við eigin hyggjuvit og Lobbann. Efnivið í rafstöðvarnar fékk Bjarni úr skipum sem strönduðu við strandlengjuna en efnið og hlutir ýmiss konar voru oft níðþungir og það þurfti að flytja þá á hestum. Alls smíðaði Bjarni 101 rafveitu í 11 sýslum á árunum 1927-1937.

Setti saman eigin bíl

Flutningar með efni í Skaftafellssýslum voru oft erfiðir. Flytja þurfti nýðþunga hluti og efnivið heim í Hólm en Bjarni eignaðist bíl fyrstur manna á sínum heimaslóðum, Ford T-vörubíl sem bar númerið SF 1 og síðar Z 1. Hann setti bílinn saman sjálfur með hjálp félaga sinna en bílinn kom með skipinu Skaftfellingi árið 1926. Vörubíllinn auðveldaði Bjarna mjög flutningana um vegi, vegleysur og ár Skaftafellssýslna og síðar víðar um landið.

Árið 1926 var Bjarni búinn að setja upp rafveitur á eftirfarandi stöðum í Skaftafellssýslum:

  1. Hólmi í Landbroti.
  2. Svínadal í Skaftártungu.
  3. Breiðabólsstað á Síðu.
  4. Blómsturvöllum í Fljótshverfi.
  5. Skaftafelli í Öræfum.
  6. Svínafelli í Öræfum.
  7. Þykkvabæ í Landbroti.

Orðspor Bjarna tók að breiðast út um allt land og var hann fenginn til að smíða túrbínur víða um landið. Þetta gjörbreytti aðstæðum og lífi bænda í sveitum en Bjarni mun hafa smíðað vel á annað hundrað rafmagnsstöðva og yfir 100 túrbínur. Rafstöðvar Bjarna þóttu reyndast vel og voru ódýrari uppsettar en sambærilegar stöðvar sem komu erlendis frá. Hann vann áfram með félögum sínum, bræðrunum frá Svínadal og einnig Sigfúsi Vigfússyni frá Geirlandi í Vestur-Skaftafellssýslu en þeir fóru um landið og settu upp rafstöðvar og fengu þá fjölda manns í vinnu við það. Ferðirnar sóttust oft seint, vegir voru slæmir víða og margar óbrúaðar ár.

Úr Hólmi í Landbroti.

Setti upp frystihús í Hólmi 

Hugur Bjarna var síkvikur og allar framfarir til að auðvelda líf fólksins í sveitum var honum hugleiknar. Árið 1936 setti hann upp frystihús í Hólmi, einn og sér án nokkurs styrks, og ári síðar sláturhús. Frystihúsið hafði tvo frystiklefa og vélaklefa og setti hann þá upp sjálfur. Víst er að Skaftfellingar hafa kunnað honum þakkir fyrir því þeir höfðu til nokkurra ára rekið fé yfir sandana og alla leið til Reykjavíkur til slátrunar en síðar til Víkur í Mýrdal. Með því að reka féð í stað þess að slátra því og salta í tunnur fékkst um helmingi hærra fé fyrir auk þess sem alltaf urðu einhver afföll á leiðinni sem rýrðu söluvöruna. Það er því vel hægt að ímynda sér hve mikil hagræðing þetta reyndist. Bjarni gat fryst 200 skrokka á sólarhring en ætlunin var að stækka frystihúsið svo hægt væri að frysta 600 skrokka en honum entist ekki aldur til þess.

Í sláturtíðinni frysti Bjarni kjötið jafnóðum og það var síðan flutt frosið til Reykjavíkur. Þetta voru miklar framfarir sem jók verðmæti afurðarinnar.

Bjarni reisti klakstöð til að klekja út seiðum fyrir silung og sleppti 100.000-300.000 seiðum í Skaftá. Hann starfaði fyrir Búnaðarfélag Íslands og sat í miðstjórn Framsóknarflokksins.

Á skammri ævi áorkaði Bjarni í Hólmi miklu og verk hans voru merkileg en hann lést 4. sept. 1938 aðeins 48 ára að aldri úr heilablóðfalli og var það mikið högg. Valgerður gaf Búnaðarfélagi Íslands jörðina en félagið keypti húsin þar.

Jörðin og hús komust svo í hendur systur Valgerðar og hennar manns sem jafnframt var bróðir Bjarna, þeirra Rannveigar Helgadóttur og Valdimars Runólfssonar. Hann var trésmíðameistari og valinn til að starfrækja þar iðnskóla en hugmyndin var að halda í heiðri starfi Bjarna og halda áfram virkja sveitir landsins. Nemendur voru í heimavist þar. Skólinn var stofnaður árið 1946 og var starfræktur fram á 7. áratuginn. Valgerður í Hólmi lést 1981.

Í Hólmi er nú varðveitt smiðja Bjarna og verkfærin sem hann sjálfur smíðaði auk rafstöðvarinnar. Þjóðminjasafn Íslands kemur að þeirri varðveislu. Fleiri smíðaverk og eignir úr búi Valgerðar og Bjarna, þessa frumkvöðuls og merka manns, sem stuðlaði að framþróun með óþreytandi elju, má finna á Byggðasafninu í Skógum.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn maí 21, 2024 07:00