Tengdar greinar

Hagsmunafulltrúi eldra fólks

Eftirfarandi grein birtist í fréttabréfi Vöruhúss tækifæranna sem kemur út mánaðarlega. Þessi grein var í maí fréttabréfinu og þar birtast fleiri fróðlegar greinar sjá hér.

Í þessari grein er fjallað um málefni sem varða eldra fólk miklu svo sem eins og um hagsmunafulltrúa eldra fólks, og birtist greinin hér í heild sinni.  Svo virðist sem þetta embætti sé hugsað á svipaðan hátt og umboðsmaður aldraðra sem mikið hefur verið í umræðunni síðast liðin ár.

Fullorðin kona sem hafði annast fullorðinn maka sinn heima í 10 ár viðurkenndi að það hefði tekið á. Það er erfitt að horfa upp á lífsförunaut sinn fjara út en það sem henni fannst erfiðast var að „slást við kerfið.“ Þetta þekkja þeir sem þurfa eða hafa þurft að aðstoða og sjá um fullorðna aðstandendur sína. Könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá 2021 sýnir að 42% eldri borgara sem þurfa á aðstoð að halda fá hana frá börnum sínum og þá helst frá dætrum sínum. Þetta getur verið mikið álag á umönnunaraðilana sem eru gjarnan í fullri vinnu utan heimilis. En ekki síður getur þetta verið mjög þungbært fyrir þann sem fær aðstoðina að þurfa að vera upp á góðmennsku ættingja sinna kominn.

Ráðherra félagsmála fer með málefni aldraðra fyrir hönd ríkisins en önnur ráðuneyti og þó nokkrar stofnanir koma einnig að málaflokknum. Um 80% af þjónustu við eldra fólk er framkvæmd af sveitarfélögum um allt land sem byggir á eigin tekjum sveitarfélaga. Þar af leiðir að sveitarfélögin bjóða upp á mismunandi þjónustu þannig að eldra fólki er mismunað eftir búsetu. Upplýsingar um réttindi eldra fólks og hvaða úrræði standi þeim til boða eru ekki nægilega aðgengilegar. Það hefur verið samdóma álit nær allra sem komið hafa að málaflokknum síðustu áratugi.

Í Fréttabréfinu okkar í desember s.l. sögðum við frá drögum að aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumálaráðherra sem nefnist Gott að eldast og felst í heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Eitt af meginmarkmiðum aðgerðaáætlunarinnar er að gera fólki kleift að búa sem lengst heima hjá sér en til þess er nauðsynlegt að samþætta þá þjónustu sem mismunandi aðilar veita eldri borgurum

Þann 13. júní 2021 samþykkti Alþingi þingsályktun um að „fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn meti m.a. hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess skuli vera. Starfshópurinn skili ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022.“

Í greinargerð með tillögunni segir að þjónusta við aldraða dreifist á ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðila, og að lög og reglur um málaflokk aldraðra séu flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gætir réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeinir þeim um rétt þeirra.
Hagsmunafulltrúa aldraðra sé ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim.

Hagsmunafulltrúa aldraðra beri að hafa frumkvæðiseftirlit með persónulegum högum allra eldri borgara, sérstaklega með tilliti til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað þeirra. Jafnframt skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.

Ályktunin var samþykkt af öllum viðstöddum þingmönnum og ráðherrum og fyrir um ári síðan var starfshópur skipaður í samræmi við ofangreinda þingsályktun, en hópurinn hefur enn ekki skilað opinberlega niðurstöðum. Við fyrstu sýn virðist manni ályktun Alþingis nokkuð skýr og þörf. Þó hefur starfshópurinn upplýst ráðherra um að hann setji „spurningarmerki“ við það að setja á fót embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Ekki hefur spurst út hver rök starfshópsins eru fyrir að samþykkja ekki að embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks verði komið á og það verður fróðlegt að sjá þau þegar starfshópurinn skilar niðurstöðum sínum opinberlega. Rétt er að geta þess að starfshópurinn tekur undir að bæta megi upplýsingagjöf til eldra fólks en það höfum við jú vitað í áratugi og þurfti varla ársvinnu starfshóps á vegum hins opinbera til að komast að þeirri niðurstöðu. En svona er kerfið og við höldum áfram að „slást“ við það.

Ritstjórn maí 16, 2023 07:00