Tengdar greinar

Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra og þingmaður

Halldór Blöndal er 83 ára gamall og er aftur sestur að á Skólabraut á Seltjarnarnesi, þar sem hann bjó með fjölskylduna á níunda áratugnum, nema nú býr hann í eignaríbúð í þjónustukjarna hinum megin götunnar.

Halldór var viðloðandi stjórnmálin í næstum 50 ár eða á árunum 1960 til 2007. Hann gerðist blaðamaður á Morgunblaðinu 1960 og skrifaði fréttir frá Alþingi. Sem slíkur sat hann þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins og hefur raunar setið þingflokksfundi með öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem kjörnir hafa verið síðan 1959. Halldór settist fyrst á þing sem varaþingmaður í desember 1971 og var kjörinn þingmaður 1979. Hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra 1991 til 1995 og samgönguráðherra 1995 til 1999. Hann var forseti Alþingis 1999 til 2005. Nú er Halldór sestur í helgan stein en er sannarlega ekki aðgerðarlaus. Hann gerir sér far um að vera tölvufær, skrifar allt á tölvu og ef eitthvað fer aflaga, þá býr hann svo vel að fá aðstoð hjá barnabörnunum eða mökum þeirra!

Halldór segir að sér hafi liðið vel í Efstaleiti þar sem hann bjó síðast; mikil vinátta hafi myndast milli hans og Ásgeirs húsvarðar og margra annarra í húsinu. En óneitanlega hafi lífið þó oft verið einmanalegt eftir að eiginkona hans, Kristrún Eymundsdóttir, lést í desember 2018.

Halldór á tvær dætur af fyrra hjónabandi, Ragnhildi og Kristjönu Stellu og einn son, Pétur, af því síðara. „Börnin mín vildu endilega flytja mig nær sér til að geta hlúð betur að mér,“ segir Halldór og brosir hlýtt. „Þau töldu að ég byggi of stórt þar sem ég var og vildu að ég fengi meiri félagsskap,“ segir þessi fullorðni maður sem er, þrátt fyrir allt, sáttur við að ráðskast hafi verið með sig á þessum tímapunkti í lífinu.

„Pétur sonur minn og Anna Sigríður tengdadóttir mín sáu um að selja gömlu íbúðina og keyptu þessa í staðinn. Svo studdu börnin mín og fjölskyldur þeirra við bakið á mér í flutningunum og veitti ekki af, enda er ég víst ekki maður til að bera bókakassa lengur. Þetta gekk allt mjög vel en mér þykir þó ógott að koma ekki öllum bókunum fyrir hér. Sem betur fer er ég líka með pláss í geymslu fyrir bækur og svo leigi ég skrifstofu þar sem ég get komið bókum fyrir og hef ágæta vinnuaðstöðu. Á þessum nýja stað er ég með þjónustu, fæ hádegismat og öll þrif sem ég þarf. Þegar upp er staðið var þetta hárrétt ákvörðun því hér líður mér mjög vel og starfsfólk allt er til fyrirmyndar. Lífið varð auðvitað tómlegra þegar ég var orðinn einn en hér hitti ég nýju nágrannana klukkan 9 í morgunkaffi og ég kann mjög vel við félagsskapinn. Það er líka fastur liður að hringja í vin minn Árna Kristinsson lækni um sexleytið á kvöldin, jafnvel með viskídreitil í glasi.“

Halldór er nokkuð hress að eigin sögn, en hann hafi þó minni kraft í fótunum. Hann segist fá góða þjálfun í Sjúkraþjálfun Reykjavíkur tvisvar í viku og það hjálpi mikið. Heyrnin er farin að sljóvgast en Halldór segir að við því séu ráð með heyrnartækjum. Það þurfi að vísu að kunna á þau!

Varðandi áhugamál nefnir Halldór helst lestur ljóða og þjóðlegan fróðleik og svo hafi hann gaman af að spjalla við fólk. Vissulega þýði það að hann hafi ekki stundað mikla markvissa hreyfingu í gegnum tíðina og hætt sé við að það komi niður á honum nú á efri árum. En heimsóknin í sjúkraþjálfunina hjálpar mikið.

Fastir liðir í lífi Halldórs eru allnokkrir en hann sækir til dæmis Rotaryfundi vikulega og þar er Pétur sonur hans líka meðlimur. Halldór skrifar vísnahornið í Morgunblaðinu á hverjum degi og hefur gaman af því, ekki síst að eiga í samskiptum við hagyrðinga og vísnavini víða um land. Hann er formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna og líkar vel að hafa þau tengsl inn í flokkinn. Þar eru vikulegir fundir um þjóðþrifamál í hádeginu á miðvikudögum – og mætingin stundum betri en á landsfundum annarra flokka. Einnig hefur hann verið forseti Hins íslenska fornritafélags og segir frá því glettinn í bragði að ákveðið hafi verið að yngja upp í félaginu með því að fá sig í stjórn.

„Ég hef alltaf nóg að gera og leiðist ekki neitt því ég er svo heppinn að fá alltaf einhver verkefni að fást við. Ég var til dæmis beðinn um að flytja ræðu um Styrmi Gunnarsson næstkomandi laugardag. Við Styrmir vorum bekkjarfélagar úr Laugarnesskólanum og miklir vinir. Í sama bekk voru Ragnar Arnalds, Sveinn Eyjólfsson, Magnús Jónsson, Jón Baldvin Hannibalsson og foringinn Brynja Benediktsdóttir svo nokkur séu nefnd, svo að þarna var fríður flokkur samankominn og fitjað upp á ýmsu.“

Halldór fæddist og ólst upp á Laugavegi 66 en faðir hans vildi að þeir bræður færu í Laugarnesskólann en ekki Austurbæjarskólann sem var mun nær heimili þeirra. „Pabbi hafði sínar ástæður fyrir þessu fyrirkomulagi og við gegndum bara,“ segir Halldór og brosir. „Ég var bara átta ára og hafði svo sem enga sérstaka skoðun á því hvaða skóli yrði fyrir valinu. En það var mín gæfa að lenda hjá Skeggja í Laugarnesskólanum, en hann hafði mikil áhrif á okkur og var brautryðjandi í skólastarfi.“

Covid hefur haft áhrif á lífi Halldórs þótt hann hafi sloppið sjálfur lengst af eða þar til í byrjun mars þegar hann greindist loks. En veiktist þó ekkert að ráði, enda þríbólusettur. „Ég hef ferðast mun sjaldnar norður í gamla kjördæmið mitt síðastliðin í tvö ár,“ segir hann. „Það er náttúrlega alveg ómögulegt en ég hringi reglulega í mann og annan og legg mig fram um að fylgjast með. Ég hlakka til að fara norður í sumar að heimsækja mína gömlu vini og fylgismenn. Það er meira að segja búið að lofa mér ferð til Grímseyjar!“

Þannig var að þegar Bjartmar Guðmundsson hætti á þingi 1971 þurfti að velja annan í hans stað á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir norðan. „Þá var ég fluttur til Reykjavíkur, vann sem blaðamaður við Morgunblaðið og var hættur í pólitík. Einn daginn hringdi Páll Þór Kristinsson á Húsavík og spurði hvort ég vildi taka þriðja sætið á lista flokksins. Páll átti til að vera hrekkjóttur svo að ég tók erindinu mátulega alvarlega, sagði bara já, já, Páll minn og kvaddi án þess að leiða hugann að því meir. Hann fann á sér að ég trúði honum ekki og sem betur fer var haft samband við mig aftur. Svo fór að Jóhann gamli Stefánsson á Grenivík stakk upp á mér og eftir að ég hafði ráðfært mig við Kristrúnu konu mína fór ég norður og ræddi við vini mína og stuðningsmenn. Ég fékk góðar undirtektir og settist í þriðja sætið.“

Halldór er þekktur fyrir að kasta fram stökum, t.d. í þingveislum og á mannamótum, og hefur ekkert gefið eftir í þeim efnum. Þá hafa verið samin lög við ljóð eftir hann, m.a. af vinunum Atla Heimi Sveinssyni tónskáldi og Erni Óskarssyni.

Hann rifjar upp þegar þeir Hjörleifur Guttormsson og Tómas Ingi Olrich tókust harkalega á um Íslenska erfðagreiningu á þingi. Báðir áttu það til að viða að sér miklu efni, sökkva sér ofan í það og dugði það þeim til að tala vel og lengi. Þá kvað Halldór:

Þegar Hjörleifs loksins lokast lotumunnur

opnast Tómas gagnagrunnur.

Á Holti í Þistilfirði var hrúturinn Pjakkur, afbragð annarra hrúta. Sá góði hrútur var kveikjan að þessari vísu Halldórs:

Var í Holti hrútur vænn

en hann er dauður;

Steingrímur er stundum grænn

og stundum rauður.

Halldór Blöndal er sáttur á þessum stað í lífi sínu og heldur áfram að lifa lífinu eins og honum þykir skemmtilegast, þ.e. við ljóðagerð og spjall við gott fólk.

Sólveig Baldurdsóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

Ritstjórn mars 23, 2022 07:53