Haustið byrjar með harðsperrum

Steinunn Þorvaldsdóttir

 

Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá Líkamsrækt JSB skrifar:

Það eru ekki bara börn með skólatöskur sem koma með haustið eins og Vilborg Dagbjartsdóttir orti svo eftirminnilega um. Allt vetrarstarf fer í gang og þar sem æ fleiri eru góðu heilli farnir að stunda líkamsrækt, flykkist fólk á stöðvarnar á þessum árstíma, uppfullt af góðum ásetningi og til í að taka ærlega á eftir sumarið. Það verður þó ekki allt tekið út með sældinni í þeim efnum frekar en öðrum, þar sem harðsperrur eru óhjákvæmilegur fylgifiskur þessara haustverka. Þær eru þó missárar – allt eftir því hvernig við förum er af stað. Ef við ætlum að ná öllum okkar markmiðum strax í fyrsta tímanum þá er viðbúið að kvalirnar verði óbærilegar og því vísara að fara varlega í sakirnar!

Hvað eru harðsperrur?

Lengi vel var því haldið fram að harðsperrur stöfuðu af mjólkursýrumyndun í vöðvafrumunum, en sú er víst ekki raunin. Harðsperrur koma þegar vöðvi lengist í átaki og myndar svokallaðan  bremsukraft. Þegar slíkum krafti er beitt af miklum ákafa, eins og við gerum þegar við tökum á af alvöru eftir hlé, verður vöðvinn fyrir skemmdum. Uppröðun samdráttarpróteina frumanna raskast og frumuhimnan rofnar þannig að prótein og önnur efni finnast í blóði.

Ástæða þess að harðsperrurnar gera ekki vart við sig fyrr en nokkrum klukkutímum eftir átökin er sú að þá fer viðgerðaferlið af stað í vöðvanum með tilheyrandi bólgusvörun. Vöðvafrumur og vöðvavefir hafa þá kosti umfram flest önnur líffæri að geta endurnýjast og lagast eftir skemmdir. Þess vegna er ekkert hættulegt að fá smávegis harðsperrur. Hins vegar er hægt að fara offari í svona átökum og því ástæða til að fara ekki af stað með of miklum látum þegar við byrjum að rækta okkur eftir fríið!

Draga teygjur úr harðsperrum?

Yfirleitt líður okkur betur eftir að hafa slakað og teygt á vöðvunum eftir átök. Hins vegar hefur ekki verið staðfest að teygjur dragi úr harðsperrum. Teygjur örva efnaskipti vöðvanna og blóðflæðið um þá og ekki ólíklegt að þær flýti þannig fyrir viðgerðaferlinu. Reynslan hefur líka sýnt að regluleg þjálfun dragi úr skemmdum sem vöðvarnir verða fyrir í áreynslu og þar af leiðandi harðsperrum, þó að ekki sé vitað hvernig það gerist. Sennilegt er að þjálfunin styrki vöðvafrumurnar og bandvefinn í vöðvunum og verji þá þannig fyrir skemmdum.

Mikilvægt er því að fara skynsamlega af stað í ræktinni eftir hlé og byggja vöðvana hægt og rólega upp þannig að þeir nái að sinna sínu hlutverki. Sterkur líkami er ekki aðeins betur til þess fallinn að sinna daglegum störfum – hann á líka mun auðveldara með að brenna því sem í hann er látið!

 

 

 

Ritstjórn september 27, 2018 09:13