Höndlað með sektarkennd og sýndarmennsku

 

 

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir skrifar:

Það er háannatími á föstudegi og klukkan að nálgast sex. Margir eru á heimleið eftir vinnu með viðkomu í ríkinu til að verða sér út um brjóstbirtu fyrir helgina. Fólki liggur á, það sér væntanlegar gæðastundir í hillingum, reynir að skipuleggja einfalda og girnilega kvöldmáltíð, iðar í skinninu eftir að geta sest niður og slakað á eftir amstur vikunnar.

Ég er á leið í ríkið. Við innganginn er maður í hjólastól að selja happdrættismiða. Sektarkenndin blossar upp og ég skammast mín fyrir að ætla að kaupa áfengi í staðinn fyrir að styrkja öryrkja í baráttu þeirra fyrir mannsæmandi lífi. Mér finnst óþægilegt að hafa sölumanninn þarna og langar mest til að skáskjóta mér óséð fram hjá honum. Svo átta ég mig á að þessi flóttaþörf er langt frá því að vera rökrétt. Ég fer í flýti yfir þau góðgerðarmál sem ég styrki og átta mig á að þau er alls ekki fá. Mér ætti því að vera óhætt að verja einhverju af laununum mínum til eigin þarfa og megi því skammlaust standa við fyrirhuguð áfengiskaup.

 

Tvískinnungur í mannlegum samskiptum

Um leið verð ég hugsi yfir söluaðferðum af þessu tagi. Ríkiseinokunarverslunin skapar kjörinn vettvang fyrir slíkan gjörning þar sem hann miðast leynt og ljóst við að spila á sektarkennd fólks. Það er ósköp skiljanlegt að öryrkjar og aðrir sem búa við skammarlegan kost reyni sitt besta til að bjarga sér. Hins vegar kallar áfengisverslun ríkisins fram ákveðinn tvískinnung í mannlegum samskipta- og viðskiptaháttum sem vert er að huga að. Áfengi er lögleg vara fyrir 20 ára og eldri hérlendis, en einhverra hluta vegna telst ekki við hæfi að hægt sé að kaupa hana nema í ríkisverslun. Þegar reynt er að rökræða þetta fyrirkomulag fer umræðan undantekningalaust út og suður og fyrr en varir er fólk farið að tala um áfengisbölið, unglingadrykkju, dagdrykkju, heimilisofbeldi og annan ófögnuð sem óvarleg áfengisneysla getur haft í för með sér. Flestir kunna vondar sögur af fólki sem hefur farið halloka fyrir Bakkusi.

Frelsishugtakið þvælist fyrir

Mergurinn málsins er samt sá að okkur finnst í lagi að neyta áfengis, en bara ef það er keypt í einokunarverslun ríkisins. Jú, það er líka í lagi að kaupa það í fríhöfninni, eða útlöndum. Einhvern veginn virðist þorri landsmanna telja sér trú um að ríkisverslun haldi óvarlegri áfengisneyslu betur í skefjum en frjálsari viðskiptahættir eru færir um. Kannski er frelsishugtakið eitthvað að þvælast fyrir fólki þegar málefni greiðari markaðsviðskipta ber á góma. Frjáls og hömlulítil viðskipti hljóta að leiða af sér annars konar lausung og þess vegna heppilegast að hafa strangt taumhald í hvívetna; verslunarháttum, aðgengi og opnunartímum. Þetta er allt sama tóbakið (og áfengið) og best að láta ríkið um það svo að ekkert fari úr böndunum.

Tekist á við tilfinningarnar

Þarna fyrir utan og innan ríkisvínbúðina tekst fólk á við tilfinningar sínarRíkissölufyrirkomulagið eflir sektarkenndina því að forsendurnar gefa til kynna að verið sé að höndla með hættulegt efni sem fólk ætti að fyrirverða sig fyrir að nota og réttast væri að banna. Samt er það ekki gert og ríkið græðir vel og ætti því að hafa meira fé til að styrkja mannúðarmál sem það gerir ekki. Meðan fólk tvístígur við einokunarbúðina og veltir fyrir sér hvort það eigi ekki bara að skammast sín og kaupa frekar almanök, penna, happdrættismiða, eða eitthvað annað þarfara en vín, skapast einmitt kjörinn vettvangur fyrir slíka vöru og viðskipti sem þrífast beinlínis á sektarkennd. Þar sem ég er þarna á leið inn í ríkið þennan tiltekna föstudagseftirmiðdag ákveð ég að engin ástæða sé til að taka þátt í þessum leik og tel það alls ekki til marks um kaldlyndi og illsku að vilja styrkja góð málefni annars staðar en á háannatíma fyrir framan ríkið. Ég brosi því til miðasölumannsins, afþakka pent og flýti mér að tína til það sem ég kom til að kaupa. Meðan ég geng um ríkisverslunina sé ég útundan mér hvar sölumaðurinn gerir sig líklegan til að taka við greiðslu frá viðskiptavini sem hefur aftur á móti talið þetta sjálfkjörinn tíma til að sinna velgjörðarmálum. Viðkomandi er karlmaður um sextugt, vel klæddur, valdsmannslegur í fasi og brosmildur.

Tek tvo miða

„Best að ég taki tvo, fyrst ég er byrjaður á þessu,“ segir hann glettnislega og horfir í kringum sig til að kanna hvort viðstaddir hafi ekki orðið vitni að þessari vel til fundnu góðmennsku hans. „Hvernig gengur annars? Er fólk ekki duglegt að kaupa miða hjá þér?“ Spurningarnar hljóma hátt og skýrt, bæði utan dyra ríkisverslunarinnar og innan þeirra. „Fyrst maður hefur efni á að kaupa sér brennivín þá ætti ekki að muna um að styrkja góð málefni,“ bætir hann við og horfir hvasst á miðaldra hjón sem ganga í sama bili inn í áfengis- og tóbaksverslunina án þess að virða hann viðlits. Fyrirmyndarmaðurinn gengur valdsmannslega inn í búðina að miðakaupunum loknum og stillir sér fyrir framan rekkann með spænsku rauðvínunum. Hann setur upp gleraugun og skimar eftir hillunni þar sem dýrari vínin eru. „Eruð þið ekki með Amarone?“ spyr hann hátt og snjallt, þótt enginn sé sjáanlega að afgreiða nema á kassa í ríkisversluninni.

Hálf skammast sín

Sumir viðstaddra gjóa augunum til þessa fagurkera, en þó eru flestir frekar niðurlútir við innkaupin, líkt og þeir hálfskammist sín fyrir vínhneigðina og vilji helst ekki þekkjast. Sama máli gegnir þegar þeir halda á brott með pokana sína og ganga framlágir á snið við miðasölumanninn. Þegar ég geng út sé ég fullorðna konu fyrir utan búðina vera að telja smápeninga upp úr buddunni sinni en á greinilega ekki nóg fyrir happdrættismiðanum. Hún virðist alveg eyðilögð og byrjar að útskýra ástæðuna fyrir að hún geti ekki keypt af manninum miða. „Ég er öryrki sjálf og hef ekki úr miklu að spila. Það er rétt svo að mér takist að öngla saman fyrir smágjöfum handa barnabörnunum þegar þau eiga afmæli. Ég þarf ekki svo mikið sjálf. Það dugar mér alveg að fá mér hræring og slátursneið í hádegismat og svo hef ég ekki það mikla lyst á kvöldin. Mér finnst alveg nóg að fá mér eina kleinu og heitt mjólkurbland í kvöldmat. Ég væri svo sannarlega til í að styrkja ykkur.Ég sé að karlmaður af útlendu bergi brotinn er að koma sér fyrir á kolli með harmonikku og setur bauk með smápeningum á stéttina fyrir framan sig. Innan skamms heyrast ljúfir tónar og munnvik viðstaddra færast upp um leið og heildaryfirbragðið verður flóttalegt. Fullorðna konan horfir á harmonikkuleikarann sorgmæddum augum og lætur smápeningana sína varlega í baukinn hans. Hún brosir til hans og gengur burt og hann brosir á móti.

Ritstjórn september 15, 2017 11:13