Hef ekki efni á tannlæknaþjónustu á Íslandi

Grein Lifðu núna um tannlækningar í Búdapest hefur vakið sterk viðbrögð lesenda. Nokkrir hafa tjáð sig um málið á Fésbók og við grípum niður í nokkur ummæli þaðan. Daði Kristjánsson skrifar: „Fór til Búdapest og þvílík borg. Fékk þrjá implants, eina rótarfyllingu, ein tönn tekin með skurðaðgerð, tannsteinn hreinsaður, flug og hótel í eina viku. Heildarkostnaður með öllu 60 prósent af því sem þetta myndi kosta á Íslandi. Fer aftur í haust og fæ þrjár dýrustu krónurnar á implöntin. Heildarkostnaður með flugi og hóteli í eina viku 300 þúsund. Ódýrasta tilboðið sem ég hef fengið hérna bara fyrir krónurnar var 600 þúsund.  Ragnheiður Stefánsdóttir skrifar og segist hafa farið til Búdapest í vetur. Hún hafi fengið frábæra þjónustu hjá Kreativ Dental og fari aftur í haust til að klára dæmið. Ragheiður tekur svo dæmi af tveimur vinnufélögum sínum sem fóru til tannlæknis til að láta draga úr sér tennur. Annar varð að fara á tannlæknavaktina um helgi og sú ferð kostaði 40 þúsund krónur það er að draga úr eina tönn. Hinn fékk tíma hjá tannlækni með skömmum fyrirvara og sá borgaði 35 þúsund fyrir tanndráttinn. Hjá Kreativ Dental kostar 50 evrur að draga úr tönn um það bil 5.700 krónur miðað við núverandi gengi. „Kannski er engin furða þó Íslenskir tannlæknar fari í vörn og reyni að telja fólki trú um að þarna séu eintómir fúskarar með úrelt efni og tæki. En er það ekkert skrýtið við það ef hvergi í veröldinni finnast frambærilegir tannlæknar annnarsstaðar en á Íslandi. Með þessu er ég ekki að reyna að halda því fram að íslenskir tannlæknar séu ekki starfi sínu vaxnir en ég hef bara því miður ekki efni á að notfæra mér þeirra ágætu þjónustu,“ segir Ragnheiður. Guðrún S. Frederiksen er hins vegar ánægð með sinn tannlækni hér á Íslandi. Það kosti álíka mikið að fara til hans og tannlæknis sem hún var hjá í Svíþjóð.

 

 

 

Ritstjórn maí 30, 2017 11:18