Hef tárast, skolfið og undrast

„Rauði þráðurinn í lífssögum fólks er virkni, áhugi og gjörðir. Það eru þessir þættir sem virðast ráða úrslitum um lífsgæði á efri árum“, segðir dr. Kristín Aðalsteinsdóttir, sem vinnur ásamt Jóni Hjaltasyni sagnfræðingi, að því að safna sögum fólks á aldrinum sjötíu til hundrað ára. Sögurnar verða alls um þrjátíu. Þeim er ætlað að verða mikilvægt innlegg í samfélagsumræðuna um málefni eldra fólks.

Kristín og Jón fengu konur og karla alls staðar að af landinu til þess að taka þátt í þessu. Ýmist skrifar fólkið sjálft sínar sögur eða þau taka viðtöl við það. Kynjahlutfallið í viðmælendahópnum er jafnt. Markmiðið með bókinni er að festa á blað heimildir um æsku fólks, um það að eldast og afstöðu þess til dauðans og ekki síst að draga fram fjölbreytileikann í lífi fólks á efri árum.

„Þetta er búið að vera ótrúlega áhugavert. Ég hef tárast, skolfið og undrast þegar ég hef heyrt sumar lífsreynslusögurnar. Almennt finnst mér fólk sátt við lífið eftir að það hættir í fastri vinnu. En lykillinn að því að vera sáttur er virkni og hafa eitthvað að gera og hlakka til í hverri viku. Við vorum ekki að sækjast eftir þjóðkunnum einstaklingum inn í þetta verkefni heldur fólki með ólíkan bakgrunn og lífsreynslu. Elsti viðmælandi minn var 103 ára. Þegar hann tók á móti mér varð mér að orði að hann gæti ekki verið 100 ára. Það er heldur ekki rétt, því hann væri 103 ára, var svarið. Þessi maður hafði selt húsið sitt á efri árum og flutt á dvalarheimili með konu sinni. Þegar hún lést, keypti hann aftur gamla húsið sitt og flutti heim á ný. Þar býr hann nú einn með syni sínum og sýndi mér gólfæfingar á dýnu sem ég gæti ekki leikið eftir“,  segir Kristín.

Sjálf er Kristín hætt í föstu starfi sem prófessor við Háskólann á Akureyri og segist njóta þess að vinna við verkefni eins og þetta. Áður hefur hún skrifað ýmsar bækur, meðal annars sögu húsanna í Innbænum á Akureyri, þar sem hún býr sjálf. Hún segir verkefnið um líf eldra fólks hafi verið sérstaklega gefandi, eins og hún orðar það. Hún segir að saga hvers einstaklings verði um tíu síður. Átján af þrjátíu hafi valið að skrifa sjálf sögu sína. Sögurnar eru eins ólíkar og höfundarnir eru margir.

Innganginn að bókinni mun Ólafur Páll Jónsson heimspekingur skrifa þar sem hann fjallar um efnið út frá sjónarhóli heimspekinnar. Kristín hefur sjálf tekið myndir af öllum einstaklingunum sem koma fram í bókinni en þær eru teknar á heimili fólksins eða í þeirra umhverfi. Stefnt er að því að bókin komi út á vordögum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 6, 2020 07:42