Heiðar Jónsson snyrtir

Um Heiðar Jónsson má segja ýmislegt en öllum sem þekkja hann ber saman um að þar sem Heiðar fer, sé skemmtilegt. Sumir segja að hann sé einn fyrsti „uppistandarinn“ sem við eigum en Heiðar er einna helst þekktur fyrir aðkomu sína að tísku- og fegurðarheiminum. Hann var lengi vel mjög atkvæðamikill í tengslum við fegurðarsamkeppnir, hélt fyrirlestra, kenndi á námskeiðum flugliða o.s.frv. En fyrir um 20 árum hvarf Heiðar út sviðsljósinu og lítið hefur borið á honum á Íslandi í seinni tíð.

Heiðar segir að hann hafi á þessum tíma gerst au-pair hjá tengdasyni sínum í tvö sumur, en hann og dóttir Heiðars bjuggu þá í Oklahoma í Bandaríkjunum. Eiginmaðurinn átti börn af fyrra hjónabandi en barnsmóðir hans gerði kröfur um að á heimilinu væri fullorðin manneskja líka, allan daginn. „Ég dreif mig þá bara til þeirra sem au-pair í tvö sumur,“ segir Heiðar hlæjandi og tekur fram að þetta hafi verð geysilega skemmtilegur tími. Hann kom ekki heim að því loknu, en starfaði víða um heim m.a. sem flugþjónn og bjó í a.m.k 35 borgum, en sem ungur maður starfaði Heiðar sem fyrirsæta og förðunarmeistari.

Fararstjórn skemmtileg vinna

Nú er Heiðar kominn til Íslands og hefur snúið sér að ferðamennsku en hann útskrifaðist í vor úr Leiðsögumannaskóla Íslands. „Ég bjóst við að vera að fara með útlendinga um landið okkar en reyndin varð önnur því ég er frekar að fara með Íslendinga til útlanda,“ segir þessi hláturmildi maður sem nýtur lífsins fullkomlega á miðjum aldri. Hann er að fara í allskonar sérferðir fyrir ferðaskrifstofur, undir hatti Ferðaskrifstofu Íslands, en auk þess kynnir Heiðar snyrtivörur og heldur fyrirlestra víða um ýmislegt sem hann er beðinn um. Hann er líka meðlimur Svalanna sem er öflugt góðgerðarfélag flugfreyja og flugþjóna.

Sem dæmi um tengsl Heiðars við snyrtivöruheiminn bjó hann til sín eigin ilmvötn fyrir nokkrum árum en þau fást í Sigurboganum við Laugaveg. Heiðar fer leikandi létt inn í síðari hluta ævinnar með bjartsýni og kátínu að leiðarljósi og er að fást við skemmtilega hluti alla daga.

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 6, 2017 10:31