Tengdar greinar

Héldu saman uppá sjötugsafmælin

Þóra Björg Guðmundsdóttir er mikil afmæliskona og heldur alltaf upp á afmælin sín, stór og smá. „Þegar við vorum fimmtug hjónin, buðum við í 100 ára afmæli. Það var mjög skemmtilegt, matur og heimatilbúin skemmtiatriði í sal út í bæ. Við buðum ættingjum og vinum, tæplega hundrað manns. Svo fékk ég Aage Lorange píanóleikara til að spila dinnermúsík. Þetta var mjög gaman. Það er svo langt síðan 29 ár. Þegar ég var sextug hafði ég hins vegar  dömuboð heima hjá mér. Við vorum margar, en ég hélt þetta heima og gerði allt sjálf með vinkonum mínum“, segir hún.

Guðbjörg Þorsteinsdóttir er með þeim stöllum í leikfiminni hjá Báru og hélt uppá afmælið með þeim

Buðu leikfimi vinkonum í Kríunes

„Þegar við urðum sjötug, fórum við fjölskyldan í Grímsborgir og gistum þar í tvær nætur. Fórum á Draugasafnið á Stokkseyri og Veiðisafnið þar. Það var stórkostlegt. Við borðuðum annað kvöldið hjá Ólafi Laufdal, en hitt kvöldið í Þrastarskógi“, segir Þóra Björg og heldur áfram. „ Við erum svo fjórar saman í leikfimi hjá Báru, allar fæddar 1940, og ákváðum að halda uppá sjötugsafmælin okkar saman.  Þá buðum við leikfimi-vinkonum okkar, mökum þeirra og okkar, í Kríunes og fengum Ragga Bjarna til að skemmta. Við buðum uppá vín og skemmtiatriði, höfðum fengið gott tilboð í matinn og það borgaði hver fyrir sig. Svo voru mjög skemmtilegar ræður. Þetta var virkilega vel heppnað“.

Heldur alltaf uppá afmælið sitt

Hún segist vera mikil afmæliskona og alltaf halda uppá afmælið sitt með kaffi á afmælisdaginn, sem er milli jóla og nýárs. „Ég á þá yfirleitt bæði smákökur og aðrar kökur til. Ég á margar vinkonur og ættingja sem halda ekkert uppá afmæli, en ég hef gert það síðan ég var barn. Þá vorum við alltaf með leiksýningar í afmælunum og lékum sjálfar. Ég hef alltaf haft gaman af því að vera með fólki og halda veislur. Nú hef ég bara gaman af veislum sem eru ekki of langar, milli 5 og 7 er alveg mátulegt og sá tími er liðinn að maður fari eitthvað út á eftir“, segir hún.

Hrekkur í kút við að hugsa um áttræðisafmælið

Það eru fleiri stórafmæli handan við hornið hjá Þóru Björgu. „Nú styttist í að ég verði áttræð, ég hrekk alveg í kút þegar ég hugsa um það og finnst ég ekki vera nema sextíu og eitthvað. Ég bara trúi þessu ekki. Við fáum kast ég og æskuvinkona mín þegar við tölum saman um þetta. Við höfum verið vinkonur síðan við vorum þrettán ára. Tíminn æðir áfram og hraðar með aldrinum. Það er svona þegar maður hefur nóg fyrir stafni. Vinkonur mínar eru farnar að bjóða í áttræðisafmælin sín, en mér finnst þetta orðið gott hjá mér með stórafmælin. Ég held að sjálfsögðu áfram að bjóða uppá kaffi á afmælinu mínu eins og ég hef gert. Ég hef alltaf verið hér heima á stórafmælum, en er ekki búin að ákveða hvað ég geri núna, kannski förum við til útlanda“, segir hún.

Ritstjórn febrúar 22, 2019 12:35