Helga Möller, söngkona og fyrrverandi flugfreyja

,,Lífið hefur snúist um flug og söng” segir Helga Möller glaðlega þegar hún er spurð hvað hún aðhafist helst þessa dagana. ,,Nú hef ég snúið mér að öðru og komst að því að það er sannarlega líf eftir flug,” bætir hún við. Við þekkjum þessa konu helst þar sem við höfum séð hana syngjandi á sviði eða þar sem hún hefur aðstoðað okkur um borð í flugvélum Icelandair. Hún var 19 ára þegar hún fór fyrst á flugfreyjunámskeið hjá Icelandair og 43 árum síðar ákvað hún að hætta að fljúga en það var í nóvember síðastliðnum.

Helga bíður spennt eftir því sem lífið býður henni upp á næst því tilviljun réði því að hún er nú að fara sem fararstjóri í golfferð til Ítalíu. Þar verður dvalið á hóteli sem er í munkaklaustri frá 1200. Íslensk hjón reka þetta hótel sem heitir Abbazia Zan Faustino í Umbria og þar verður leikið golf á nálægum velli. Á hótelinu verður síðan boðið upp á matreiðslunámskeið í ítalskri matargerð, trufflusveppatínslu, en trufflusveppir vaxa villt í nágrenninu, og vínsmökkun. ,,Hversu spennandi getur ein ferð orðið fyrir golfara sem margir eru matgæðingar,” segir Helga og hlær. ,,Þetta orsakaðist þannig að ég var í ,,sminki” fyrir útsendingu í þáttinn Straumar og ung kona var að farða mig. Covid hafði orsakað það að hún var á Íslandi í vetur og fór í gamla starfið sitt tímabundið hjá sjónvarpinu en var á leiðinni aftur út til Ítalíu. Í spjallinu kom fram að þau hjónin væru með hótel í gömlum kastala og ætluðu að bæta golfi við sem möguleika á afþreyingu fyrir gesti sína. Ég sagði henni þá að ég væri búin að vera fararstjóri í mörgum golfferðum og úr þessu spjalli varð að við gerðum samning og ferðin er komin á dagskrá ef covid truflar ekki það plan í september,” segir Helga spennt en fólk getur séð upplýsingar um þessa ferð á heimasíðu hótelsins. ,,Og það er ekki allt því í október er ég að fara fyrir annað fyrirtæki, TA sport travel, til Barcelona í golf og tónleika með Elton John.” Hafi Helga haldið að lífið yrði litlausara þegar hún hætti að starfa sem flugfreyja lítur út fyrir að hið gangstæða sé að gerast.

Helga fór í nám við Háskólann á Bifröst sem nefnist Máttur kvenna og er að útskrifast úr því námi nú í maí. ,,Námið heitir ,,stofnun og rekstur fyrirtækja” því ég vil undirbúa mig vel og geta einmitt ráðist í að láta drauma rætast og stofna fyrirtæki ef ég vil,” segir Helga. ,,Það var töluvert átak fyrir mig að fara í þetta nám því ég hafði ekki verið í eiginlegu námi frá því ég útskrifaðist sem stúdent frá Versló í gamla daga,” segir Helga og brosir. ,,Þá fór kennslan þannig fram að kennarinn var fyrir framan bekkinn og mataði okkur á upplýsingum. Nú stóð ég frammi fyrir því að vera í tímum á Teams eða Zoom og vinna í hópavinnu og gúgla upplýsingar. Það var ótrúlega skemmtilegt að kynnast því hvernig var að setjast aftur á skólabekk. Það færði mér heim sanninn um að okkur er allt fært þótt við séum orðin miðaldra. Ótal tækifæri bíða okkar ef við leitum eftir þeim,” segir Helga sannfærandi og segist núna vera að leyfa lífinu að flæða með sér. ,,Ég fór í skólann af því ég vildi geta gert ,,allskonar” og það er einmitt það sem er að gerast,” segir Helga bjartsýn á framhaldið. Hún hefur verið að kenna söng hjá Maríu Björk og þykir það ótrúlega skemmtilegt. ,,Ég mun örugglega gera meira af því að kenna söng.”

 Helga fór í mjaðmaliðskipti fyrir tveimur árum en hún segir það vera ættgengan kvilla. ,,Ég er orðin mjög góð og geri flest allt sem mig langar til eftir aðgerðina en veit þó að erfiðar fjallgöngur eiga ekki við mig lengur. En þá geri ég bara eitthvað annað og nýt lífsins, eins og að spila golf,” segir Helga og brosir. Hún valdi að verja peningum sínu í að kaupa aðgerð á Klíníkinni frekar en bíða í eitt og hálft ár eftir að komast að í sjúkrakerfinu okkar. ,,Ég mat það svo að það borgaði sig því ég komst því fyrr út á vinnumarkaðinn aftur og sé ekki eftir því ,” segir þessi kraftmikla kona sem nýtir tækifærin sem bjóðast og lætur ekkert stoppa sig þótt miðjum aldri sé náð.

Sólveig Baldursdóttir skrifar.

Ritstjórn maí 5, 2021 07:27