Lyndon B. Johnson lagði feril hennar í rúst

Eartha May Keith sem seinna tók sér nafnið Kitt fæddist og ólst upp í sárri fátækt á bómullarplantekru í Suður-Karólínufylki í Bandaríkjunum. Hún hafði stórkostlega og ákaflega sérstæða rödd og sló í gegn sem skemmtikraftur aðeins sextán ára gömul. Vegna uppruna síns hafði hún ævinlega samúð með blökkumönnum í fátæktarhverfum bandarískra borga og tók upp hanskann fyrir þá á fundi með Lady Bird Johnson. Það móðgaði forsetfrúna og í tíu ár var Earthu ekki vært í Bandaríkjunum.

Þessi hugrakka og hreinskipta stúlka fæddist 17. janúar árið 1927.  Móðir hennar Anne Mae var afkomandi afrískra þræla og cherokee-indíána.  Sú saga komst á kreik að Eartha hefði komið undir þegar hvítur maður nauðgaði móður hennar.  Sú saga hefur ekki verið staðfest og enginn veit nákvæmlega hver hann var. Sumir segja að hann hafi verið sonur eiganda búgarðsins, aðrir að um lækni byggðarlagsins hafi verið að ræða en í minningargreinum um hana var sagt að hann hafi verið fátækur farandverkamaður. Hún ólst upp hjá móður sinni til átta ára aldurs en þá tók Anne Mae saman við svartan mann sem vildi ekki Earthu inn á heimilið því honum fannst hún of ljós á hörund.

Litlu stúlkunni var þá komið fyrir hjá annarri fjölskyldu þar til móðir hennar lést en þá var hún send til móðursystur sinnar Mamie Keith í New York. Þar fékk hún skólavist í Metropolitan Vocational High School og að prófi loknu fékk hún strax vinnu hjá Kathrine Dunham Company og skemmti með þeim fram til ársins 1948. Á því tímabil gaf hún út á plötu lögin, Let’s Do It, Champagne Taste og C’est si bon. Röddin vakti hvarvetna athygli og unga glæsilega konan sem söng ekki síður.

Mest heillandi kona í heimi

Orson Welles hreifst af henni og kallaði hana mest heillandi konu í heimi. Hann bauð henni hlutverk Helenar af Tróju í uppsetninu sinni á Dr. Faustus. Nokkrum árum síðar fékk hún hlutverk í revíunni New Faces of 1952. Nú virtist leiðin á toppinn greið og Eartha hélt áfram að hljóðrita plötur, leika á sviði og í kvikmyndum. Hún hafði frá fyrstu tíð mikla samúð með börnum og unglingum í fátækrahverfum stórborganna. Hún skildi að tækifærin voru fá og ofbeldi umhverfisins gat af sér reiði og illsku sem braust út í andfélagslegri hegðun. Líklega hefur hún getað tengt við líðan þeirra, enda alin upp við svipaðar aðstæður sjálf.  Þegar mannréttindabarátta svartra byrjaði varð hún strax fremst í flokki.

Þegar John F. Kennedy var myrtur árið 1963 tók varaforsetinn Lyndon B. Johnson við stjórnartaumunum. Ári síðar var hann endurkjörinn og jók mjög þátttöku og íhlutun Bandaríkjamanna í stríðinu í Víetnam. Árið 1968 hafði andstaða við stríðið aukist mikið um öll Bandaríkin. Mannfall var gífurlegt og ungir menn komu heim skaddaðir bæði andlega og líkamlega. Að auki bárust fréttamyndir í gegnum sjónvarpið inn á hvert heimili þar sem andstyggð stríðsins varð lifandi og augljós í stofunni heima. Um þetta leyti voru einnig flestir farnir að gera sér ljóst algjört tilgangsleysi þessa stríðs og krafan um að Bandaríkin drægju sig út úr því orðin hávær.

Lady Bird Johnson boðaði hádegisverðar í Hvíta húsinu. Eingöngu konum var boðið. Tilgangurinn var að velta upp hugmyndum um hvernig þær gætu örvað metnað og hvatt unglinga til að gera betur í lífinu. Þarna voru samankominn hópur ríkra hvítra miðstéttakvenna sem fæstar höfðu nokkru sinni komið inn í hverfi svartra. Lady Bird var rík suðurríkjastúlka, alin upp við alls konar forréttindi og hafði aldrei þurft að dýfa hönd í kalt vatn. Þegar maður hennar tók við forsetaembættinu setti hún á oddinn baráttu fyrir að hreinsa og fegra höfuðborgina með því að planta blómum og útfærði það átak síðan að þjóðvegum landsins þar sem hún plantaði þúsunum villiblóma.

„Lady Bird Johnson varð svo mikið um að hún fór að gráta og það var meira en maður hennar þoldi. Hann fékk CIA í lið með sér og starfsferill Earthu Kitt var einfaldlega lagður í rúst.“

Dýrkeypt móðgun

Kvennafundurinn gekk eins og við mátti búast þar sem hver konan af annarri steig í pontu og lýsti því hvernig bandarískar konur gætu sýnt stuðning á ýmsum sviðum allt þar til Kitt stóð upp og sagði: „Börn í Bandaríkjunum gera uppsteyt af ástæðu. Þau gerast ekki hippar út af engu. Ástandið á Sunset Boulevard er ekki eins og það er af ástæðulausu. Þau eru í uppreisn gegn einhverju. Það eru margir svo margir hlutir sem brenna á fólkinu í þessu landi sérstaklega á mæðrum. Þeim finnst að þær eigi að ala upp syni – og ég veit hvernig það er, og þú átt sjálf börn Mrs. Johnson – við ölum upp börn og sendum þau síðan í stríð.“

En Eartha hafði ekki lokið sér af. Hún hélt áfram. „Þú sendir úrval ungmenna þessa lands utan til að láta skjóta þau og limlesta. Þau gera uppreisn á strætum úti. Þau munu reykja hass og komast í vímu. Þau munu ekki vilja ganga í skóla því þeirra bíður ekki annað en að vera rifin af mæðrum sínum og send til Víetnam.“ Hún lauk ávarpi sínum með því að segja: „Víetnam er helsta ástæða þess að við eigum í vandræðum með ungt fólk í Ameríku. Það er stríð sem er háð án tilgangs og skýringa.“

Lady Bird Johnson varð svo mikið um að hún fór að gráta og það var meira en maður hennar þoldi. Hann fékk CIA í lið með sér og starfsferill Earthu Kitt var einfaldlega lagður í rúst. Séð var til þess að enginn næturklúbbur fékkst til að ráða hana í vinnu, kvikmyndaborgin var henni lokuð og enginn leikhúsmaður þorði að ráða hana. Að auki var dreift alls konar ljótum sögum um hana. Meðal annars að hún væri sadisti og kynóð. Eartha var spurð í viðtali nokkru síðar hvort hún sæi eftir orðum sínum og hún svaraði: „Nei, ég iðrast einskis. Hvers vegna ætti ég að gera það? Ef henni fannst þetta svona óþægilegt er það hennar vandamál.“

Útlæg frá Ameríku

Þessi ósvífni hennar varð síst til að bæta skap hinna móðguðu ráðamanna en Eartha gafst ekki upp. Hún hélt til Evrópu og Asíu og næstu tíu árin tókst henni að hafa lifibrauð af tónleikhaldi og sjónvarpsvinnu. Hún fékk vinnu við sjónvarpsþáttinn The Good Old Days á áttunda áratugnum. Hann var framleiddur af BBC og eftir það bauðst henni að taka við hlutverki Dolores Gray í Stephen Sondheim Follies á West End í London.  Nokkru síðar setti hún upp einnar konu sýningu í Shaftesbury-leikhúsinu og í báðum tilfellum söng hún sinn stærsta smell I’m Still Here.

Eartha sneri aftur til New York þegar farið var í leikferð þangað með hinn geysivinsæla söngleik Timbuktu. Þetta var árið 1978 og tilnefning til Tony-verðlauna fylgdi í kjölfarið.  Árið 1984 átti hún óvænt „comeback“ með diskósmellinn Where is My Man. Hún sló óvænt í gegn meðal samkynhneigðra manna og þá vaknaði einnig baráttuandinn af dvala og hún hóf að berjast fyrir réttindum HIV-smitaðra og kom oft fram á góðgerðaskemmtunum þar sem verið var að safna fé til rannsókna á sjúkdómnum. Seint á níunda áratugnum kom hún svo fram á Broadway að nýju í Wizard of Oz í hlutverki vondu nornarinnar úr vestri og síðar í The Wild Party. Eftir aldamótin lék hún dísina góðu í Öskubusku. Vegna þess hve sérstæð rödd hennar var fékk hún einnig oft vinnu við talsetningar. Hún lék í myndinni And Then Came Love á móti Vanessu Williams og við tóku fleiri kvikmyndahlutverk.

Eartha Kitt var ekki neitt sérstaklega farsæl í einkalífi sínu. Hún átti í ástarsambandi við snyrtivöruframleiðandann Charles Revson en eftir skilnað þeirra tók hún saman John Barry Ryan III erfingja mikilla bankauðæfa. Það samband entist heldur ekki en árið 1960 giftist hún John William McDonald. Þau eignuðustu dótturina Kitt ári síðar en þau skildu árið 1965. Eftir það átti hún ekki í langtímasamböndum. Lengst af bjó hún á stórum búgarði í Connecticut en flutti sig um set árið 2002 til Fairfield í sama fylki til að komast nær dóttur sinni. Eartha lést úr ristilkrabbameini á jóladag árið 2008. Dóttir hennar Kitt var hjá henni þegar hún dó en þær mæðgur voru mjög nánar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 28, 2024 07:00