Tengdar greinar

Helstu ástæður fyrir deilum uppkominna systkina

Bræðurnir William og Harry eru ekki einu bræðurnir sem hafa lent í deilum. Systkinasambönd vara oftast lengi, stundum ævina á enda. Mikil væntumþykja og harðar deilur fylgjast oft að í slíkum samböndum og ef ágreiningur rís getur hann rist djúpt og verið afar særandi.

Rannsókn sem var birt  í Bandaríkjunum árið 2020 sýndi að ástæður systkinaerja á efri árum, geta verið tengdar þunglyndi, kvíða, fjandskap og einmanaleika. Hér á eftir er lýst  fimm helstu ástæðum ósættis milli uppkominna systkina.

 1.Systkinaröðin

Það virðist skipta máli hvar í röðinni systkini eru. Það er oft litið þannig á elsta barn sé ábyrgðarfullt og stundum reikna foreldrarnir einfaldlega með því að svo sé.  Því er ætlað að hlýða, vera til fyrirmyndar og gæta yngri systkinanna. Yngri systkinum finnst það elsta því stundum skyggja á sig og eru afslappaðri og félagslyndari. „ Og þetta vill fylgja þeim fram á fullorðinsár“, segir Conner markþjálfi sem starfar í Atlanta. „Þetta er hlutverkið og við drögum það ekki í efa, sérstaklega ekki þegar við eldumst, af því að þetta hefur verið svo lengi svona“.

2.Foreldrarnir eldast

Systkinaröðin skiptir enn meira máli, þegar foreldrar þeirra fara að þurfa meiri aðstoð. Það myndast þrýstingur á eldri systkinin , um að þau taki frumkvæði að umsjá foreldranna. Hérna skiptir kynið líka máli, því  nýjustu tölur í Bandaríkjunum sýna að 61% þeirra sem aðstoða aldraða foreldra sína við að panta tíma hjá lækni eða við önnur viðvik, eru konur.

3.Afbrýðissemi

Ef systkinin upplifa að þau hafi skort ást, stuðning, væntumþykju eða veraldleg gæði sem talin eru nauðsynleg  í uppeldinu, kann þeim að finnast þau þurfa að keppa við systkini sín um þessi gæði. Það á sérstaklega við ef foreldrarnir hafa ekki verið örlátir á ást, væntumþykju, hrós eða stuðning.  Þetta getur verið enn meira ábearndi hjá þeim sem ólust upp á krepputímum, en öðrum.

4.Ólíkar persónur

Systkini bera sömu genin, en eru yfirleitt ólíkar persónur og það getur valdið gjá milli þeirra. Þeir sem eru mikið út á við, hafa oft sterkar skoðanir, eru mannblendnir og hafa gaman af þáttöku í samfélaginu. Þeir geta virst stjórnsamir.  En þeir sem eru dulari, velta oft mikið fyrir sér ákveðnum skoðunum sem þeir láta kannski ekki uppi. Það kann að virka út á við sem áhugaleysi eða skeytingarleysi. Aðrar persónugerðir eru svo þarna mitt á milli.

Það eru dæmi um alsystur, þar sem önnur er klappstýra en hin bókaormur og bræður, þar sem annar er fótboltastjarna, en hinn vísindanörd. Þetta eru mjög ólíkir einstaklingar og það breytist ekki endilega með aldrinum. Samt sem áður geta mörg systkini virt skoðanir hvors annars og þannig samið ágætlega.

 5. Eignir og erfðaskrár

Gömul áföll ýfast oft upp þegar fólk upplifir sorg og missi. „Þetta getur aukið hættuna á valdabaráttu milli systkina“, segir markþjálfinn. Ef einu þeirra hefur til dæmis verið falið að sjá um að skipta dánarbúinu í samræmi við erfðaskrá foreldranna, kann annað að upplifa að það skipti engu máli og hafi ekkert um þetta að segja. Þá skiptir einnig máli hvernig foreldrarnir stóðu að því að skipta eignunum og öðrum verðmætlum milli barnanna. Ef þau eru ósátt við það, getur það valdið deilum þeirra á milli.

 

Leiðir til að koma í veg fyrir ósætti milli systkina

Það er betra að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann. Þessi gamli málsháttur er hér í fullu gildi, því það er skynsamlegt að ræða erfitt eða flókið systkinasamband við fjölskylduráðgjafa eða sálfræðing, þegar allt er nokkurn veginn í góðu gengi og áður en stóru vandamálin rísa.  Ekki  bíða þar til pabbi er kominn á spítala eða mamma þarf á daglegri umönnun að halda og skyndilega þarf að taka stórar ákvarðanir.

Það getur verið erfitt að eiga þetta samtal, en enn verra að bíða með það. Ef samtalið leiðir til enn frekari deilna eru til leiðir til að milda það.  Fólki er ráðlagt í slíkum samtölum að vera heiðarlegt, opið, hlusta vel á systkini sín og vera tilbúið að íhuga að breyta hegðun sinni.

1.Að líta í eigin barm

Systkini lenda oft í því að fara að kenna hvert öðru um það sem miður fer. Við erum mjög sjaldan til í að endurskoða þá hugmynd sem við gerum okkur um okkur sjálf.  Við höfum mótað skoðun okkar á eigin persónu í áratugi og erum farin að líta á hana sem staðreynd. Til að komast upp úr því fari, þarf að spyrja sjálfan sig spurninga, eins og: Er þetta rétt? Er þetta alltaf rétt?

Það er jafnvel enn betra að spyrja sjálfan sig að því hvernig manneskja maður vill vera og hvernig maður vill vera í samskiptum við aðra.  Það er líka nauðsynlegt að bera ábyrgð á eigin tilfinningum, alveg án tillits til þess hvað aðrir segja eða gera.

2.Að setja mörk

Að setja systkinum sínum heilbrigð og skýr mörk, snýst ekki um úrslitakosti. Það má fremur segja að það lýsi væntumþykju og áhuga á að bæta sambandið.  Fólk er að mati markþjálfans oft hrætt við að setja mörk af því  það óttast að slíkt geti valdið deilum og jafnvel skaða. En ef við gerum það ekki, endar með því að við verðum reið, vegna þess að systkinin virða ekki ákveðin mörk, sem þau hafa ekki humynd um að séu þarna.

Ef þú vilt ekki að systkini þitt tali illa um fjölskylduna, er það dæmi um mörk ef þú leggur símann alltaf á þegar slíkt gerist, eða gengur í burtu. Þá er alveg ljóst hvað klukkan slær. Þú hefur gefið skýrt til kynna hvað gengur og gengur ekki þegar þú ert annars vegar.

3.Að vera opin/opinn

Samkeppni milli systkina er valkvæð. Það er hægt að vera í heilbrigðu systkinasambandi, eða í sambandi sem er ekki sérlega náið. Fólk stjórnar því. En þar sem fjölskylduerjur geta orðið skrautlegar, getur verið kostur að ræða sambandið, við fagaðila. Það getur jafnvel þýtt ný tækifæri til að græða gömul særindi.

 Þessi grein birtist á vefnum AARP og er hér þýdd og endursögð.

Ritstjórn febrúar 14, 2023 07:00