Hélt að hátíðahöldin væru hluti af afmælinu

Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri er 73 ára í dag, 17. júní. Þegar hann var barn rann þjóðhátíðardagurinn og afmælisdagurinn saman í eitt og hann hélt að allir veifuðu fána og blöðru í bænum hans vegna. „Á þessari gullöld í lífi mínu hélt ég að þjóðin liti svo á að það væri full ástæða til að grípa til hátíðahalda þegar ég ætti afmæli. Ég lifði þessa gullöld misskilningsins talsvert lengi. Það hefur líklega ekki verið fyrr en ég var sex eða sjö ára sem ég sá ljósið. Atvikið líður mér aldrei úr minni, ég man það í smáatriðum.“

Hrafn með yngsta syninum, Antoni Ariel, við skólalok nú í vor.

Hrafn segist hafa verið með föður sínum spariklæddur í miðbænum þennan örlagaríka dag. „Við marséruðum út á Austurvöll og fylgdumst með öllum herlegheitunum saman. Og sem við stöndum þar og horfum á Alþingishúsið, þá opnast dyrnar á efri hæðinni og mamma, Herdís Þorvaldsdóttir leikkona, stígur út á svalirnar klædd fjallkonubúningnum og fer með kvæði. Mér fannst þetta allt mjög við hæfi. Ég var mjög sáttur við þennan gjörning. Svo þegar mamma er búin að flytja kvæðið, forsetinn að flytja ávarp, mannfjöldinn að klappa, þá bankar pabbi á öxlina á mér og segir: „Sjáðu, Hrafn, hérna fyrir aftan þig.“ Og þegar ég sný mér við birtist frelsishetja Íslendinga fyrir fullum seglum fyrir framan mig.“ Pabbi segir: „Það er af því að þessi maður á afmæli í dag sem þetta heitir þjóðhátíðardagur.“ Það þyrmdi auðvitað yfir mig og ég var dálitla stund að taka þetta inn. Mér gæti hafa hvarflað í hug að einhvern tíma skyldi ég jafna metin. En síðan þetta gerðist hefur afmælið mitt eiginlega aldrei verið eins.“

Hrafn segist lengi hafa hugsað Jóni Sigurðssyni þegjandi þörfina en lært að taka hann í sátt með árunum. „Þetta sýnir manni auðvitað hvað heimur æskunnar er stórkostlegur, áður en maður er sviptur öllum blekkingum bernskunnar.“

En hvaða augum lítur Hrafn þjóðhátíðardaginn nú og hátíðahöldin? „Þjóðhátíðardagurinn er ekki alveg á réttum árstíma. Það er oft svo kalt og grátt 17. júní. Það er svo sjaldgæft að hann beri upp á fallegan, sólríkan dag. Það er auðvitað sjálfsagt að minnast Jóns Sigurðssonar með einhverjum hætti, en kannski ætti þjóðhátíðin sjálf að vera seinna um sumarið, t.d. á menningarnótt.“

Íslendingar kunna ekki að gleðjast

Hrafn segir að Íslendingar kunni ekki að gleðjast og það birtist ekki síst þjóðhátíðardaginn. „Sem hátíðisdagur finnst mér 17. júní hafa horfið að miklu leyti. Það er kannski vegna þess að það vantar alla gleði. Við Íslendingar kunnum ekki alveg að gleðjast. Það er engin tónlist í okkar menningu raunverulega. Á Kúbu er þetta með allt öðrum hætti, það er svo mikill dans og gleði hjá þeim á hátíðisdögum, einhver alegría sem við höfum ekki, og þetta er það sem ber svona hátíðir uppi þar í landi, söngur, dans og gleði, og þó að þeir séu blankir og eigi ekki neitt, þá kunna þeir sannarlega að gera sér glaðan dag. Jafnvel þótt þeir hafi engin hljóðfæri til að leika á, þá breytir það engu. Við erum bara á kafi í jólakökum og randalíni, kunnum ekki að búa til stuð. Þetta virðist bara vera hluti af okkar menningu, dumbungurinn.“

Hrafn á sex börn, þar af fjögur fullorðin. Tveir synir hans eru á grunnskólaaldri, Aron Daníel og Anton Ariel, og þeir búa hjá honum. Fara þeir feðgar saman í skrúðgöngu á þjóðhátíðardaginn? „Nei, það er ekki stemning fyrir því. Þá langar ekki að fara niður í bæ, þeim finnst of kalt og þeir hafa engan áhuga á stirðum skrúðgöngum að hlusta á einhverjar fjallkonur í múnderingu príla upp á pall og lesa með prjáli upp ljóð eftir löngu dauðan kall, eins og segir í laginu. Það er einhver súrrealismi og anarkía í þeim texta sem ég kann svo vel að meta, en það er nú annað mál.“

Nokkrir valinkunnir andans menn slá skjaldborg um kvikmyndaleikstjórann. Myndin dreifðist hratt á samfélagsmiðlum í fyrrasumar. Mynd: Jóhann Helgi Hlöðversson.

Lærdómsríkt að eldast

Er leikstjórinn, sem nú er kominn á áttræðisaldur, ósáttur við að eldast? „Nei, það er bæði gott og lærdómsríkt að eldast. Þegar árin færast yfir áttar maður sig betur á því hvað maður hefur verið vitlaus meiri partinn af lífinu. Þá fer að renna upp fyrir manni hvers lags bölvað afturhaldsfífl maður hefur verið. Það er kannski helst það að maður verður svona frjálslyndari en áður, maður fær kannski stærri og magnaðri sýn á tilveruna með aldrinum. Sérstaklega þegar maður er svo heppinn eins og ég að vera með þessa tvo ungu syni með mér, en þeir hafa fært mér mikla gleði.“

Er það satt að listamaðurinn á Laugarnestanga trúi ekki á líf eftir dauðann? „Mér finnst alveg kappnóg að lifa þessu lífi sem ég lifi núna. Ég vil ekkert framhald á því. Ef það er til eilíft líf, þá lít ég á það sem refsingu af verstu gerð. Þegar lífinu lýkur vil ég bara að því ljúki fyrir fullt og allt, eins og góðri bók eða þulu, það er engin blaðsíða fyrir aftan þegar þú ert kominn á enda. Ég held að þetta með eilífa lífið sé ein af þessum vondu hugmyndum sem menn hafa fundið upp til að koma viti fyrir almættið, þeir gera þá kröfu til almættisins að það eigi að halda lífi okkar gangandi til eilífðarnóns. Hve margir milljarðar af fólki eru þá ekki handan við myrku landamærin, ef þar eru lifandi manneskjur aftan úr grárri forneskju? Hugmyndin hugnast mér ekki.“

Hið yfirnáttúrlega er tíminn

Hið yfirnáttúrlega virðist þó ekki vera Hrafni framandi að öllu leyti. „Það eina sem við getum kallað yfirnáttúrlegt er tíminn. Hann er alltaf að renna okkur úr greipum. Það er ekkert í þjóðsögum Jóns Árnasonar sem er yfirnáttúrlegt, það er bara tíminn. Tíminn líður og mylur allt og breytir öllu og það er ekkert sem stendur kyrrt. Enginn hlutur er eins í dag eins og hann var í gær og það er þetta yfirnáttúrlega. Allir eru háðir tímanum, engu skiptir hvaða menntun þeir hafa, hverrar stéttar þeir eru, hvort þeir eru síli í sjónum eða api í trjánum. Tíminn mylur þetta allt saman miskunnarlaust, og kannski jafngott. Menn eru alltaf að segja að við eigum að varðveita allt, halda í status quo, verjast forgengileikanum, en af hverju má heimurinn ekki bara breytast? Gerir nokkuð til þótt hitastig hækki eða lækki? Skiptir einhverju máli þótt menn þurfi að færa sig til á jörðinni? Þetta er það sem mér finnst vera yfirnáttúrlegt og það eina sem raunverulega veldur því að ég er stundum að velta fyrir mér tilvistarspurningum um eigið líf; það er hugtakið tíminn.“

Hvernig ver listamaðurinn afmælisdeginum? „Við erum á leiðinni út á land og ætlum að vera austur í Skaftafelli. Ég hef reynt í seinni tíð að fara í ferðalag með gaurana mína 17. júní.“

Ritstjórn júní 17, 2022 07:00