Tengdar greinar

Hinar bersyndugu

Viðhorf karlmanna til kvenlíkamans hefur öldum saman einkennst af ótta og viðleitni til að stjórna honum og bæla kynhvöt kvenna. Eitt andstyggilegasta dæmi um slíkt eru Magdalenuklaustrin á Írlandi. Þau eru svartur blettur á sögu landsins en nýlega voru sýndir í Bretlandi þættirnir, The Woman in the Wall en þeir hverfast um konu sem send var í slíkt í klaustur ófrísk af sínu fyrsta barni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem saga einnar þessara kvenna er fest á filmu. Kvikmyndin, Philomena með Dame Judi Dench og Steve Coogan í aðalhlutverkum en myndin byggði á bók blaðamannsins, Martins Sixsmiths. Hann skrifar þar um Philomenu sem fimmtán ára verður ófrísk eftir stutt kynlífsævintýri í skemmtigarði á Írlandi. Faðir hennar fleygir henni út og hún leitar á náðir klausturs í heimabyggð sinni. Þar fær hún inni gegn því að afsala sér öllum rétti til barnsins síns eftir fæðingu þess og að hún vinni næstu sjö árin fyrir þeim kostnaði sem hlýst af henni og barninu. Philomena skrifar undir, enda fárra kosta völ. Drengurinn hennar er síðar seldur ríkum hjónum í Bandaríkjunum til ættleiðingar og fjallar myndin ekki síst um leit hennar að barninu sem hún missti og hvernig hún finnur hann of seint.

Lorna Brady í The Woman in the Wall er leikin af Ruth Wilson. Hún þjáist af svefntruflunum og þegar hún finnur látna konu á heimili sínu og man ekkert eftir að hafa hitt hana fyllist hún örvæntingu og felur líkið inni í vegg í húsinu. Næstu þættir rekja síðan leit Lornu að svörum og um leið að barni sínu. Þetta eru frábærlega unnir sjónvarpsþættir, bland af spennu og sögulegum staðreyndum. Þarna kemur vel fram samviskuleysi nunnanna er ráku klaustrin, miskunnar- og afskiptaleysi samfélagsins í kring gagnvart stúlkunum og örvænting þeirra sjálfra í þessum vonlausu aðstæðum.

Ætlað að reisa við fallnar konur

En hvað voru Magdalenuklaustur? Það voru stofnanir sem reknar voru á Englandi, Írlandi, Frakklandi og í Ástralíu og Norður Ameríku. Á Írlandi hófst starfsemi þeirra seint á átjándu öld og stóð fram til ársins 1996 en þá höfðu þau verið aflögð alls staðar annars staðar. Þeim var ætlað að taka við föllnum konum og lauslátum stúlkum að kenna þeim betra siðferði. Hælin voru nefnd eftir Maríu Magdalenu. Flest klaustrin höfðu á sínum snærum einhvers konar atvinnustarfsemi, þvottahús, vefstofur, saumastofur eða annað sem þótti við hæfi að láta konur starfa við. Hugmyndafræðin var sú að með bænagjörð og erfiðri vinnu væri hægt að leiða fallnar konur aftur á rétta braut.

Fyrsta Magdalenuhælinu var komið á fót á Englandi árið 1758. Svo vel tókst til þar að ástæða þótti til að flytja hugmyndina út og frá Angiers í Frakklandi barst hugmyndin til  Írlands. Þar var fyrsta Magdalenuþvottahúsið stofnað í Dublin árið 1765 af lafði Arabellu Denny. Þeim fjölgaði hratt og talið er að áður en yfir lauk hafi yfir 30.000 írskar konur dvalið tímabundið á einhverri þeirra mörgu stofnana sem kenndar voru við Magdalenu á Írlandi og þar af um 11.000 á tuttugustu og fyrstu öld. Í Bandaríkjunum voru menn heldur seinni að taka við sér og fyrsta stofnunin þar var The Magdalene Society í Fíladelfíu árið 1800. Fleiri góðgerðarsamtök tóku hugmyndafræðina upp á sína arma og til urðu m.a. the Good Shepard Sisters og Sisters of Charity sem teygðu anga sína stranda á milli Bandaríkjunum.  Í Ástralíu hófst starfsemin um svipað leyti en lauk þar mun fyrr.

Írsku hælin eða þvottahúsin eru þó talin hafa nokkra sérstöðu gagnvart systurstofnunum sínum. Í fyrstu er talið að hælin hafi í raun þjónað þeim tilgangi sem þeim var ætlaður eða hjálpa vændiskonum að komast aftur inn í samfélagið og vinna sér inn laun sem nægðu til að lifa af. En ólíkt því sem gerðist í hinum löndunum þar sem eingöngu var um góðgerðarstarfsemi að ræða studdi írska ríkið starfsemina en kaþólska kirkjan sá alfarið um reksturinn.

Líkari fangelsum en dvalarheimilum

Þegar líða tók á tuttugustu öldin breyttust hælin smátt og smátt í langtímadvalarheimili rekin af ósveigjanleika, hörðum refsingum og vinnuhörku. Í stað vændiskvenna tóku Magdalenu-hælin þá nær eingöngu við unglingsstúlkum sem annað hvort var komið þangað af fjölskyldum sínum eða áttu ekki í önnur hús að venda. Sumar voru ófrískar þegar þær komu, aðrar höfðu átt í ástarsamböndum en þónokkuð var um að stúlkur væru sendar á hælin fyrir að hafa daðrað við stráka eða einfaldega fyrir að vera of fallegar og því freisting fyrir karlmenn í nágrenni við heimili þeirra. Ótal dæmi eru um að stúlkum sem hafði verið nauðgað væri komið inn á hælin, enda var talið að þær gætu sjálfum sér um kennt.

Þegar kom fram á tuttugustu og fyrsu öld voru Magdalenu-stofnanirnar líkari fangelsum en dvalarheimilum. Margar stúlknanna fæddu börn meðan á dvöl þeirra stóð og ungbarnadauði þar var hærri en á sjúkrahúsum á Írlandi. Þetta bendir til að ekki hafi verið kallaðir til læknar þótt full ástæða væri til og að nunnurnar hafi verið misfærar um að taka á móti börnum. Margar stúlknanna lifðu dvölina heldur ekki af eða veiktust alvarlega á geði. Erfiðisvinna, vosbúð og lélegt fæði braut niður mótstöðuafl þeirra og berklar, lungnabólga og fleiri sjúkdómar drógu þær til dauða. Nunnurnar höfðu ekki fyrir að skrá öll dauðsföllin eða láta opinbera aðila vita. Árið 1993 seldi klaustur sem tilheyrir reglunni Our Lady of Charity hluta af landareign sinni til byggingaverktaka. Við uppgröft á svæðinu fundist leifar 155 kvenna sem grafnar höfðu verið þar í ómerktum gröfum. Þetta hneyksli ásamt nokkrum öðrum tengdum starfsemi Magdalenuklaustranna varð til þess að þau voru lögð af þremur árum síðar og opinber rannsókn hafin á starfsemi þeirra.

Skýrslan sem kom út í kjölfarið um ofbeldið, vinnuþrælkunina og önnur mannréttindabrot nunnanna hefur almennt verið talin hið versta yfirklór og margar kvennanna sagt að þarf hafi verið reynt að gera eins lítið úr frásögnum þolendanna og hægt væri. Síðari tíma rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að þvottahúsin voru arðbær fyrirtæki, enda vinnuaflið ódýrt og það þykir sannað klaustrin hafi selt börn til ættleiðingar. Hér á landi fóru menn ekki varhluta af þessum viðhorfum og er ástandið, eins og það var kallað á stríðsárunum, gott dæmi um ofbeldi gegn ungum konum. Þær voru m.a. teknar nauðugar og vistaðar á Kleppjárnsreykjum fyrir það eitt að hafa sést í félagsskap hermanna. Árið 1965 var svo stofnað Stúlknaheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi og það var rekið af Hjálpræðishernum í tvö ár. Þangað voru fluttar barnungar stúlkur, allt niður í tólf ára, sumar fyrir það eitt að teljast baldnar. Sumar þeirra hafa stigið fram og greint frá andlegu ofbeldi og þvingunum sem þær voru beittar á Bjargi.

Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar

 

Ritstjórn október 3, 2023 07:00