Tengdar greinar

Hlustar meira á þungarokk en margt ungviðið

Þar sem aldurinn verður ekki umflúinn, er best að horfa frekar til kosta þess að eldast en galla. Mér finnst best að vera ekki lengur jafn uppnuminn yfir alls kyns smámunum og áður- horfi frekar á stóru myndina- hef gert upp við mig í hvað ég vil eyða tíma og kröftum, og það sem mikilvægast er, ég sé ekki eftir neinu!

Þetta sagði einn viðmælenda Lifðu núna, sem fékk 7 einstaklinga á ýmsum aldri til að velta fyrir sér kostum þess að eldast og raunar ýmsum fleiri spurningum sem tengjast því þegar afmælisdögunum fjölgar og við ætlum að skrifa um hér á síðunni á næstunni. Þetta fólk er allt á þeim aldri að það ýmist fer að fara á eftirlaun, eða er komið á eftirlaun.  Þau sem rætt var við eru við góða heilsu og í fullu fjöri og svörin endurspegla það.

Kostirnir við að eldast eru ýmsir og margþættir. Upp í hugann kemur fyrst aukið frelsi og aukinn tími til að ráðstafa að eigin vild. Ábyrgð á uppeldi barna og vinnu hvílir ekki lengur á manni þótt verkefnin sem fylgdu því hafi auðvitað verið bæði dýrmæt og ánægjuleg.  Já, mér finnst ég tvímælalaust frjálsari, get sofið út þegar ég vil, sótt fyrirlestra sem ég hef áhuga á hvenær sem er dagsins, lesið, farið á sýningar, í göngutúra, laugina, hitt vini og vinkonur og svo framvegis, nokkuð sem maður þurfti að smeygja inn með skóhorni áður fyrr”.

Enginn eldri en hann vill vera sjálfur

Það er ýmislegt fleira sem menn líta á sem kost, með hækkandi aldri. Einn viðmælandinn orðaði það einfaldlega svo að kosturinn við að eldast væri sá að vera enn á lífi. Enn annar sagði:

“Ég nýt þess betur og betur að búa að tiltölulega fjölbreyttri lífsreynslu og hafa þannig aflað þekkingar á hinu og þessu í atvinnulífinu og samfélaginu sem mér finnst gott að vita og pæla í án þess hvorki að þurfa að vita né pæla!  Það fer ekki fram hjá mér að ég verð 65 ára á síðari helmingi árs 2018 en í raun líður mér bara vel með það og velti ekki fyrir mér að ég sé kominn í seinni hálfleik í lífinu. Það verður enginn eldri en hann vill vera sjálfur”.

Finnst þetta aldursskeið gefa mér sjálfstraust

Margir lýsa því að aldrinum fylgi frelsi, en vissulega fer það eftir fjárhag og öðrum aðstæðum fólks. Heilsan er svo það sem mestu máli skiptir þegar árunum fjölgar. Um það eru allir sammála.

“Mér finnst þetta aldursskeið gefa mér sjálfstraust sem felst í því að vita að ég hef mætt alls konar óboðnum verkefnum í lífinu og komist í gegnum þau. Jafnvel þótt þau hafi verið miklar áskoranir og ekki alltaf árennileg. Þetta er á margan hátt uppskerutíminn í lífinu. Ég hef starfað sjálfstætt í seinni tíð og valið að draga smám saman úr vinnu síðustu árin. Því hef ég rýmri tíma og meiri slaka en áður var. Ég get notið tómstunda í meira mæli en áður. Ég þarf miklu sjaldnar að stökkva fram úr rúminu á morgnana og vera með fulla einbeitingu í vinnu í langan tíma í einu. Fleiri morgna en áður byrja ég á að fara í ræktina og slaka svo á yfir morgunmatnum og fyrsta kaffibolla dagsins. Svo geta önnur verkefni tekið við”.

Á konserti með Bubba erum við jafnaldrar

Enn eitt sem viðmælendur sögðu um hækkandi aldur, var að það væri kostur að vera hvorki í framapoti eða starfsleit lengur. “Ég vinn verkefni mín af sama metnaði og fyrr en umfram það þarf ég ekki lengur að vera að sanna mig á starfsvettvangi”, sagði eitt þeirra sem við ræddum við.  Annar viðmælandi okkar er þungarokksaðdáandi og við gefum honum orðið.

Ég hlusta meira á þungarokk en margt ungviðið sem ég þekki og fór á tónleika með bróðurdóttur minni í Hörpu að hlusta á Bubba Morthens að kvöldi síðasta vetrardags. Ég hef haldið upp á Bubba og fylgst með honum frá upphafi en hún er eðlilega nýrri aðdáandi en sanntrúuð sem slík. Ég er ekki frá því að frænku þyki ögn spennandi að frændi á efri árum hafi strax verið til í að fara með henni í Eldborg. Á milli okkar eru  46 ár en á Bubbakonserti erum við jafnaldrar”.

Hef orðið latari sem mér finnst kostur

Með aldrinum hef ég líka fundið fyrir meiri hugarró, á auðveldara með að njóta augnabliksins og núsins. Kannski vegna þess að djúpt niðri veit maður að það styttist í hinn endann og maður er ekki eilífur.  Að sitja við gluggann, horfa á fegurð himinsins, hafið, umferðina, lífið líða fram hjá er munaður sem hægt er að veita sér hvenær sem er sólarhringsins þegar maður eldist og hættir að vinna. Ég hef orðið latari sem mér finnst kostur … en  mér finnst ég líka vera vitrari og geta nýtt mér reynslu liðinna ára á jákvæðan hátt. Ýmislegt sem truflaði mig áður fyrr og mér fannst ég þurfa að keppa að, í námi, starfi, einkalífi og fleiru er að baki

Amma leigubílstjóri

Það voru frekar konur sem gerðu samvistir við barnabörnin að umtalsefni, en bæði afar og ömmur sjá samskiptin við þau í hillingum, þegar tíminn verður meiri. Það sé ótvíræður kostur þess að eldast.  Æltunin er að fjalla meira um barnabörnin í annarri grein, en ljúkum þessari með eftirfarandi tilvitnun.

Meiri tími er fyrir barnabörnin sem skiptir mig verulegu máli, ég get skutlað þeim hingað og þangað …  þá hlæjum við og köllum mig ömmu leigubílstjóra!  Það eru einnig forréttindi  að hafa tíma til að sinna ýmsum í kringum sig, ungum og öldruðum, sem á þurfa að halda. Sumir kalla þetta ólaunaða félagsþjónustu, en ég hef alltaf verið hlynnt því að fólk standi saman og líti til hvert með öðru, tel það vera undirstöðu trausts samfélags”.

Hópurinn sem fékk spurningar sendar frá Lifðu núna er þessi: Atli Rúnar Halldórsson, Elín Siggeirsdóttir, Eyþór Elíasson, Margrét Björnsdóttir, Sylvía Guðmundsdóttir, Þorbjörn Guðmundsson og Valgerður Magnúsdóttir.

Ritstjórn apríl 17, 2018 04:44