„Hlutirnir mínir eru mjög persónulegir“

Hönnunarmars stendur nú yfir, dagana 24.-28. apríl og fjölmargir hönnuðir sýna verk sín á ýmsum stöðum í borginni en meðal þeirra er Anna Þórunn Hauksdóttir. Verk hennar eru sýnis að Laugavegi 27. Hún framleiðir verk undir nafninu ANNA THORUNN og hefur skapað marga einstaklega fallega muni í ýmsum litum sem prýða mörg heimili en segist ekki síður hafa ánægju af að hanna stærri hluti eins og húsgögn enda sé það á stefnuskránni að gera meira af því.

Anna Þórunn telur að umhverfið fyrir hönnuði sé að breytast mjög til batnaðar hér á landi en að nauðsynlegt sé fyrir þá að hugsa út fyrir ramman því að mörgu ber að huga, sérstaklega þegar um sjálfstæðan hönnuð er að ræða. Hún útskrifaðist sem vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2007 en áður hafði hún útskrifast af list- og hönnunarnámsbraut frá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Hún segir það bæði hafa verið ótrúlega góðan tíma og góðan undirbúning fyrir Listaháskólann. Síðan þá hefur hún verið að hanna og skapað sér nafn enda er hönnun hennar einstaklega falleg og oft eins og skúlptúr.

Aðspurð segist Anna Þórunn hanna mest smærri hluti fyrir heimilið en að hana langi til að hanna húsgögn eins og fyrr segir. Framleiðsla á húsgögnum er mjög kostnaðarsöm og enn sem komið er þá segist hún ekki vera komin á þann stað.

„Til að vaxa sem hönnuður þá hef ég oft notað í gegnum árin HönnunarMars til að gera „eitt eintak“,“  segir hún og bendir á mismunandi og mjög flott húsgögn sem hún hefur hannað, m.a. innirólu, mjög smart stól sem kallar á mann að setjast í og töff lágt sófaborð.

Hillurnar á vinnustöfu Önnu Þórunnar eru fullar af fallegum munum sem hún hefur hannað – öllu komið fyrir á listrænan og smekklegan hátt. „Að vera með mína eigin vinnustofu gefur mér mikið, þar get ég verið fullkomlega ég sjálf án þess að þurfa að taka tilit til nokkurs annars. Ég hannaði inniróluna „Freedom“ fyrir HönnunarMars 2022 því mig langaði svo í rólu á vinnustofuna mína. Þegar ég róla þá finn ég fyrir barnslegu frelsi og það er eins og það sé slökkt á mér sem er ansi góð hvíld fyrir skapandi huga.“

Hvort höfðar þá meira til þín að hanna muni eða stærri húsgögn? „Ég finn að ég þarf á því að halda að hanna stærri hluti þó að ég fái kannski ekki meira út úr því en að hanna smærri hluti. Ég hef hannað kertastjaka, bakka, vasa, skálar, snaga, blaðagrind, innskotsborð, spegil og borð sem þú getur tekið með þér hvert sem er,“ segir Anna Þórunn og bendir á mjög smart lágreist borð – með stóru handfangi úr stáli sem má einnig setja út ef vill í stuttan tíma. Þetta er bakkaborðið Stillness sem kemur í svörtu og ljósgráum lit en hugmyndin að borðinu kemur frá hringjum sem ég var sífellt að krota á blað. Þetta tímabil var mér erfitt þannig að teiknaði hringi, náði einhvern veginn að róa mig og Stillness varð til.“  

Mikilvægt að tengja við hluti sem keyptir eru á heimili

„Mér finnst mikilvægt að fólk tengi við hlutina sem það kaupir inn á heimilin sín, ekki bara að kaupa þá því einhver annar er með þá. Allir hafa sinn eigin smekk sem lýsir þeim sem manneskjum þannig að heimilið er speglun af þeim sem þar búa.“

Hún segir að hlutirnir sem hún hanni séu mjög persónulegir.

„Hlutirnir mínir eru mjög persónulegir – mér fannst þetta mjög erfitt fyrst, fannst hönnunin mín berskjalda mig, þetta er svolítið eins og maður sé að koma nakinn fram, en svo venst það. Það er svolítil nostalgía í hlutunum mínum. Hönnun mín byggist á tilfinningu og allir hlutirnir mínir eru tilfinningatengdir. Ég reyndi einhvern tíma að prófa að vinna hlutina öðruvisi en ég gat það ekki – Þetta er bara ég,“ segir Anna Þórunn og brosir.

Hvaðan færðu þá innblástur? „Frá svo mörgu í raun, það getur verið minning, eitthvað úr hversdagslífinu, kannski eitthvað sem ég les um eða sé, stundum er það efnistilfinning eða litir. Allt byrjar í huga mér sem fær að gerjast í einhvern tíma áður en ég byrja að skissa á blað. Mér finnst nauðsynlegt að nota hendurnar þannig ég skissa mjög mikið í leir og bý til pappalíkön. Þannig fæ ég fljótt mynd af því sem ég er með í huga. Síðan teikna ég hlutinn upp og geri tækniteiknun sem ég sendi á framleiðendur mína sem eru víðsvegar um heiminn. Mikilvægast af öllu er að vera með góða framleiðendur þar sem góð samskipti og virðing er í fyrirrúmi.“

Hugarfarsbreyting í garð hönnunar

Þegar hún er spurð hvernig það sé að vera hönnuður á Íslandi segir hún að það hafi verið frekar erfitt umhverfi en hafi breyst mikið til batnaðar undanfarin ár.

„Fólk er farið að líta hönnun öðrum augum en áður sem er kannski ekkert skrítið þar sem þetta er mjög ung grein hér á Íslandi. Árlegur HönnunarMars veitir almenningi innsýn í störf hönnuða og hvað þeir eru að fást við. Ég er alltaf jafnspennt fyrir HönnunarMars en ég hef tekið þátt allt frá byrjun.

Persónulega finnst mér mjög mikilvægt sem hönnuður að taka mér tíma til að þróa mig og hanna hin ýmsu efni. Ég er t.d ekki mikið fyrir munstur en hef samt ýtt mér út fyrir þægindaramman og hannað textíl með stórum munstrum líkt og í Cowboy dream-ullarteppinu og Embrace-bómullarteppinu en úr því nota ég einnig hluta af munstri í Three Seasons-flauelspúðana mína.“

Hvað með liti, leitarðu í einhverja ákveðna liti meira en aðra? „Nei yfirleitt ekki, en maður þarf svolítið að fylgja tískustraumum þar, núna eru ljósir og brúnir tónar í tísku en maður verður líka að þora að taka áhættu og ég er ekkert hrædd við slíkt. Ég á líka mjög góðan mann sem styður mig  í öllu sem ég tek mér fyrir hendur, án hans væri ég ekki komin á þann stað sem ég er nú. Hann er mjög handlaginn og hefur oftar en einu sinni hjálpað mér við gerð á prótótýpum. Hann á heiðurinn af bólstruninni á rólunni Freedom og vefun á stólnum By2.“

Er eitthvað sem þig langar að gera sérstaklega? „Já, það eru húsgögn og ljós. Ég trúi því að með vinnu og eljusemi mun það takast fyrr en seinna.“

Hvernig finnst þér landslagið vera fyrir íslenska hönnuði? „Maður þarf að hafa fyrir hlutunum, en verslanir eru að verða mun opnari fyrir íslenskri hönnun en áður. Mikilvægt er þó að koma sér á framfæri úti í hinum stóra heimi ef mann langar að ná lengra. Íslenskir hönnuðir hafa þegar sýnt fram á að við erum algjörlega samkeppnishæf við aðrar þjóðir. Framtíðin er því mjög björt,“ segir Anna Þórunn.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn apríl 24, 2024 14:26