Tengdar greinar

Af jörðu ertu komin að jörðu skaltu aftur verða

Ari Jóns.

Það eru afar fáir sem láta dreifa ösku sinni á víðavangi. „Lög og reglur um öskudreifingu eru flóknar og fráhrindandi, öll þau ker sem seld eru í dag eru hönnuð með jarðsetningu í huga og fólk hefur upplifað eða heyrt um slæma upplifun af öskudreifingu,“ segir Ari Jóns vöruhönnuður en hann hefur hannað sérstakan göngustaf til að nota til að dreifa ösku á víðavangi. Stafurinn var lokaverkefni hans í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands í vor. Ari segir að þau hafi verið átta sem útskrifuðust úr vöruhönnun í vor. Þau hafi ákveðið að vinna með orðið „mennska.“ Hver og einn vann sitt verkefni út frá þeim skilningi sem hann lagði í orðið. „Ég ákvað að velja mér verkefni sem ég vissi ekkert um og hafði forðast alla tíð að afla mér nokkurrar vitneskju um. Dauðann. Hann er tabú í okkar samfélagi og við ræðum ekki dagsdaglega um greftranir og jarðarfarasiði,“ segir Ari og bætir við að því þurfi að breyta. Ari ræddi við fjölda manns til að afla sér upplýsinga um efnið. Hann heimsótti meðal annars Útfararstofu höfuðborgarsvæðisins og kynnti sér allt er lítur að útförum og brennslu líka. Það vakti sértaka athygli hans hversu fáir láta dreifa ösku sinni. „Á síðasta ári kaus yfir helmingur þeirra sem létust á höfuðborgarsvæðinu bálför, á landinu öllu voru þetta 789 manns. Á sama tíma bárust sýslumanni á Norðurlandi eystra ekki nema u.þ.b. 40 umsóknir til öskudreifingar og helmingur þeirra kom erlendis frá,“ segir Ari. Hann segir að skýringarnar á því hversu fáir láta dreifa ösku sinni geti legið í flókinni lagasetningu og reglum. Lögin eru orðin 20 ára gömul og barn síns tíma.

Stafurinn er einkar fallegur.

„Samkvæmt gildandi lögum er ekki hægt að fá afhenta ösku eftir bálför án þess að hafa sótt um leyfi hjá sýslumanni Norðurlands eystra. Til að fá leyfið þarf að tilgreina þann stað sem öskudreifingin á að fara fram og ef að sýslumaður telur hana fullnægjandi ásamt því að ósk hins látna liggi fyrir getur hann samþykkt umsóknina. Þá afhendir líkhúsið aðstandendum öskuna í þar til gerðu keri sem notað er til athafnarinnar og því er svo skilað inn til förgunar. Í lögunum stendur að öskudreifing geti farið fram á opnu hafi, í öræfum eða á sérmerktum reit kirkjugarða. Það segir líka í lögunum að öskudreifing eigi að fara fram á einum stað og hvað þýðir það. Er það staðurinn þar sem ég stend, eða ef ég ætla að ganga yfir fjall er það þá einn staður. Mér finnst líka merkilegt að það eigi að skila inn kerinu aftur. Hvers vegna má fólk ekki bara eiga það?“ Ari segist hafa heyrt sögu af fólki sem ætlaði að dreifa ösku látins ættingja á víðavangi en svo illa tókst til að þegar kerið var opnað fauk askan yfir viðstadda. Hann fór að velta því fyrir sér hvort ekki væri hægt að búa til eitthvað í stað kersins og datt í hug að hanna burðarpoka sem hentuðu betur til öskudreifingar á Íslandi heldur en þau ker sem nú eru í boði. Ari vildi að fólk gæti borið öskuna nær sér og líkamlega fundið fyrir henni í gegnum athöfnina. En hugmyndin hélt áfram að þróast og hugmyndin um göngustafinn fór að taka á sig mynd. „Aska hins látna er sett í stafinn sem er holur að innan með öskuhólk að ofan; stafurinn er fylltur frá botni og upp. Neðarlega á honum, eða rétt ofan við spíss, eru lítil göt þar sem að askan fellur úr honum í hvert skipti sem hann nemur við jörðu. Þannig tæmist stafurinn lítillega í hverju skrefi sem er tekið,“ útskýrir Ari og bætir við að það sé líka hægt að reka stafinn í jörðu og snúa hólki sem er inni í sjálfum hólknum á toppi stafsins. Við það opnast göt á báðum hliðum hólksins svo vindur getur þá blásið í gegnum hann og dreift öskunni jafnóðum. Á meðan geti þeir sem taka þátt í athöfninni, sest niður og horft á öskuna fjúka með vindinum. Ari segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við stafnum, hann hafi vakið athygli þeirra sem hafa séð hann. „Mig langar til að þeir sem eignast stafinn fari að líta á hann sem ættargrip. Grip sem fjölskyldurnar geyma hjá sér og hvetji þær um leið til að minnast þeirra sem hafa kosið að fara í sína hinstu ferð með stafnum.“ Hér er slóð inn á lokaverkefni Ara

Ritstjórn ágúst 13, 2018 08:07