Hlutskipti eldri kvenna sýnir að kvenfrelsisbaráttunni er hvergi nærri lokið

Jane Caro

„Ef allar konur í heiminum vöknuðu einn morguninn, berðu sér á brjóst og segðu „Ég er alveg ágæt eins og ég er“ myndu heilu hagkerfin riða til falls“.

Þegar ég sagði þetta í sjónvarpsþætti fyrir nokkrum árum, voru viðbrögðin mikil. Næstu tvö árin á eftir, varð ég fyrir því að fólk setti upp hæðnissvip þegar það sá mig. Þessi viðbrögð hættu, en staðhæfingin er ennþá sönn. Starfsemi margra stórra alþjóðlegra fyrirtækja byggist algerlega á óöryggi kvenna og ótta þeirra við að eldast“.

Þetta segir ástralski rithöfundurinn Jane Caro í grein á vef ástralska ríkisútvarpsins. Lifðu núna fékk greinina senda og hún fer hér á eftir þýdd og endursögð, enda ýmislegt í greininni sem gæti eins átt við konur hér á landi. Og greinin heldur áfram:

En ég segi við konur sem eru orðnar fimmtugar og eru jafnvel að ná því ótrúlega marki að verða sextugar „Óttist eigi“. Þetta á að minnsta kosti við þær flestar. Ég var í sjónvarpsþættinum The Drum í síðustu viku, ásamt þremur öðrum konum á mínum aldri og við vorum að ræða nokkur lykilatriði sem snerta konur sem eru komnar yfir fimmtugt. Þetta voru atriði eins og aldur, atvinna, fjármál og sambönd. Enn og aftur, vakti þátturinn gríðarleg viðbrögð, sérstaklega á samfélagsmiðlum. Menn voru yfir sig hrifnir af því að kastljósinu væri beint að þessum hópi, sem annars væri sáralítið fjallað um  í fjölmiðlum.

Kona nokkur skrifaði á Facebook að þeir sem mótuðu stefnuna í samfélaginu, hefðu einfaldlega „gleymt“ konum á þessum aldri.

Það er svo undarlegt, að það fer ákaflega lítið fyrir þeirri staðreynd, að eldri konur vilja gjarnan sjá sig í fjölmiðum, þeim finnst gaman að hlusta á aðra ræða um hlutskipti sitt og eru markhópur, sem menn hafa lítinn gaum gefið. Markaðsfólki, þáttastjórnendum og fréttamönnum finnst þær ekki „sexy“ þannig að þeir átta sig ekki á því að þeim finnst sjálfum þær vera það. Margar konur á sextugsaldri njóta lífsins. Þær eru með barnabörnunum sínum, hafa meiri frítíma en áður og finna fyrir auknu sjálfstrausti.  En aðrar konur standa frammi fyrir því að það fylgja því ýmis vandamál að eldast, sem hafa ekkert að gera með það hvernig þær líta út eða hvernig þeim líður.

Margar þurfa að kljást við að hafa ekki næga atvinnu og glíma við fjárhagsvanda eða heimilisleysi. Birtingarmynd misréttis kynjanna, sem bitnar sérstaklega illa á konum sem hafa, merkilegt nokk, gert einmitt  það sem þeim hefur verið sagt að gera.

Óvæntir kostir við lífið eftir fimmtugt

Það hefur ýmsa kosti í för með sér fyrir konur þegar þær lenda „öfugu megin“ við fimmtugt. Þær hætta að hafa blæðingar og það er bókstaflega ekkert neikvætt við það.  Eigi þær börn, þá eru þau uppkomin og fara að heiman. Þær upplifa jafnvel hvað það er yndislegt að eignast barnabörn. Og sem amma, get ég fullvissað ykkur um að það er alveg frábært!

Eldri konur verða heimilislausar.

Já og um leið og við hættum að annast annað fólk, í bókstaflegum skilningi, þá hætta margar okkar með aldrinum að hafa nokkrar áhyggjur af því hvað öðrum finnst um þær, sérstaklega hvernig öðrum finnst þær líta út.  Og EF, ég segi stórt ef hér, við erum svo heppnar að búa við fjárhagslegt öryggi, þá höfum við loksins þann tíma og þá peninga sem þarf til að leyfa okkur að hugsa um okkur sjálfar og gera það sem okkur langar til.

Það er þess vegna sem konur sem eru komnar yfir fimmtugt, flykkjast á öll námskeið. Námskeið í listum, yoga, pilates og vatnsleikfimi. Þær fylla líka kvikmyndahúsin – og hér er rétt að koma með ábendingu til þeirra sem gera kvikmyndir. Ef myndirnar myndu fjalla um okkur færum við jafnvel oftar í bíó!  –  Þær streyma í leikhúsin, á söngleiki, eru í bókaklúbbum, ferðast, fara í skemmtisiglingar og á sumardvalarstaði.

En ef konur eru ekki svona heppnar, þá taka ókostir þess að vera kona á sig enn fleiri myndir þegar við eldumst. Af því að þess er vænst af okkur allt lífið að við önnumst annað fólk, er fórnarkostnaðurinn hár fyrir okkur allar. Fyrir sumar okkar er hann svo óheyrilegur að það ræðst ekkert við hann. Þegar þær verða fimmtugar, bíða þeirra þannig hremmingar að áhyggjur af hrukkum og slapandi kinnum hverfa umsvifalaust út í buskann.

Kvenfrelsisbaráttunni er ekki lokið

Þegar konur verða fimmtugar getur orðið erfiðara að halda starfinu og sama gildir raunar um karla. Ef þær hafa verið í láglaunastörfum sem þarfnast lítillar fagþekkingar, getur það orsakað meiriháttar hamfarir ef þær missa vinnuna.

Ef þær hafa starfað alla sína tíð ófaglærðum störfum – og það er rétt að minnast þess að konur af minni kynslóð voru oft hvattar til að vera ekkert að eyða tímanum í að mennta sig því þær ættu eftir að giftast og eignast börn og eiginmaðurinn myndi sjá fyrir þeim – þá eiga þær á hættu að verða fátæktinni að bráð.

Þær hafa ekki mikið fyrir sig að leggja, því þegar konur í Ástralíu fara á eftirlaun, fá þær næstum helmingi lægri upphæð en karlarnir, eða 105 þúsund dollara á meðan karlarnir fá 197 þúsund dollara. Fimmtugar konur eru taldar of gamlar fyrir vinnumarkaðinn, of ungar til að fara á eftirlaun og eiga ekki rétt á örorkubótum.

Ef þær eiga ekki íbúð, eða hafa selt hana til að geta lifað af kaupverðinu – hvað er annað hægt að gera ef þú hefur engar tekjur? – geta þær misst heimili sitt ef húsaleigan eða rafmagnsreikningurinn hækkar.  Það er staðreynd að meðal heimilislausra, eykst hópur kvenna 55 ára og eldri hraðast.

Þess vegna snýst kvenfrelsisbaráttan ekki um stundargaman hvítra millistéttarkvenna. Hún snýst um að greina misréttið sem konur eru beittar allt sitt líf og koma verst niður á þeim, þegar síst skyldi.

Kvenfrelsisbaráttunni er hvergi nærri lokið. Hún hjálpaði konum af minni kynslóð til að öðlast sjálfstæði sem mæður okkar og ömmum gátu bara látið sig dreyma um. Aðrar konur, sérstaklega þær sem töldu sig ekki hafa nokkra þörf fyrir þessa baráttu þegar þær voru ungar, standa nú frammi fyrir því að samfélag kynjamisréttisins hefur skilið þær eftir úti í kuldanum, í þess orðs fyllstu merkingu.

Ritstjórn júlí 5, 2017 12:33