Tengdar greinar

Hrökklast eldra fólk aftur inn í skápinn?

Lifðu núna vekur athygli á því að á Hinsegin dögum, sem nú standa yfir, er aðalþemað hinsegin á öllum aldri.

Ragnhildur Sverrisdóttir, sem situr í stjórn Hinsegin daga, er í áhugaverðu viðtali við Fréttablaðið þar sem hún vekur athygli á eldra hinsegin fólki. „Þau sem stóðu að stofnun Samtakanna ’78 á sínum tíma eru komin á ellilífeyrisaldur.“ Af þeim sökum hafi ákvörðun verið tekin um að vekja athygli á ólíkum aldurshópum hinsegin fólks. „Við þurfum líka að pæla í því hvernig það er að eldast hinsegin,“ segir Ragnhildur.

Í viðtalinu segir Ragnhildur að á hjúkrunarheimilum landsins blasi við alveg nýr veruleiki: Fólk sem sé að koma þar inn hafi sumt verið opið með sína kynhneigð og út úr skápnum mestan hluta ævinnar. „Þetta fólk hefur ekki verið í felum með hver þau eru og vill halda því áfram. Það vill ekki fara inn í skápinn af því það er komið á hjúkrunarheimili.“

Þá segir Ragnhildur frá reynslu konu einnar hér á landi sem fór inn á hjúkrunarheimili, en hún hafi upplifað að það væri ekki tekið tillit til reynslu hennar og langrar sambúðar hennar með konu. Hún hafi í raun verið komin inn í skápinn aftur af því að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að hún væri lesbísk. Ávallt sé gert ráð fyrir því, alveg frá leikskóla og upp úr, að foreldrar séu karl og kona og að maki sé af hinu kyninu.

Ragnhildur segir að þetta sé mjög lýjandi fyrir eldra hinsegin fólk. Í stærri samfélögum eins og Danmörku séu rekin sérstök hjúkrunarheimili og elliheimili fyrir þennan hóp. „Ég sá til dæmis viðtal við gamlan Dana fyrir nokkrum árum. Hann hafði bara stungið myndunum af sér og manninum sínum niður í skúffu. Honum fannst erfitt að þurfa að koma út úr skápnum aftur gagnvart öllu starfsfólkinu á þessu nýja heimili sínu, svo hann bara hrökklaðist inn í skápinn aftur. Svo var stofnað þetta nýja hjúkrunarheimili, hann flutti þangað og er með allar sínar fjölskyldumyndir og regnbogafána upp um alla veggi, alls staðar. Þetta skiptir máli, það skiptir máli að fá að hvíla sæll í sjálfum sér, sama hvar þér er holað niður,“ segir Ragnhildur í viðtali við Fréttablaðið.

Viðtalið má nálgast í heild sinni með því að smella hér.

Ritstjórn ágúst 3, 2021 14:07