Hvað er Alzheimer sjúkdómur?

Jón G. Snædal

Jón G. Snædal skrifar.

5. pistill

Einfalda skilgreiningin er “taugahrörnunarsjúkdómur í heila” en það eru til fleiri slíkir sjúkdómar þannig að frekari skýringa er þörf.  Almennt er talið að sjúkdómurinn orsakist af amyloid útfellingum í heila. Sýnt hefur verið fram á að útfellingarnar hafa átt sér stað um lengri tíma, hugsanlega 1-2 áratugi áður en fyrstu einkenni koma fram. Tilgátan er vel undirbyggð og flestar lyfjarannsóknir síðustu áratugi hafa byggt á henni.  Hún hefur þó sætt gagnrýni því lyfjaþróun á grunni hennar hefur ekki gengið áfallalaust eins og rætt verður um í síðari pistlum.  Fyrsta lyfið sem sótt var um skráningu fyrir á þessari öld ræðst á útfellingarnar og hreinsar þær að miklu leyti úr heilanum. Ekki er ljóst hvort af skráningu verður en vonast er til að svo fari.

Alzheimer sjúkdómur kemur yfirleitt fram eftir 65 ára aldur en um 10% sjúklinga fá þó einkenni hans fyrr.  Í liðlega helmingi tilvika orsakast heilabilun af Alzheimes sjúkdómi sem er því algengasta ástæða heilabilunar.  Einnig geta einstaklingar með aðra heilasjúkdóma verið auk þeirra með Alzheimer breytingar í heilanum. Dæmi um það er æðakölkun með Alzheimer breytingum í heila (e: mixed vascular dementia and Alzheimer´s disease).

Algengast er að fyrstu einkenni Alzheimer sjúkdóms séu gleymska, einkum á nýliðin atvik en fleiri einkenni koma fram eftir því sem á líður. Í sumum tilvikum koma önnur einkenni fram á undan minnisröskun. Þessi einkenni geta verið truflanir á tjáningu (málstol), skert færni til athafna í daglegu lífi (verkstol), skert ratvísi o.fl.  Einkenni fara vaxandi með tímanum mjög einstaklingsbundið er hversu hratt það gerist. Munur á milli einstaklinga er svo mikill að réttara gæti verið að tala um Alzheimer rófið fremur en Alzheimer sjúkdóm. Líklegt er að um sé að ræða fleiri en einn sjúkdóm en framtíðar rannsóknir munu leiða í ljós hvort svo er.

Framan af getur verið erfitt að skera úr um hvort fram komin einkenni séu eðlileg eða af sjúklegum toga. Allir geta gleymt og “hversdagsgleymska” er til staðar hjá öllum svo sem m.a. hefur verið sýnt fram á í íslenskri rannsókn [1]. Ýmislegt getur orðið til þess að maður verði utan við sig eða gleyminn, svo sem áhyggjur, verkir, svefnleysi, lyfja- eða áfengisneysla, streita og svo mætti lengi telja. Það sem skilur þó á milli er að gleymska af völdum Alzheimer sjúkdóms ágerist með tímanum en helst að mestu óbreytt ef ekki eru sjúklegar breytingar í heila.

Orsakir sjúkdómsins eru óþekktar en vitað er að ýmislegt getur aukið líkur á honum.  Ákveðnir erfðaþættir geta aukið líkur á Alzheimer sjúkdómi en sterkasti áhættuþátturinn er hækkandi aldur. Þessum atriðum fáum við ekki breytt en í pistli um forvarnir gegn heilabilun er bent á ýmislegt annað sem getur tafið eða hugsanlega komið í veg fyrir sjúkdóminn. Þótt pistillinn hafi fjallað um forvarnir gegn heilabilun almennt á flest einnig við um Alzheimer sjúkóm.

Meðferð við sjúkdómnum má gróflega skipta í fjögur svið:

  • Meðferð aðra en lyfjagjöf
  • Lyfjameðferð við sjúkdómnum sjálfum
  • Lyfjameðferð við einkennum og/eða afleiðingum sjúkdómsins
  • Sálfélagslegur stuðningur.

Í síðari pistlum verður fjallað um alla þessa meðferðarmöguleika en næsti pistill verður um rannsóknaraðferðir til greiningar á heilabilunarsjúdómum.

Skilgreiningu á Alzheimer sjúkdómi er að finna í yfirlitsgrein [2].

 

Heimildir

  1. María K. Jónsdóttir, Steinunn Adolfsdóttir, Rúna Dögg Cortez, María Gunnarsdóttir og Ágústa Hlín Gústafsdóttir. Diary Study of Action Slips in Healthy Individuals. The Clinical Neuropsychologist 2007; 21(6): 875-883.
  2. McKhann G.M., Knopman D.S., Chertkow H., Hyman B.T., Jack C.R. Jr, Kawas C.H. et al. The diagnosis of dementia due to Alzheimer’s disease: recommendations from the National Institute on Aging-Alzheimer’s Association workgroups on diagnostic guidelines for Alzheimer’s disease. Alzheimer´s & Dementia 2011;7(3):263-269.

Þessi pistill birtist áður á vef Alzheimersamtakanna hér á landi.

Ritstjórn apríl 21, 2021 07:30