Hvernig eru orsakir heilabilunar greindar?

Jón G. Snædal

Jón G. Snædal öldrunarlæknir skrifar

6.pistill

Góðar upplýsingar eru grundvöllur allra sjúkdómgreininga og það á einnig við um greiningu á orsökum heilabilunar. Í því tilviki skiptir einnig miklu máli að fá upplýsingar frá nánasta aðstandanda,  um hvaða breytingar hafa orðið síðustu misseri og hversu miklar þær hafa verið. Einnig skiptir máli að fá góða mynd af færni til athafna daglegs lífs og að hvaða leyti sú færni hafi breyst. Lögð eru fyrir verkefni, svokölluð skimpróf. Þau eru einföld en veita þó vísbendingar um ástandið. Nákvæmt taugasálfræðilegt mat er notað þegar skerðing er ekki mjög mikil og felst það í fyrirlögn margvíslegra verkefna1). Matið getur gefið vísbendingu um tiltekinn sjúkdóm en gefur þó eitt og sér ekki sjúkdómsgreiningu. Auk þess að sýna í hverju veikleiki er fólginn sýnir það einnig styrkleika. Við túlkun þarf að taka tillit til aldurs, kyns og menntunar auk annarra atriða svo sem hugsanlegra geðraskana, lyfjanotkunar og áfengisneyslu svo fátt eitt sé nefnt.

Ef niðurstaða úr taugasálfræðilegu mati er eðlileg kallast ástandið “Upplifað minnistap” (sjá 3. pistil) og er þá sjaldan ástæða til frekari rannsókna.

Ef niðurstaðan sýnir væga skerðingu (væg vitræn skerðing) eða ef hún samrýmist vægri heilabilun er ástæða til að rannsaka til hlítar. Við val á rannsóknaraðferðum þarf að taka tillit til aldursbreytinga í heila. Einstaklingar sem komnir eru á níræðisaldur eru því venjulega ekki rannsakaðir með sömu aðferðum og þeir sem yngri eru.

Ýmsar nýjar greiningaraðferðir hafa verið þróaðar á síðustu 20 árum og heldur sú þróun væntanlega áfram en þetta eru þær rannsóknir sem koma helst til greina hér á landi.

  • Blóðrannsóknir eru gerðar hjá öllum óháð aldri.
  • Taugasálfræðilegt mat er venjulega gert hjá þeim sem eru með væga vitræna skerðingu eða heilabilun á fyrsta stigi.
  • Segulómun af heila er gerð hjá flestum nema þeim elstu en þá er oftast tekin tölvusneiðmynd af heila. Rannsóknina er ekki hægt að gera ef viðkomandi er með gangráð eða málmhluti í efri hluta líkamans.
  • Skoðun á mænuvökva er gerð í vaxandi mæli og getur verið afgerandi varðandi greiningu á Alzheimer sjúkdómi. Ýmislegt getur þó hindrað mænuvökvatöku svo sem fyrri bakaðgerð og blóðþynningarmeðferð.
  • Sykru-Jásjá (jáeindaskann = PET) sýnir efnaskipti í heila og getur stutt greiningu á Alzheimer sjúkdómi eða framheilabilun.
  • Heilalínurit getur stutt greiningu heilabilunarsjúkdóms og er nokkuð afgerandi við Lewy sjúkdóm.
  • DAT-ísótópaskann af heila er sértækt fyrir Parkinson og Parkinson plús sjúkdóma en Lewy sjúkdómur er einn þeirra.
  • SPECT-ísótópaskann af heila getur stutt grunsemdir um framheilabilun og Alzheimer sjúkdóm en er sjaldan notað eftir að jásjá kom til sögunnar.

Í þróun eru aðferðir til að mæla sérstök prótein í blóði sem eru í það litlum mæli að núverandi aðferðir mæla þau ekki. Ef þetta gengur eftir þarf ekki lengur að taka mænuvökva nema í sérstökum tilvikum2). Einnig er von á að jásjá verði notuð með öðrum ísótóp sem er sértækari varðandi Alzheimer, svokallað amyloid-PET. Þessi pistill gæti því verið úreltur fyrr en varir.

  1. Ryan W Schroeder, Phillip K Martin og Anne Walling. Neuropsychological Evaluations in Adults. Amercian Family Physician 2019; 15;99(2):101-108.
  2. https://www.health.harvard.edu/mind-and-mood/blood-test-may-find-early-signs-of-alzheimer
Ritstjórn apríl 29, 2021 07:09