Hvað er veira?

Jóhann Heiðar Jóhannsson

Jóhann Heiðar Jóhannsson læknir skrifar um veirur á Facebook síðunni sinni og leyfði okkur að birta færsluna hérna á vef Lifðu núna. Hann segir að sér hafi verið sagt frá fésbókarfærslu þar sem kvartað var undan því að ýmis orð og heiti, sem nú ber fyrir í tengslum við kórónuveirufaraldurinn, væru notðu á mismunandi hátt og ekki endilega vel útskýrð. Hann segist strax hafa fengið þá hugmyndi að úr þessu mætti ef til vill bæta með stuttum skýringafærslum. Hann viti þó að margt sé ekki hægt að útskýra í mjög stuttu máli. Í samtali við Lifðu núna sagði jóhann að þetta hefði verið skrifað til upplýsingar og til að vekja umræðu. Fyrsta færslan fjalli um veirur, en hann hafi í hyggju að skrifa fleiri.

HVAÐ ER VEIRA?

Veirur eru strangt tekið ekki lifandi verur. Þær eru gerðar úr kjarnasýru (erfðaefni), hafa engin líffæri, enga orkuframleiðslu og geta ekki viðhaldið sér sjálfar. Fjölgun þeirra og frekari dreifing byggist á því að þær komist inn í lifandi frumur, t.d. manna, dýra, plantna eða baktería, og að líffæri frumnanna sjái um fjölgunina. Um leið valda þær skemmdum í viðkomandi frumum og oftast frumudauða sem sleppir veirunum lausum út í líkamann. Dreifing til annarra líffæra getur svo aukið á skemmdirnar. Almennt leiðir þessi ferill til þess sjúkdóms sem verður fylgifiskur hverrar veirusýkingar, allt frá tímabundnu nefkvefi yfir í hættulegan sjúkdóm eins og eyðni. Sumar veirur koma einnig af stað frumufjölgun, svo sem vörtumyndun eða krabbameinsmyndun, og aðrar geta legið í dvala inni í líkamsfrumum, jafnvel árum saman, og að lokum virkjast til sjúkdómsmyndunar.

Veirurnar hafa oftast hjúp eða himnu sem getur verndað þær gegn meltingarsafa viðkomandi dýra, sem annars myndi brjóta þær niður eins og fæðuefnin. Hjúpurinn hefur einnig þann eiginleika að geta tengst frumuyfirborði og opnað veirunum leið inn í frumur tiltekinna líffæra. Þegar þangað er komið yfirtaka veirurnar framleiðsluferli frumunnar sem sér um að fjölga þeim. Dreifing verður til annarra líffæra og víðar í líkamanum, þaðan sem veirurnar geta útskilist og borist með líkamsvessum til annarra einstaklinga og „smitað“ þá. Hver veirutegund á sér sína smitleið, til dæmis dreifingu með dropum eða úða úr munnvatni eða með innihaldi sem er útskilið úr meltingar-, þvag- eða kynfærum.

Ónæmiskerfi líkamans getur framleitt sértæk mótefni og mótfrumur sem gera ákveðna veiru óskaðlega (óvirka). Kerfið geymir yfirleitt mótefnin í langan tíma og hefur þar að auki „minni“ sem varðveitir hæfileikann til að setja framleiðsluna af stað til varnar af fullum krafti ef veiran smitast aftur til sama einstaklings. Svonefnd bólusetning gegn tilteknum veirum verkar á sama hátt og leiðir þannig til mótefna- og mótfrumumyndunar og „ónæmis“ fyrir þeim.

Ritstjórn október 22, 2020 07:32