Hvað gerir valdamesta kona heims þegar hún fer á eftirlaun?

Miðvikudaginn 8. desember fara fram ríkisstjórnaskipti í Þýskalandi, vel yfir tveimur mánuðum eftir sambandsþingskosningarnar í september. Þar með verða mikil tímamót: Angela Merkel hættir sem kanslari Þýskalands eftir 16 ár í þessu valdamesta embætti Evrópu. Reyndar hefur Merkel ítrekað vermt efsta sætið á listum sem gerðir hafa verið yfir valdamestu konur heims.

Merkel varð 67 ára í júlí sl. En hvað gerir manneskja eins og hún á slíkum tímamótum? Dregur hún sig einfaldlega í hlé? Þegar hún var sjálf spurð að því hvað hún hygðist gera þegar hún hætti sem kanslari – þá stödd í Washingtonborg að taka við heiðursdoktorsnafnbót í júlí í sumar – svaraði hún: Fyrst ætla ég nú bara að hvíla mig. Og lesa bækur. Hún muni gefa sér tíma til að hugsa um hvað hún hafi mestan áhuga á að gera í framhaldinu. Til slíks hafi hún einfaldlega engan tíma haft í embættisönnum sínum.

Embættisannir Merkel munu, þegar hún lætur af embætti, hafa varað í 5860 daga. Þar með vantar ellefu daga uppá að hún næði að slá embættissetumet hins pólitíska læriföður síns Helmuts Kohl, en hann var kanslari frá 1982 til 1998.

Heldur sjö manna skrifstofu, lífverði og bílstjórum

Fyrir liggur þó að hún hefur samið um að halda sem fyrrverandi kanslari einkaskrifstofu í Berlín með sjö manna starfsliði, auk tveggja einkabílstjóra. Til réttinda fyrrverandi ríkisstjórnarleiðtoga Þýskalands tilheyrir einnig lífvörður og ráðherrabíll til æviloka, á kostnað skattborgaranna. Eftir svo langan tíma í embætti á hún jafnframt rétt á nokkuð rausnarlegum eftirlaunum, sem samsvara um 2,25 milljónum króna á mánuði. Auk þess fær eiginmaður hennar, emeriteraði eðlisfræðiprófessorinn Joachim Sauer, þokkalegustu eftirlaun líka, en hann er fimm árum eldri en Merkel. Hjónin eru barnlaus.

Einn fyrirrennara Merkel, jafnaðarmaðurinn Helmut Schmidt sem gegndi kanslaraembættinu 1974-1982, setti sér þá reglu að þiggja ekki boð um að halda opinbera fyrirlestra nema gegn lágmarksgreiðslu uppá 15.000 Bandaríkjadali (tæplega tvær milljónir króna). Helmut Kohl stofnaði sem fyrrverandi kanslari ráðgjafarfyrirtæki sem skapaði honum drjúgar tekjur á hans efri árum. Næsti forveri Merkel í embætti, Gerhard Schröder, hefur frá því skömmu eftir kanslaratíð sína verið á mála hjá rússneska gasútflutningsrisanum Gazprom sem sérstakur talsmaður hins umdeilda Nordstream-verkefnis, gaslagnarinnar undir Eystrasaltið frá Rússlandi til Þýskalands.

Þessi umdeildu vistaskipti Schröders urðu reyndar til þess að sett voru lög sem skylda alla sem átt hafa sæti í ríkisstjórn Þýskalands til að spyrjast fyrir um það hjá kanslaraembættinu hvort starfsemi, sem þeir hyggjast taka að sér úti í atvinnulífinu eftir að hafa látið af embætti, „samræmist opinberum hagsmunum“ eða ekki. Siðanefnd er ríkisstjórninni til ráðgjafar í slíkum málum, og getur sett skilyrði um allt að átján mánaða biðtíma eftir að fyrrverandi ráðherrar taki að sér tiltekin störf, að því er Deutsche Welle greinir frá á fréttavef sínum.

Töluverð eftirspurn

Upptalningin hér að framan sýnir að margvísleg fordæmi eru fyrir því að fyrrverandi Þýskalandskanslarar skapi sér tekjur út á reynslu sína af að gegna þessu valdamikla embætti. Hvaða leið barnlausa prestsdóttirin frá Templin í Brandenborg kýs að fara að þessu leyti á eftir að koma í ljós, en bóka má að töluverð eftirspurn – ekki síst frá aðilum utan Þýskalands – muni verða eftir því að hún leggi sitt þekkta og virta nafn við hin ýmsu verkefni og málstaði.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar

Ritstjórn desember 8, 2021 07:33