Tengdar greinar

Hvaða væntingar hafa eldri karlar til stefnumóta?

Þeir sem eru í kringum starfslokaaldurinn eru í auknum mæli farnir að dúkka upp á stefnumótasíðum, í leit að félaga eða maka. Einhleypum konum sem eru sextugar og eldri hefur fjölgað, ýmist vegna skilnaða eða makamissis. Það hefur mikið verið rætt og ritað um þessi mál, aðallega þó á erlendum vefsíðum, en ekki íslenskum. Fámennið hér á landi gerir að verkum að það eru fáir af eldri kynslóðinni tilbúnir að deila reynslu sinni af stefnumótasíðum, þó það komi fyrir. Lifðu núna var þannig nýlega með viðtal við par sem fann ástina í gegnum Makaleit.is.

Fleiri og fleiri kynnast í gegnum stefnumótasíður, fólk á öllum aldri. Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur, kynntust mikið á böllum. Er það verra að kynnast edrú á stefnumóatsíðu og reyna að finna út fyrirfram hvort fólk á eitthvað sameiginlegt, en hittast á balli eða á  bar? Það eru sjálfsagt ýmsar skoðanir á því. Blaðamaður Lifðu núna hnaut um grein á vefnum Sixty and me sem bar yfirskriftina, Það sem eldri karlar vilja þegar kemur að stefnumótum á eftirlaunaaldrinum. Þú gætir orðið hissa. Þó þetta séu bandarísk ráð, er forvitnilegt að skoða þetta.

Einhleypar konur vilja gjarnan hitta karla á svipuðum aldri og skilja ekkert í því hvað hefur orðið af einhleypum körlum á þeirra reki, segir í grein af vefnum Lifðu núna, sem stuðst var við í þessari grein.

Vinnur tölfræðin gegn okkur þegar við eldumst?

Karlar lifa ekki jafn lengi og konur. Þess vegna stendur fólk frammi fyrir því í ýmsum löndum að konurnar eru áberandi fleiri en karlarnir eftir að 65 ára aldri er náð.

Þetta gildir um öll lönd heims og kynjahlutfallið breytist með aldrinum. Því eldri sem við verðum, því meiri verða breytingarnar. Kynjahlutfallið er þannig nokkurn veginn jafnt í hópnum sem er fimmtugur, eða einn á móti einum.  Þegar litið er á hóp sjötugra, er kynjahlutfallið 89 karlar á móti 100 koum og í hópnum sem er hundrað ára, er það 25 karlar á móti 100 konum.

Þetta eru frekar letjandi upplýsingar, en engin ástæða til að láta hugfallast. Gráum skilnuðum fjölgar og fleiri og fleiri verða einhleypir á eftri árum. Margir missa maka sinn til áratuga. Í greininni á vefnum sixtyandme.com  er rætt við Lisu Copeland stefnumótaráðgjafa sem segir:   „Við erum ekki endilega að leita að eijnhverjum til að giftast og búa með í áratugi. Mörg okkar eru að leita að félaga, vini eða elskhuga án skuldbindinga. Sem betur fer er þetta góður tími fyrir eldri einhleypar konur á stefnumótamarkaðinum. Fjölgun „grárra“ skilnaða gerir að verkum að það eru fleiri einhleypir karlar um sextugt í svipuðum sporum. „Það gæru verið fleiri álitlegir karlmenn þarna úti, en þú heldur, bara ef þú gefur þeim tækifæri“, segir Lisa sem segir líka að það þurfi að sýna staðfestu og gefast ekki upp í makaleitinni  þótt nýr félagi láti bíða eftir sér.

Hérna fyrir neðan koma upplýsingar um það sem eldri karlar hafa áhuga á, eða kannski öllu heldur hvernig best er fyrir konur að ná til eldri karlmanna á fyrsta stefnumóti. Tekið er fram að karlar hafi hreint ekki eingöngu áhuga á sér yngri konum.

Hugsaðu um útlitið

Það þýðir ekki að þú þurfir að líta út eins og þú sért tvítug. Bara að kalrmanni finnist eitthvað spennandi við þig.

Reyndu að klæða þig örlítið uppá, fyrir fyrsta stefnumótið með einhverjum sem þú þekkir ekki, en klæddu þig samt þægilega og vertu í góðum skóm. Farðu í eitthvað sem þér finnst passa þér og þínum stíl.

Hugsaðu vel um sjálfa þig.

Þú ert kannski ekki í sömu fatastærð og fyrir 30 árum, en ef þú borðar rétt og hreyfir þig reglulega, þá sést það.

Brostu

Eldri körlum finnst konur sem brosa og eru hressar og vingjarnlegar, vera aðlaðandi. Ræddu við tannlækninn þinn, til að athuga hvort hann getur aðstoðað þig við að hvítta tennurnar. Hvítari tennur gera að verkum að þér finnt þú vera yngri en þú ert.

Leyfðu honum að njóta sín

Ekki gera ráð fyrir að eldri kalrmenn séu konur í karlmannsklæðum. Menn á þessum aldri hafa oft sterkar og fyrirfram gefnar skoðanir á karlmennsku sinni og áhugamálum.  Sýndu áhugamálum mannsins áhuga og taktu eftir hvort það er gagnkvæmt og hann spyrji þig út í þín áhugamál. Umræður um þetta ættu að vera á jafnréttisgrundvelli en ekki stjórnast eingöngu af skoðunum annars aðilans.

Ekki fara í leiki

Heiðarleiki og virðing eru mikilvæg – engar uppákomur og engin uppgerð.  Ef þú ert heiðarleg og sleppir því að fegra hlutina áttu ekki á hættu að það komist upp um þig síðar og þú missir trúverðugleikann. Það er líka þannig að ef þú ert heiðarleg eru meiri líkur á að „mótleikari“ þinn verði það líka. Sama gildir um virðinguna

Ekki vera of alvarleg

Reyndu að slappa af og leita félagsskapar sem byggist á sameiginlegum gildum og áhugamálum. Eldri karlar eru hrifnir af konum sem hafa kímnigáfu. Ef þú hefur hana skaltu nota hana. Það væri kannski ráð að skella sér á uppistand með „deitinu“ Þannig sérðu hvort hann hefur svipaða kímnigáfu og þú.

Vertu eðlileg

Það getur verið erfitt að reyna að falla inní mót, eða að vera manneskja sem þú heldur að eldri karlar hafi áhuga á. Maður verður algerlega uppgefinn. Karlinn sem þú ferð til fundar við finnur líka strax ef þú ert að gera þér eitthvað upp. Það getur orðið til þess að hann missi áhugann algerlega.

Ekki hreykja þér og ekki reyna að „selja“ sjálfa þig á fyrsta stefnumóti – þetta er ekki atvinnuviðtal.  Vertu bara þú sjálf og leyfðu persónulegu eiginleikum þínum að njóta sín. Það kemur alltf best út og virkar því best. Bæði á stefnumótum og úti í lífinu.

Ekki burðast með gamlan farangur

Það er ljóst að fólk sem er um sextugt á sér fortíð og hefur ýmislegt í farteskinu. Margir eiga sér fyrrverandi maka, stundum fleiri en einn, börn og alls kyns lífsreynslu sem hefur haft áhrif á það hver við erum í dag. Að fara að ræða of mikið um fyrrverandi maka eða fyrri sambönd getur haft þau áhrif að þú virðist reið. Að tala illa um fyrrverandi maka getur komið í bakið á þér og gefið til kynna að það sért þú sem eigir við vandamál að stríða.

Að því söðgu er rétt að árétta að það á ekki að fela neitt heldur, eða halda fortíðinni leyndri. Það er gott að finna jafnvægi í þessu og deila mátulega miklum upplýsingum.

Þú þarft að vita hvað þú vilt

Ef þú hefur hugsað þér að fara á stefnumótasíðu eftir sextugt, skaltu byrja á að gera þér grein fyrir hvað þú vilt. Hvernig karlmann langar þig að hitta?

Gerðu þér einnig grein fyrir því hvaða atriði það eru sem þú getur alls ekki sætt þig við í fari karlmanns. Hvað er það sem myndi fæla þig frá því að fara á stefnumót við mann?  Það er mikilvægt að spyrja sig þessara spurninga. Það geta svo verið önnur atriði sem skipta minna máli. Eitthvað sem þú ert ekki hrifin af, en kemur samt ekki í veg fyrir að þú getir farið á stefnumót við einhvern.

Að sama skapi, skaltu hafa það alveg á hreinu hvernig sambandi þú ert að leita að. Vertu heiðarleg við sjálfa þig og þann sem þú fórst á stefnumót við. Það þjónar engum tilgangi að fara á stefnumót við karl sem vill bara hitta mismunandi konur þegar honum dettur það í hug, ef þú ert að leita að alvarlegu sambandi. Ekki reyna að sannfæra einhvern eða breyta honum. Vertu bara þú sjálf og farðu á stefnumót við karlmenn sem eru á svipuðum stað í lífinu og þú, með svipuð markmið.

Ritstjórn júlí 11, 2023 07:00