Hver kynslóð hefur skilað öflugra hagkerfi en hún tók við

Gylfi Magnússon dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands hefur rannsakað viðskipti kynslóðanna innan hagkerfisins og fundið margt sem er forvitnilegt að kynna sér. Á tímabilinu frá 1870-2011 var vöxtur hagkerfisins á Íslandi ótrúlegur og landsframleiðsla á mann fimmtánfaldaðist. Gylfi segir að hver kynslóð hafi byggt upp ríkara samfélag en hún tók við. Gengnar kynslóðir hafi einnig skilað góðu samfélagi sem sé auðugt af menningu og listum svo dæmi sé tekið. Íslendingar séu afar rík þjóð, sárafá dæmi séu um ríkari þjóðir. Geta hagkerfisins hafi stöðugt aukist, framleiðslugeta þess hafi til að mynda sextugfaldast frá 1870, en líkur séu á að það hægist á vextinum á þessari öld. Meðal annars vegna þess að þjóðin sé að eldast og auðlindir að minnka. Aldraðir séu almennt ekki stórefnaðir en margir hafi lagt til hliðar. Fjárhagsleg staða þeirra sem eru að eldast verði betri á næstu áratugum vegna lífeyriskerfisins, en þeirra sem nú eru að fara á eftirlaun.

Verða öflugur þrýstihópur

„Íslenskt samfélag getur tryggt stöðu þeirra sem byggðu það upp“, segir Gylfi. „ En hamingja og ríkidæmi eru ekki endilega það sama. Íslendingar bera sig saman við Norðmenn, ríkustu þjóð í heimi og finnst þeir aldrei nógu ríkir. Ungir Íslendingar geta verið ánægðir með hvað þeir hafa það gott og eiga það eldri kynslóðum að þakka“, segir hann og bætir við að aldraðir hafi ekki verið nægilega öflugur þrýstihópur til að knýja á um sín mál. Þegar þessi hópur verði farinn að telja um 100 þúsund manns með atvkæðisrétt kunni þetta að breytast.

Betra að bjóða meiri sveigjanleika

Gylfi telur að mannauður landsins nýtist ekki jafn vel og æskilegt væri. Aldursmörk hvað varðar starfslok hafi verið sett á meðan fólk lifði miklu skemur. Það er engum greiði gerður með því að þvinga fólk til að hætta að vinna sem er alveg fært um það. „Það væri betra að bjóða upp á sveigjanlegri vinnutíma og að þeir sem eldri eru færu frekar í „mentor“ hlutverk á vinustaðnum og hlutastörf. Það er niðurdrepandi að vera settur til hliðar löngu áður en menn eru tilbúnir í það“, segir Gylfi. Og heilsan skiptir miklu máli í hagkerfinu „Það segir sig sjálft“, segir hann. „Mönnum liður ekki bara betur ef þeir eru við góða heilsu, þeir afkasta meiru og kostnaður minnkar. Fjárfesting í forvörnum er arðbærasta fjárfesting sem samfélagið getur lagt í. Þjóðin er að verða betur menntuð, það gildir líka um þá sem eldri eru og þeir sem skilja samfélagið eru líklegir til að geta breytt því.

Ritstjórn júní 16, 2014 14:08