Hverjum treystir þú best til að fara með þín mál?

Sú stund kann að renna upp í lífi allra að þeir geti ekki lengur farið með forsjá eigin mála. Sjúkdómar eða slys geta gert það að verkum að fólk er ekki lengur fært um að láta vilja sinn í ljós eða gera sig skiljanlega. Hægt er að ganga frá umboði til handa einhverjum sem þú treystir sem tæki gildi þegar og ef eitthvað kæmi fyrir þig. En þá gildir að velja vel þann sem þú ákveður leggja ákvarðanavaldið í hendurnar á og einnig að sjá til þess að þinn vilji sé alveg skýr.

Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður

Umboð til framtíðarforsjár er einkaréttarlegur valkostur sem getur skipt máli ef heilabilun eða önnur alvarleg veikindi valda því að þú þurfir aðstoð einhvern tíma í framtíðinni. Slíkt umboð tæki gildi þegar sá sem gefur það út getur, vegna geðsjúkdóma, heilabilunar eða veikinda, ekki lengur gætt sinna hagsmuna. Í Noregi er nokkuð um að þetta sé gert og Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður og eigandi Búum vel, kannaðist kannast við að fólk spyrði um þetta atriði og hvað biði ef eitthvað brygði út af með maka þeirra eða aðra nána ættingja. „Já þetta er atriði sem fólk er mikið að velta fyrir sér og hjón vilja gefa hvort öðru allsherjarumboð ef þessi aðstaða kemur upp,“ segir hún.

Sá aðili sem nefndur er í slíku umboð til framtíðar getur notað það eins og það er, þegar það tekur gildi, án þess að þurfa endilega staðfestingu frá opinberum aðilum um rétt sinn til þess. En einnig er hægt að setja það skilyrði í slíkt umboð að staðfesta þurfi hjá einhverju opinberu yfirvaldi þörfina fyrir að það taki gildi áður en viðkomandi yfirtekur forsjá mála þess sem gaf umboðið í upphafi. Í Noregi er það vald í höndum statsforvalteren á hverjum stað en þau embætti eru sennilega sambærileg við sýslumenn hér. Statsforvalteren sér um að framtíðarumboðið sé skráð hjá embættinu og lætur umboðshafa í té vottorð sem hann getur notað ef þörf krefur.

Læknisvottorð alltaf skilyrði

Það er einnig hugsanlegt að bankar og kortafyrirtæki geri kröfu um staðfestingu slíkra umboða áður en þeir veita umboðshafa aðgang að öllum bankaráðstöfunum og gögnum. Það kann að vera í formi læknisvottorðs eða staðfestingu frá lögmanninum sem aðstoðaði umboðsgjafann í upphafi. Framtíðarumboð eru þess eðlist að þau taka því aðeins gildi að sá sem umboðið ritar geti ekki, vegna geðsjúkdóma, heilabilunar eða veikinda, gætt þeirra hagsmuna sem umboðið tekur til en læknisvottorð um að svo sé er alltaf skilyrði fyrir því að umboðið taki gildi.

Árið 2020 var þinglýst 1.080 staðfestum framtíðarumboðum í Noregi, árið 2021 var fjöldinn 1.596 og útlit er fyrir að fjölgunin haldi áfram. Til að umboðið sé gilt, og til þess að statsforvalteren í Noregi geti staðfest það, er nauðsynlegt að það uppfylli formkröfur, sem  samsvara kröfum um gerð erfðaskrár. Einnig er gert ráð fyrir að umboðsgjafinn (þ.e. sá sem umboðið tekur til) hafi getað skilið merkingu umboðsins þegar það var gert. Þá fyrst gildir umboð til framtíðar og er það því óháð því hvort statsforvalteren hefur staðfest það nema, eins og fyrr segir að það skilyrði sé beinlínis sett í framtíðarumboðinu.

Þeir annmarkar sem geta verið á gerð framtíðarumboða og orðið til þess að þau séu ekki tekin gild eru til dæmis að vottar uppfylla ekki skilyrði, að umboðið sé ekki skriflegt eða óundirritað. Umboð getur líka verið ógilt ef sá sem samdi umboðið skildi ekki merkingu skjalsins sem hann undirritaði.

Umboð af þessu tagi eru öryggisatriði og tryggja að einstaklingur getur valið þann sem hann treystir best til að fara með forsjá sinna mála þegar og ef hann getur það ekki sjálfur. Hugsanlega munu Íslendingar fara að dæmi Norðmanna og hefja að gera slík umboð um leið og þeir gera erfðaskrár.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 12, 2024 07:00